Hrunið: Hann kann það …

Nú er Hrunið handan við hornið og formaður bankastjórnar Seðlabankans sendir skeyti í allar áttir. Sumir héldu að hann væri embættismaður en öðru nær: Hann var aðalmaðurinn.


Viðtal við seðlabankastjóra á Stöð 2 hefur vakið mikla athygli. Margir sáu þar hinn gamla foringja Sjálfstæðisflokksins í miklu stuði. Skeytin flugu í allar áttir og hver setning var greinilega þrauthugsuð. Davíð er örugglega líkur Winston Churchill að því leyti að hann eyðir miklum tíma í að semja svör sem hann getur svo skellt fram fyrirvaralaust. „Hann Davíð kann þetta,“ er orðtak hjá aðdáendum hans. Enginn vafi er á því að ein ástæðan fyrir vinsældum Davíðs meðal flokksmanna sinna var hversu beinskeyttur hann var. Viðtalið nú vekur spurningar um hvort það sé við hæfi að embættismaður, en Davíð er það óneitanlega núna, eigi að hafa sams konar stíl. Sem seðlabankastjóri er Davíð í samskiptum við og að sumu leyti eftirlitsmaður með bönkunum og starfsmönnum þeirra. Þess vegna má vissulega setja spurningarmerki við hnútur sem hann sendir.

Mikilvægt er að embættismenn tali skýrt.

Davíð setti ekki út á að menn töluðu um evruna einhvern tíma seinna, en ef skilja mátti hann rétt hafði hann skömm á þeim sem tala um hana núna.

Hverja á hann við? Jónas Haralz, Vilhjálm Egilsson, Björn Bjarnason? Á þingi ungra sjálfstæðismanna var samþykkt ályktun. Þar sagði: „Tryggja þarf að fyrirtæki geti átt öll viðskipti, gert uppgjör og skráð eignir sínar í hverri þeirri mynt sem þau kjósa. Ef það er ekki hægt nema með því að ríkið taki upp annan gjaldmiðil, eða binda krónuna við annan gjaldmiðil, á ekki að hika við það.

Kanna ber möguleika á því að tengja krónuna við evru, eða taka upp evru á grundvelli samstarfs okkar og samninga við önnur Evrópuríki.“ Eigum við líka að hafa skömm á „þessu liði“?

Ólíklegt er að menn hefðu tekið því ef til dæmis veðurstofustjóri hefði sagt frá því að hann hefði skömm á þeim sem héldu fram hnattrænni hlýnun. Davíð sjálfur hefði kallað „þann ágæta mann“ á teppið umsvifalaust. Málið snýst ekki um það hvort menn séu með eða móti evru heldur eiga embættismenn að gæta faglegra vinnubragða og tala með virðingu um yfirmenn sína, hvort sem þar er um að ræða stjórnmálamenn eða áhugamenn um hagstjórn úr hópi almennings.


Þessi grein birtist í 35. tbl. Vísbendingar, 19. september 2008, 17 dögum fyrir Hrun. Mynd Halldórs birtist í 24 stundum þann 18. september. Myndir Halldórs eru birtar með hans leyfi. Þær fanga ótrúlega vel tíðarandann á þessum árum.

Fyrri greinar í þessum flokki:

HRUNIÐ: EKKI BENDA Á MIG

HRUNIÐ: FYRIR HVERN ERU GREININGARDEILDIR BANKANNA?

HRUNIÐ: MOODY BLÚS

HRUNIÐ: UPP RÚLLUSTIGANN

HRUNIÐ: TÍÐINDALAUST Á VESTURVÍGSTÖÐVUNUM

HRUNIÐ: BER RÍKIÐ ÁBYRGÐ Á BÖNKUNUM?

HRUNIÐ: Æ, SAGÐI ÉG ÖRUGGT?

HRUNIÐ: SVOLEIÐIS VAR ÞAÐ

HRUNIÐ: Á LÖGLEGUM HRAÐA

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.