Gagnað meir en flestir þeir

Hrunið dundi yfir Ísland flestum að óvörum, jafnvel þótt fáir atburðir hafi sent jafnmörg boð á undan sér. Margt hefur verið ritað um Hrunið en samt er ekki ennþá komin út yfirgripsmikil saga þess frá öllum hliðum. Umræðan snýst um hverjum það sé ekki að kenna. Þjóðin var lömuð, mánuðum og jafnvel árum saman og mörgum finnst óþægilegt að rifja upp þessa tíma.

Því miður báru Íslendingar ekki gæfu til þess að snúa bökum saman og einhenda sér í þá viðreisn sem nauðsynleg var. Mörg skyssan varð mönnum á fyrir Hrun, en ekki urðu þær færri eftir það. Þá sögu þarf líka að skrifa.

Einn svartasti bletturinn á sögu Alþingis er sú ákvörðun að draga Geir Haarde forsætisráðherra fyrir Landsdóm. Uppskeran var að Geir fékk dóm fyrir að halda ekki fund, svo hlægilegt sem það er. Sjálfstæðisflokkurinn situr nú í annað sinn í ríkisstjórn undir forsæti eins þeirra sem að þeirri sneypuför stóðu og er mörgum umhugsunarefni.

Í október 2008 skrifaði ég í pistli:

„Geir Haarde forsætisráðherra hefur haldið ró sinni undanfarna daga. Það hefur ekki verið auðvelt. Ég heyri það á mörgum að yfirveguð orð hans á blaðamannafundum hafa veitt mönnum styrk á erfiðum tímum. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að mikilvægasta hlutverk forsætisráðherra á þessum erfiðum tímum sé að „peppa upp“ þjóðina. Geir hefur tekist ágætlega til við það síðustu viku. Hann á að halda því áfram að halda stutt ávörp til þjóðarinnar meðan það ástand varir sem nú er.

Núna er mikilvægast er að fá í lið með okkur færustu menn sem völ er á til þess að byggja upp þjóðfélagið á ný. Bestu stjórnmálamennirnir átta sig á því að í sigurlið þarf menn sem vita sínu viti og hafa umboð til þess að taka erfiðar ákvarðanir. Þeir sem flykkja um sig jámönnum geta glansað þegar allt er í lagi. Foringjar sem þora að fá í lið með sér menn sem hafa sjálfstæðar skoðanir eru alvöru leiðtogar.“

Auðvitað hefði Geir getað gert betur, sérstaklega hefði hann vitað fyrirfram hvað framtíðin bæri í skauti sér, en í æsingnum yfir meintum misgjörðum hefur gleymst að minna á framlag hans.

·       Geir lagði fram frumvarp til neyðarlaga sama dag og hann hélt margfrægt sjónvarpsávarp.

·       Geir lýsti því yfir að ríkið ábyrgðist bankainnistæður á Íslandi og róaði þannig fólk sem hafði dagana á undan gert áhlaup á bankana.

·       Geir leitaði eftir aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, ákvörðun sem sumir fordæmdu, en varð þjóðinni til bjargar.

·       Geir lét semja mikilvægar skýrslur fyrir Sjálfstæðisflokkinn, skýrslur sem hefðu getað hjálpað flokknum og landinu, hefðu þær ekki verið slegnar út af borðinu í kjánagangi.

Nær væri að Alþingi þakkaði Geir hans góðu verk og forsætisráðherra bæði hann og þjóðina afsökunar á frumhlaupi sínu og þingsins.


Birtist í Morgunblaðinu 4. október 2018

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.