Hrunið: Ekki benda á mig

Í byrjun september 2008 var sýnt að sjálft óskabarn þjóðarinnar, Eimskipafélag Íslands, væri að fara á hausinn. Það var auðvitað einhverjum öðrum að kenna en stjórn félagsins og eigendum.

Árið 2008 skrifaði ég fjölmargar greinar í aðdraganda hrunsins, í því miðju og mánuðina á eftir. Að undanförnu hef ég birt eina grein frá þessu ári á dag.


„Við lítum á árið 2008 sem nýtt upphaf í sögu Eimskips þar sem stöðugt og vel rekið félag lítur nú dagsins ljós.“

Úr fréttatilk. HF. Eimskipafélags Íslands 30. jan. 2008.

Uppgjör Eimskipafélagsins og tilkynningar til Kauphallar vekja mikla athygli. Rík ástæða virðist vera til þess að spyrja hvort eðlilega hafi verið staðið að upplýsingagjöf til hluthafa, en félagið er skráð á markaði. Stjórn segir að afglöp í rekstri megi rekja til fyrri yfirmanna. Þó að svo kunni að vera, leysir það núverandi stjórnendur félagsins ekki undan ábyrgð á því að upplýsa markaðinn. Miðað við nýjustu fréttir virðist svo sem rannsaka þurfi afstöðu stjórnenda Eimskips til upplýsingagjafar til hluthafa.

Í reglum Kauphallarinnar segir: „Útgefendur skulu ávallt kappkosta að opinbera þær upplýsingar sem þeir telja að kunni að hafa verulega þýðingu fyrir verðmyndun bréfanna. Markmiðið með upplýsingaskyldunni er að tryggja að fjárfestar hafi ávallt aðgang að nýjustu upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að mynda sér skoðun á þeim fjárfestingarkostum sem í boði eru.“

Þögn í langan tíma

Fyrrverandi forstjóri Eimskips, Baldur Guðnason, segist í uppsagnarbréfi skv. fréttum RÚV telja „að hluthafar hafi tapað á kaupum Avion á Eimskip. Stjórnendur Eimskips hefðu ekki fengið umbun í samræmi við þann virðisauka sem orðið hefði í félaginu – þar sem hann hefði farið í að hylma yfir virðisrýrnun í flugrekstri.“ Þetta bréf er skrifað í nóvember 2007. Ekkert var upplýst um efni þess fyrr en nú.

Þegar Baldur lét af störfum 21. febrúar sagði Sindri Sindrason stjórnarformaður: „Fyrir hönd stjórnar Eimskips þakka ég Baldri vel unnin störf í þágu hluthafa Eimskips á undanförnum árum. Undir stjórn Baldurs hefur félagið tífaldað veltu sína. … Arðsemi félagsins hefur aukist verulega á undanförnum árum.“ Í júní var upplýst að í febrúar hefðu legið fyrir stjórn upplýsingar um að staða dótturfélags Eimskips, Innovate, hefði verið mjög bág. Í júní var ákveðið að afskrifa hlutinn í félaginu að verðgildi níu milljarðar króna að fullu. Að sögn mbl.is vakti málið athygli. „Kjarni málsins er hvort fyrirtækinu hafi verið heimilt að þegja yfir þessu máli frá því í febrúar,“ sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar.

Syrtir í álinn

Um miðjan apríl var viðtal í Markaðinum á Stöð 2. Björgólfur Thor Björgólfsson taldi það vera vonbrigði að ekki hefði ræst meira úr Eimskip og Icelandic. Hann sagðist lítið koma að rekstri þessara félaga, líkt og með flestan annan rekstur hér á landi, en horfandi á málið utan frá væri

„leiðinlegt“ að sjá þá slæmu umfjöllun sem félögin hefðu fengið. Sér í lagi Eimskip væri „gott fjöregg“ sem gera mætti meira úr. Í félögunum væri nýtt lið að taka til hendinni sem ætlaði sér að koma rekstrinum í réttan farveg.

Í fyrirsögn fréttatilkynningar 13. mars um afkomu 1. ársfjórðungs hjá Eimskipafélaginu sagði: „-Vöxtur í tekjum og EBITDA framlegð í samræmi við áætlanir-.“ (Rekstrarárið byrjar 1. nóv.)

Þann 12. júní er sagt á mbl.is frá viðbrögðum stjórnarformannsins við Innovate-málinu:

„Sindri Sindrason stjórnarformaður Eimskipa segir fv. stjórnendur, þá Magnús Þorsteinsson fv stjórnarformann og Baldur Guðnason fv. forstjóra fyrirtækisins hafa brugðist. Bréf Eimskipa hafa á 2 dögum lækkað um 28%.

Lækkun hlutabréfa skýrist að mestu vegna þess að fyrirtækið hafi þurft að afskrifa 9 ma.kr Ástæðan er kaup á fyrirtækinu Innovate Holdings. Fyrst keypti Eimskip helming fyrirtækisins fyrir 2 árum og eignaðist síðan allt fyrirtækið í fyrra. Sindri segir fv. stjórnendur greinilega hafa gert mistök þegar fyrirtækið var keypt.

Stjórnendur hefðu átt að vera búnir að sjá í hvað stefndi og bæði hafi skort ítarlega forskoðun á fyrirtækinu og eftirlit með því. Bréf í Eimskipum hafa fallið um ríflega fjórðung í dag og í gær. Sindri segir það ekki koma á óvart, viðbúið sé að markaðurinn bregðist við slíkum fréttum.“

Samt þagði stjórn félagsins yfir þessum fréttum í marga mánuði.

Sagan endurtekur sig

Þann 11. september var birt rekstrarniðurstaða Eimskips eftir þriðja ársfjórðung. Þar kemur fram að tap hafi verið á þriðja milljarð króna. Sama dag kom tilkynning um að fallið hefði á félagið ábyrgð vegna XL Leisure Group upp á tuttugu og sex milljarða króna. Stjórn taldi þó ekki ástæðu til þess að gera varúðarafskrift í uppgjörinu. Í fréttatilkynningu segir: „Ársreikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS).“

Ætli það sé í samræmi við þá staðla að gera í engu ráð fyrir áfalli sem nemur næstum tvöföldu markaðsvirði félagsins?

Nýjustu fréttir segja frá fleiri ábyrgðum sem félagið kunni að vera í. Mat stjórnar liggur ekki fyrir.

Niðurstaða í rannsókn Kauphallar á öllum þessum málum hefur mikil áhrif á trúverðugleika á íslenska hlutabréfamarkaðinum í framtíðinni.


Þessi grein birtist í 33. tbl. Vísbendingar, 12. september 2008, 24 dögum fyrir Hrun. Mynd Halldórs birtist í 24 stundum sama dag. Myndir Halldórs eru birtar með hans leyfi.

Fyrri greinar í þessum flokki:

HRUNIÐ: FYRIR HVERN ERU GREININGARDEILDIR BANKANNA?

HRUNIÐ: MOODY BLÚS

HRUNIÐ: UPP RÚLLUSTIGANN

HRUNIÐ: TÍÐINDALAUST Á VESTURVÍGSTÖÐVUNUM

HRUNIÐ: BER RÍKIÐ ÁBYRGÐ Á BÖNKUNUM?

HRUNIÐ: Æ, SAGÐI ÉG ÖRUGGT?

HRUNIÐ: SVOLEIÐIS VAR ÞAÐ

HRUNIÐ: Á LÖGLEGUM HRAÐA

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.