Hrunið: Sumir jafnari?

Þegar hér er komið sögu hafði ríkið tilkynnt að það myndi kaupa 75% í Glitni með 84 milljarða innspýtingu. Þjóðfélagið stóð á öndinni og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Þegar blaðið kom í Seðlabankann að morgni 2. október ákvað bankastjórinn að hringja umsvifalaust í mig sem ritstjóra Vísbendingar, enda fátt á döfinni hjá honum. Meira um það samtal hér neðst.


Margir velta því fyrir sér hvort eðlilega hafi verið að málum staðið þegar ríkið keypti Glitni. Meðal annars er vikið að eigendavanda bankans, en engum hefur dulist hinn opni fjandskapur sem verið hefur milli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Davíðs Oddssonar. Ríkið metur banka sem er með eiginfé upp á 200 milljarða króna (þ.a. 63 milljarða í óefnislegar eignir) sem 28 milljarða verðmæti. Hefðu eigendur annarra banka fengið svipaða meðferð? Líklega eru flestir þeirrar skoðunar að svo hefði verið með Kaupþing. Í forystugrein Fréttablaðsins (í eigu Jóns Ásgeirs og skyldra aðila) 30. september segir:

„Í þessu ljósi er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ekki var talið rétt að Seðlabankinn kæmi fram sem lánveitandi til þrautavara við þessar aðstæður. Miðað við sveigjanleg viðbrögð erlendra seðlabanka við aðstæður líkum þessum er þörf á að skýra þessa atburði betur og þá grundvallarstefnu sem að baki býr. Verður sömu ráðum fylgt ef frekari aðstoðar verður þörf á fjármálamarkaði?“

Í Morgunblaðinu (í meirihlutaeigu Landsbankaeigenda) er sagt frá því að Jón Ásgeir hafi dembt sér yfir viðskiptaráðherra sem hann kallaði til næturfundar við sig með einhverjum stjórnarþingmönnum: „Jón Ásgeir ræddi sjálfur við ráðherrann en þeir Þorsteinn Már og Lárus ræddu við þingmennina. Samkvæmt sömu heimildum var afar þungt hljóðið í Jóni Ásgeiri og hann lét ráðherrann fá það óþvegið og bókstaflega dembdi sér yfir hann. Efnislega beindist öll hans gagnrýni að Davíð Oddssyni og hann reifaði þá samsæriskenningu að seðlabankastjóri væri nú að koma fram hefndum og vinna fullnaðarsigur á Jóni Ásgeiri og fjölskyldu hans. Fáum sögum fer af viðbrögðum ráðherrans við efnisinnihaldi þessa næturfundar en hermt er að hann hafi verið svo gott sem orðlaus. Hvað varðar fundi stjórnarformanns og forstjóra Glitnis með þingmönnum er sagt á sömu lund og fundur Jóns Ásgeirs með bankaráðherranum en mun hófstilltari á allan hátt.“

Það er alveg öruggt að þessi kaup ríkisins verða deiluefni milli hagfræðinga alla 21. öldina.


Samtalið við Davíð 2. október var einhvern veginn á þessa leið.

Davíð: Ertu að gefa það í skyn að ég hefði verið viljugri að bjarga Bjöggunum?

Benedikt: Nei, ég segi bara að það sé óheppilegt í þessu máli að það sé fjandskapur milli þín og Jóns Ásgeirs.

D: Það er ekki rétt. Ég hef aldrei sýnt honum neinn fjandskap opinberlega.

B: Jú, jú. Í bolludagsviðtalinu sagðir þú að þú hefðir litlar mætur á þeim Bónusfeðgum.

D: [Það kom aðeins á hann, en hann hélt svo áfram] Heldurðu virkilega að ég láti annarleg sjónarmið ráða?

B svarar engu en reynir að finna blaðið á borðinu hjá sér.

D: Þú segir ekkert, ertu að reyna að gúgla eitthvað fleira?

B: [Hefur nú fundið blaðið] Nei, þú ert greinilega ekki búinn að lesa allt blaðið, ég ætla að lesa fyrir þig bút úr forsíðugreininni [sem fjallaði um kaupin]:

„Björgunaraðgerðin er áfall fyrir íslenskt viðskiptalíf. Bankamenn hafa ekki aflað sér samúðar þjóðarinnar. Miklir bónusar og lúxuslíf þeirra hefur gengið fram af fólki. Það breytir þó ekki því, að fjalla ber um þetta mál án þess að blanda inn í það persónulegum erjum einstakra manna. Það er útilokað að slíkt hafi ráðið úrslitum í slíku stórmáli fyrir þjóðina.“

Þetta er það sem mér finnst um málið.

D: Nú. [Stutt þögn] Ég þarf að fara á fund klukkan ellefu. [Klukkuna vantaði eina mínútu í 11]. Vertu blessaður.


Þessi grein birtist í 36. tbl. Vísbendingar, dagsett 26. september 2008, en kom í raun út 1. október, 5 dögum fyrir Hrun. Mynd Halldórs birtist í 24 stundum þann 30. september. Myndir Halldórs eru birtar með hans leyfi.

Fyrri greinar í þessum flokki:

HRUNIÐ: EKKI BENDA Á MIG

HRUNIÐ: FYRIR HVERN ERU GREININGARDEILDIR BANKANNA?

HRUNIÐ: MOODY BLÚS

HRUNIÐ: UPP RÚLLUSTIGANN

HRUNIÐ: TÍÐINDALAUST Á VESTURVÍGSTÖÐVUNUM

HRUNIÐ: BER RÍKIÐ ÁBYRGÐ Á BÖNKUNUM?

HRUNIÐ: Æ, SAGÐI ÉG ÖRUGGT?

HRUNIÐ: SVOLEIÐIS VAR ÞAÐ

HRUNIÐ: Á LÖGLEGUM HRAÐA

HRUNIÐ: HANN KANN ÞAÐ

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.