Hrunið: Á löglegum hraða

Íslendingar gumuðu af því fyrir hrun að vera fljótir að taka ákvarðanir og láta ekki skriffinnsku flækjast fyrir sér. Þegar ég skrifaði þessa grein í ágúst var flestum ljóst að kreppan væri á næsta leiti.

Árið 2008 skrifaði ég fjölmargar greinar í aðdraganda hrunsins, í því miðju og mánuðina á eftir. Næstu vikur ætla ég að birta eina grein frá þessu ári á dag. Sé til hversu lengi.


Íslensku þjóðfélagi hættir til að festast í núinu. Þegar vel gengur eru allir á ofsahraða alls staðar. Engum dettur í hug að hlusta á úrtöluraus. Skrifaðar eru lærðar greinar um það hve Íslendingar séu atorkusamir og frumlegir, þeir þori þegar aðrir hika. Sagt er að Þjóðverjar gumi af því að vera mjög „spontant“. Þegar gengið er á þá í hverju það lýsir sér segjast þeir stundum fara í bíó án þess að hafa ákveðið það fyrirfram. Íslendingar brosa þegar þeir heyra slíkt tal. Landinn kaupir erlend og innlend stórfyrirtæki fyrir milljarða hið minnsta, án þess að hugsa sig um.

„Ég þurfti ekki annað en líta í augun á honum til þess að sjá að þetta var heiðarlegur maður,“ sagði einn frumherjinn um erlendan kaupahéðin sem var að selja honum fyrirtæki. Níu mánuðum seinna var þessum „heiðarlega manni“ stungið í steininn fyrir fyrri afrek og fimmtán mánuðum seinna kom í ljós, að brunarústir hefðu líklega verið betri fjárfesting en útlenda fyrirtækið sem keypt var.

Nú er öldin önnur og menn sjá ekkert nema svartnættið framundan. Fjármálaráðherra er skammaður fyrir að segjast ætla að bíða betri tíma til þess að taka lán. Það séu engir betri tímar í augsýn. Líklega er það rétt að kreppan á eftir að koma meira við almenning hér á landi á næstunni. Tvísýnt er í fjármálum á alþjóðavettvangi. Útlend blöð sem höfðu ánægju af því að gera lítið úr íslensku bönkunum gleymdu að fylgjast með bönkunum í hlaðvarpanum sem nú engjast sumir. Það er auðvitað ekkert ánægjuefni fyrir Íslendinga. Yfirleitt er best fyrir okkur að öðrum gangi vel líka, þó að mörgum finnst sárt að horfa upp á velgengni náungans.

Við blasir að þjóðin þarf að taka á sig kjaraskerðingu. Útilokað er að halda sama kaupmætti og áður. Miklu farsælla er að horfast strax í augu við þetta og taka áfallinu heldur en berjast við að ná fram óraunhæfum hækkunum á launum, einungis til þess að þurfa að taka verri afleiðingum síðar. Þessi kreppa endar. Með skynsamlegum viðbrögðum er hægt að breyta henni í dýfu sem þjóðin vinnur sig hratt út úr. Eftir það væri gott að stefna upp á við á ný, en nú á löglegum hraða.


Þessi grein birtist í 30. tbl. Vísbendingar, 15. ágúst 2008, 52 dögum fyrir Hrun. Mynd Halldórs birtist í 24 stundum þann 13. ágúst. Myndir Halldórs eru birtar með hans leyfi.

Fyrri greinar í þessum flokki:

HRUNIÐ: FYRIR HVERN ERU GREININGARDEILDIR BANKANNA?

HRUNIÐ: MOODY BLÚS

HRUNIÐ: UPP RÚLLUSTIGANN

HRUNIÐ: TÍÐINDALAUST Á VESTURVÍGSTÖÐVUNUM

HRUNIÐ: BER RÍKIÐ ÁBYRGÐ Á BÖNKUNUM?

HRUNIÐ: Æ, SAGÐI ÉG ÖRUGGT?

HRUNIÐ: SVOLEIÐIS VAR ÞAÐ

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.