Á árunum fyrir hrun töldu margir að þeir hefðu gullna fingur, allt sem þeir snertu yrði að gulli. Þetta var auðvitað rangt.
Árið 2008 skrifaði ég fjölmargar greinar í aðdraganda hrunsins, í því miðju og mánuðina á eftir. Næstu vikur ætla ég að birta eina grein frá þessu ári á dag. Sé til hversu lengi.
Framan á fyrsta tölublaði Frjálsrar verslunar í ár er texti sem olli höfundi þessa pistils heilabrotum: „Upp stigann. En niður með lyftunni.“ Skýringuna er að finna í leiðara blaðsins: „Á ráðstefnu nýlega lýsti þekktur fjárfestir hlutabréfamarkaðinum þannig að fjárfestar hefðu klöngrast upp stigann upp á efstu hæð í tólf hæða fjölbýlishúsi á síðustu fimm árum, baðað þar út höndum af ánægju um tíma í sumar, en tekið svo lyftuna hratt niður. Þetta var vel orðað og salurinn hló.“
Því verður ekki á móti mælt að þetta er smellin samlíking, en hún lýsir því sem gerst hefur ekkert mjög vel. Á undanförnum árum auðguðust margir mikið vegna hækkunar á hlutabréfaverði og markaðurinn fylltist aðdáun á snjöllum fjárfestum sem breyttu öllu sem þeir snertu í gull. En ekki er allt sem sýnist.
Vegna þess að aðgengi að lánsfé var gott jókst eftirspurn mikið. Hlutabréfaverð rauk upp. Jafnframt var hægt að halda verðinu uppi með því að kaupa öll hlutabréf sem voru á markaði. Verð réðst því ekki af undirliggjandi rekstri heldur eftirspurn. Ferð fjárfesta upp var því alls ekki eins og príl upp stiga.
Miklu frekar mætti líkja ferðinni við að menn hefðu komið sér fyrir í rúllustiga sem fer upp á milli hæða. Allir í stiganum færast í sömu átt. Yfirleitt fer stiginn svo hratt að jafnvel þeir sem ganga aftur á bak mjakast upp á við.
Í slíku ástandi þarf ekki sérstaka snilli við fjárfestingar. Grjót verður eins og gull.
Vissulega má segja að menn hafi baðað út höndum af ánægju þegar toppnum var náð. Það er reyndar veikt til orða tekið.
Nær væri að orða það svo að menn hefðu dregið fram kampavínskassa og baðað sig svo í kavíar.
Þegar menn leituðu að stiganum upp á næstu hæð gáðu þeir ekki að sér í vímunni, villtust út á svalir og duttu fram af brúninni. Við tók frjálst fall og hörð lending. Til þess að sanngirni sé gætt verður að taka fram að í slíku ástandi stýra menn sér enn síður en í rúllustiganum. Það er ekkert þægilegra að fá eðalmálm í hausinn en hraunmola.
Nær hefði verið að segja: „Upp rúllustigann og út af svölunum.“
Þessi grein birtist í 14. tbl. Vísbendingar, 18. apríl 2008, 171 degi fyrir Hrun. Mynd Halldórs birtist í 24 stundum þann 19. apríl. Myndir Halldórs eru birtar með hans leyfi.
Greinin er hluti af greinaflokki til upprifjunar um Hrunið. Þegar hafa birst eftirfarandi greinar: