Hrunið: Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum

Í aðdraganda Hrunsins sögðu allir sem báru ábyrgð að allt væri í góðu lagi og eiginlega væri ekkert um að vera, stjórnmálamenn, fyrirtækjaforkólfar og bankamenn. Það var kveikjan að þessum pistli.

Ég skrifaði fjölmargar greinar í aðdraganda hrunsins, í því miðju og mánuðina á eftir. Næstu vikur ætla ég að birta eina grein frá þessu ári á dag. Sé til hversu lengi.


Þessa dagana hef ég verið að hugsa málin. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt af mér að frétta. Og þó. Ég hef uppgötvað að ég er mannlegur og get gert mistök. Að öðru leyti er allt við það sama. Mér hefur ekki dottið í hug að hætta í starfi. Þvert á móti ætla ég að halda mínu striki þó að auðvitað geti það breyst í framtíðinni. Þetta kemur varla á óvart, en þó hugsa ég að margir verði hissa þegar þeir heyra að ég er mannlegur og geti gert mistök. Ekki spyrja mig hvaða mistök, það man ég ekki. En auðvitað á ég mjög glæstan feril.

Hverjum verða ekki á mistök? Errare humanum est. Ég hef hringt í margan manninn og allir eru sammála mér um það. Mér fannst ég heyra frá þeim þéttan stuðning. Ekki það að ég hafi haft neitt sérstakt tilefni til þess að hringja því að það er ekkert að breytast hjá mér. Ekki nokkur skapaður hlutur.

Ég fór á fund í morgun. Mjög góður fundur. Góð mæting. Nánast allir mættir. Við ræddum málin. Ég sagði frá því að ég væri mannlegur og hefði mína bresti. Á næstunni myndi lífið ganga sinn gang. Eins og hingað til. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Þegar hún er öll veit maður hvort sem er ekki neitt. Kannski er hún ekki öll þar sem hún er séð.

Annars er ekkert af mér að frétta. Lífið gengur sinn gang. Engar breytingar í kortunum. Mér finnst eiginlega að allt sé í svo föstum skorðum að ég verði að segja öðru fólki frá því.

Kannski að ég ætti að boða til fundar. Hvernig fundar þá? Ekki bara félagana, ég er búinn að hitta þá. Ekki alla, en ég hef líka hringt í marga til þess að tilkynna þeim þetta. Ætli sé ekki best að boða til blaðamannafundar um málið? Blaðamannafundur er málið. Ég þarf ekkert að undirbúa mig því að hjá mér er ekkert að breytast svo ég get sagt það sama og í gær. Og á morgun þess vegna. Líklega væri ég býsna góður karakter í raunveruleikasjónvarpi.

Heyrðu, ég var búinn að boða til blaðamannafundar. Hver fjárinn, hann er byrjaður. Ég verð að drífa mig inn og raða stólum. En best er að ég hitti einn í einu. Þá getum við talað um breytingarnar sem eru ekki í vændum hjá mér.


Þessi grein birtist í 6. tbl. Vísbendingar, 15. febrúar 2008, 234 dögum fyrir Hrun. Mynd Halldórs birtist í 24 stundum þann 16. febrúar. Myndir Halldórs eru birtar með hans leyfi.

Greinin er hluti af greinaflokki til upprifjunar um Hrunið. Þegar hafa birst eftirfarandi greinar:

HRUNIÐ: FYRIR HVERN ERU GREININGARDEILDIR BANKANNA?
HRUNIÐ: MOODY BLÚS
HRUNIÐ: UPP RÚLLUSTIGANN

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.