Hér kemur önnur greinin frá því janúar 2008 um álit matsfyrirtækisins Moody’s sem benti á að fall bankanna gæti leitt þess að reyndi á ríkið.
Árið 2008 skrifaði ég fjölmargar greinar í aðdraganda hrunsins, í því miðju og mánuðina á eftir. Næstu vikur ætla ég að birta eina grein frá þessu ári á dag. Sé til hversu lengi.
Skýrslan frá matsfyrirtækinu Moody’s um lánhæfismat ríkissjóðs hefur vakið athygli og umræður um hana hafa jafnvel náð inn á Alþingi. Ein helsta áhætta sem steðjar að þjóðarbúinu skv. skýrslunni er að bankarnir komist í þrot og þá reyni á ríkið. Forsætisráðherra fjallaði um málið og sagði það rangt, sem fram hefði komið í fréttum, að það væri niðurstaða Moody’s að best væri að íslensku bankarnir flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. Hvorki væri mælt með því í skýrslunni eða hvatt til þess. Þetta er rétt hjá ráðherranum. Aftur á móti má velta því fyrir sér hvers konar vanda bankarnir gætu lent í. Annars vegar gæti eiginfjárstaða þeirra orðið svo erfið að óhjákvæmilegt væri að bæta hana með hlutafjáraukningu. Þetta hafa stórir bandarískir bankar þurft að gera að undanförnu og alls ekki er hægt að útiloka að slíkt gerist hér. Sú áhætta virðist hins vegar ekki vera yfirvofandi.
Lausafjárstaða bankanna er hins vegar nærtækari vandi.
Þar hefur Seðlabanki Íslands ákveðnu hlutverki að gegna og hugsanir manna að undanförnu felast í því hvort íslenski seðlabankinn sé nægilega stór til þess að valda því hlutverki því að þar er um miklu hærri fjárhæðir að tefla. Ekki er óeðlilegt að velta fyrir sér getu Seðlabankans til þess nú þegar almennu bankarnir hafa stækkað mikið og eign Seðlabankans hefur ekki aukist í réttu hlutfalli við stækkun þeirra.
Einn helsti kosturinn við einkavæðingu bankanna er að með henni ber ríkissjóður ekki lengur formlega ábyrgð á þeim. Sú ábyrgð var raunveruleg eins og menn kynntust þegar setja þurfti fjóra milljarða króna í Landsbanka Íslands á tíunda áratugnum.
Nú virðist hins vegar gefið undir fótinn með það að ríkið beri enn á þeim ábyrgð, óbeina að þessu sinni. Forsætisráðherra vék einnig að þessu: „Það stendur [í skýrslu Moody’s] að ef þeir myndu gera það, ef þeir færu úr landi, þá myndi óbeina ábyrgðin, sem talin er hvíla á ríkissjóði vegna starfsemi þeirra, minnka.“
Sú tilhugsun er ekki góð að ríkið beri ábyrgð á einhverju sem það á ekkert í og fær ekkert fyrir að bera ábyrgð á.
Þessi grein birtist í 4. tbl. Vísbendingar, 2. febrúar 2008, 247 dögum fyrir Hrun. Mynd Halldórs birtist í 24 stundum sama dag. Myndir Halldórs eru birtar með hans leyfi.
Greinin er hluti af greinaflokki til upprifjunar um Hrunið. Þegar hafa birst eftirfarandi greinar: