Þegar þessi grein var skrifuð var mánuður í Hrun og ég hafði hitt erlendan kaupsýslumann og ræddi efnahagsástandið.
Árið 2008 skrifaði ég fjölmargar greinar í aðdraganda hrunsins, í því miðju og mánuðina á eftir.
Ritstjóri hitti reynslubolta úr dönsku viðskiptalífi fyrir nokkrum dögum. Eins og gerist og gengur var fitjað upp á ýmsum umræðuefnum. Meðal annars spurði ég hann hvort breytinga væri að vænta varðandi aðild Dana að myntbandalaginu. Ekki bjóst hann við því. Það væri afar bagalegt fyrir Dani að þurfa að greiða hærri vexti en aðrir í bandalaginu, en vaxtamunurinn væri liðlega hálft prósent. Hins vegar sagðist hann hafa tekið eftir frétt um það að meirihluti Íslendinga vildi hefja aðildarviðræður og spurði hvort þetta merkti að hreyfing væri á málinu. Ekki taldi ég það. Í ríkisstjórn væru tveir flokkar, Sjálfstæðisflokkurinn sem væri fremur til hægri en Samfylkingin væri sósíaldemókratískur flokkur. Sjálfstæðismenn væru á móti aðildarviðræðum en hinir styddu aðild.
„Þetta er alls staðar eins. Hægri menn styðja viðskiptalífið en vinstrimenn þvælast fyrir því,“ sagði viðmælandi minn.
Ég sagði honum að hann hefði ekki tekið rétt eftir. Það væru kratarnir sem vildu Evrópusambandsaðild en hægri flokkurinn væri á móti. Eftir nokkur skipti skildi hann málið rétt og spurði þá hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki aðild. Ég sagði honum að forystumenn flokksins vildu meðal annars að landið hefði áfram sjálfstæða mynt. Þegar hann spurði mig hvers vegna sagði ég honum að það væri til þess að tryggja fulla atvinnu.
Þá spurði hann mig hvernig horfði í atvinnumálum. Ég varð að svara því að það liti ekki svo vel út því að mörg fyrirtæki væru að sigla í þrot vegna þess að vextir væru mjög háir hér á landi. Hann samsinnti því að þeir væru geysiháir þegar ég hafði tilgreint algenga vexti.„Hvers vegna er það?“. Ég sagði að það væri til þess að halda niðri verðbólgu. „Hve há er verðbólgan þá?“
Þegar ég sagði honum að hún væri 14,5% samkvæmt síðustu mælingu leit hann á mig vorkunnaraugum og spurði hvernig veðrið hefði verið í sumar.
Þessi grein birtist í 33. tbl. Vísbendingar, 6. september 2008, 30 dögum fyrir Hrun. Mynd Halldórs birtist í 24 stundum þann 13. ágúst. Myndir Halldórs eru birtar með hans leyfi. Athyglisvert er að sjá skiltið á veggnum fyrir ofan rúmið í ljósi ávarps forsætisráðherra mánuði síðar.
Fyrri greinar í þessum flokki:
HRUNIÐ: FYRIR HVERN ERU GREININGARDEILDIR BANKANNA?
HRUNIÐ: TÍÐINDALAUST Á VESTURVÍGSTÖÐVUNUM
HRUNIÐ: BER RÍKIÐ ÁBYRGÐ Á BÖNKUNUM?