Í maí 2008 voru hættumerkin orðin enn fleiri en áður. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs var lækkuð og vaxandi áhyggjur af því að bankarnir lentu í fanginu á ríkinu. Hvert átti hlutverk Seðlabankans að vera? Samkvæmt bönkunum átti ríkið að vera tilbúið með björgunarhringinn, en alls ekki að skipta sér af neinu um styrk og stöðu bankanna.
Þessi grein er ein fjölmargra sem ég skrifaði árið 2008 í aðdraganda Hrunsins. Þær munu birtast næstu daga í tilefni þess að nú eru tíu ár frá þessum atburðum.
Lækkun Moody’s á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs kom kannski ekki á óvart en ekki verður sagt að þessi skýrsla hafi komið á heppilegum tíma. Enn eru í gangi aðgerðir til þess að bæta gjaldeyrisforða Seðlabankans. Fyrir nokkrum dögum tilkynnti bankinn að hann hefði tryggt sér lánalínur frá seðlabönkum þriggja seðlabanka á Norðurlöndum og þeirri tilkynningu var mjög vel tekið af mörkuðum. Gengi krónunnar styrktist strax og menn virtust róast. Þó er lögð áhersla á það af stjórnvöldum að frekar verði unnið í því að útvega lán til Seðlabankans á næstunni. Miklu skiptir að þar fylgi aðgerðir orðum. Margir hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að grípa of seint inn í.
Stór og alvarleg mistök
Gylfi Magnússon dósent tók djúpt í árinni í fréttum RÚV 21. maí. ,,Það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það hafi verið mjög stór og alvarleg mistök að stækka ekki gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans í hlutfalli við vöxt fjármálakerfisins, vegna þess að það er grundvöllur þess að þessi staða kom upp sem við búum við núna, að Seðlabankinn getur ekki útvegað viðskiptabönkunum það sem þeir þurfa.“
Hér er rétt að staldra við. Er það hlutverk ríkisins að gæta viðskiptabankanna? Gekk ekki útrásarævintýrið einmitt út á það hvað bankarnir gætu eftir að þeir sluppu úr viðjum ríkisins?
Margir hafa efasemdir um einkavæðingu þar sem nýir eigendur hlaupa strax undir pilsfald ríkisvaldsins þegar eitthvað bjátar á.
Hins vegar er það sýnilegt að erlendir seðlabankar ætla sér ekki að láta banka fara á hausinn án þess að ríkið hafi nokkuð aðhafst. Er þá sama hvort litið er á banka í Bandaríkjunum, Bretlandi eða á meginlandi Evrópu. Þess vegna er ekki óeðlilegt að menn spyrji um getu Seðlabanka Íslands. Gylfi hélt áfram:
,,Það hafa margir bent á þetta undanfarin ár. Vöxtur bankakerfisins hefur verið alveg ævintýralegur alveg frá því að vera kannski með heildareignir svipað og landsframleiðslan og upp í að vera með heildareignir sem er kannski níföld landsframleiðsla á innan við áratug. Á sama tíma hefur gjaldeyrisvarasjóðurinn mjög lítið vaxið.“
Missti Seðlabankinn af lestinni?
Áhættusækni bankanna jókst mikið á fyrstu árum 21. aldarinnar. Fyrstu árin var hlutabréfaeignin álíka og gjaldeyrisvarasjóðurinn. Leiðir skilja smám saman og árið 2004 var hlutabréfaeignin orðin mun meiri en gjaldeyrisforðinn. Bilið óx fram á árið 2006 en þá tók ríkissjóður lán til þess að tvöfalda gjaldeyrisvarasjóðinn. Frá árinu 2003 jukust bæði innlán og útlán með meiri hraða en áður.
Það hefur því ekkert leynt sér að áhætta íslensku bankanna hefur margfaldast á undanförnum árum. Kostnaður ríkisins af erlendri lántöku til þess að styrkja gjaldeyrisforðann er talsverður. Því má spyrja hvort ekki sé nauðsynlegt að velta þeim kostnaði yfir á bankana ef Seðlabankinn á að vera trúverðugur þrautalánveitandi þeirra. Bankarnir geta ekki gert kröfu til ríkisins án þess að gera ráð fyrir að borgað sé fyrir ábyrgðina.
Þverstæðan í málinu er sú að í öllum vestrænum löndum er gert ráð fyrir því að ríkið sé bakhjarl bankanna, vegna þess að það yrði svo alvarlegt áfall fyrir þegnana ef bankar færu á hausinn.
Samt vilja engir bankar að ríkið sé hamlandi á starfsemina.
Best finnst þeim að Seðlabankinn sé eins og sæt ungfrú á sveitaballi sem haldi kjafti, en sé til taks ef á þarf að halda.
Þessi grein birtist í 18. tbl. Vísbendingar, 23. maí 2008, 136 dögum fyrir Hrun. Mynd Halldórs birtist í 24 stundum sama dag. Myndir Halldórs eru birtar með hans leyfi.
HRUNIÐ: FYRIR HVERN ERU GREININGARDEILDIR BANKANNA?
HRUNIÐ: MOODY BLÚS
HRUNIÐ: UPP RÚLLUSTIGANN
HRUNIÐ: TÍÐINDALAUST Á VESTURVÍGSTÖÐVUNUM