Maðurinn sem setti Ísland á hausinn

Sumarið 2006 birtist í The Times viðtal við stjórnanda í vogunarsjóði sem hafði tekið stöðu gegn íslensku krónunni sem kallað er, það er hann veðjaði á að krónan væri of hátt skráð og að líklegt væri að hún myndi lækka. Viðmælandinn, Hugh Hendry hjá Eclectica Asset Management, sagðist vilja láta minnast sín sem „mannsins sem setti Ísland á hausinn“.

Fyrri hluta ársins 2006 var skuldatryggingarálag á íslensku bankana orðið hátt, en það þýðir að menn töldu vaxandi líkur á því að þeir færu á hausinn. Þessi tími hefur verið kallaður „litla bankakreppan“ á Íslandi, en margir telja að þessum tíma hafi örlög þjóðarinnar verið ráðin, eftir það hafi spurningin bara verið um hve alvarlegt fallið yrði. Menn eins og Hendry gátu hagnast á erfiðleikum Íslendinga.

Eftir á að hyggja sá þessi „óvinur Íslands“ líklega öðrum betur hvert stefndi, en það er einn galli við söguna; hún verður miklu skýrari eftirá en meðan hún er að gerast. Við hefðum betur hlustað meira á óvinina fyrirfram.

Hrægammarnir

Hendry þessi var einn þeirra sem í íslenskri stjórnmálaumræðu hefur verið kallaður „hrægammur“ sem er reyndar ekki íslensk uppfinning. Þessir sjóðir reyna að sjá fyrir hvað geti gerst í efnahagsmálum og hegða sér þannig að þeir hagnist ef spádómurinn rætist. Þetta er gert með framvirkum samningum þar sem þeir bjóðast til þess að selja eða kaupa eitthvað á fyrirfram ákveðnu verði eftir t.d. þrjá mánuði eða annan fyrirfram ákveðinn tíma. Hagnaðarvonin liggur í því að verðið hafi breyst þeim í hag, þannig að það sé í raun lægra en umsamið verð á uppgjörsdegi ef þeir selja eða hærra ef þeir kaupa. Margir tóku þátt í þessu og sagt var að þekktir íslenskir fjármálamenn hefðu veðjað gegn krónunni með þessum hætti.

Íslendingar sem töldu líklegt að krónan félli í verði voru nánast taldir landráðamenn og erlendir „hrægammar“ eins og Hendry voru illmenni. Hann er reyndar kjaftfor og sagði mönnum óhikað að búast við hruni, ekki bara á Íslandi heldur um víða veröld. Sjóður hans hagnaðist um 8% á einum degi árið 2010 þegar erfiðleikar Grikklands komu fyrst á radar alþjóðasamfélagsins. Við það tækifæri sagði hann: „Það er of mikið af skuldum í heiminum.“ Þó að fáir mótmæli þessu núna var það nánast trúaratriði fyrir hrun hjá bankamönnum að skuldsettar yfirtökur væru lausnarorðið í viðskiptalífinu, það yrði að láta peningana vinna, en við hverja yfirtöku flæddu bónusarnir í vasa verðbréfadrengjanna.

Íslendingar tóku þessu ekki þegjandi. Þráinn Bertelsson skrifaði á Eyjuna 3. apríl 2008: „Hugh Hendry, yfirmaður fjárfestingasviðs hjá breska vogunarsjóðsfyrirtækinu Eclectica Asset Management, einn fjárfestanna sem hagnast hafa á veikingu íslensku krónunnar, stærði sig af því árið 2006 að hann vildi láta minnast sín sem mannsins sem gerði Ísland gjaldþrota, segir í forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag. Hendry sagði þetta m.a. í viðtali við breska blaðið Times 8. júlí 2006: „I want to be known as the man who bankrupted Iceland.“

Nú er komið í ljós að Hendry þessi á við athyglisfíkn að stríða og allt tal hans um að gera Ísland gjaldþrota eru órar taugabilaðs manns. Hann segist líka hafa skrifað bækur Laxness, málað myndir Kjarvals og hafa stofnað Kolkrabbann. Enginn einn maður getur eignað sér heiðurinn af því að setja landið á hausinn, en þó er gott til þess að vita að afrekið var unnið af íslenskum afreksmönnum en ekki útlendingum.“

[Þráinn Bertelsson, 3. apríl 2008, Eyjan: Erlendur svikahrappur – Ætlaði að ræna Íslendinga heiðrinum].

Ekki heyrðist sérstaklega til Hendrys þegar bankarnir og krónan hrundu árið 2008, en hann er enn yfirlýsingaglaður þegar eitthvað bjátar á í hagkerfinu víða um heim.

Setti ég Ísland á hausinn?

Jón Ásgeir Jóhannesson skrifaði grein í Fréttablaðið 29. desember 2008 sem byrjar svona: „Sumir halda því fram að ég beri ábyrgð á því íslenskt fjármálalíf fór á hliðina nú í haust. Ég hef verið kallaður óreiðumaður, glæpamaður, fjárglæframaður, „þúsundmilljarðamaðurinn“, ég hafi „komið Íslandi á hausinn“ og svo framvegis. Þessa viðhorfs virðist gæta víða í þjóðfélaginu, meira að segja á Alþingi og í Seðlabankanum. Þessi viðurnefni og upphrópanir byggjast ekki á mikilli yfirvegun eða ígrundun, en eru að einhverju leyti skiljanleg í andrúmslofti reiði og öryggisleysis. Ég tek þessa dóma nærri mér og er ekki sáttur við þá. Ég er hins vegar reiðubúinn að ræða mín viðskiptamál með rökum og staðreyndum, og axla þá sanngjörnu ábyrgð sem mér ber.“

[Jón Ásgeir Jóhannesson, Fréttablaðið 29. desember 2008: Setti ég Ísland á hausinn?]

Jón Ásgeir er ekki einn um að vilja rétta sinn hlut eftir hrunið. Nokkrar bækur hafa þegar komið út og eflaust er von á fleirum í framtíðinni þar sem menn segja söguna frá sínu sjónarhorni. Í Forbes er talað um að margir kenni Björgólfi Thor Björgólfssyni um hrunið, en hann hefur einmitt látið skrifa bók um sinn viðskiptaferil.

Í viðtali við Spiegel árið 2009 sagði Vilhjálmur Bjarnason: „Við settum hagkerfið í hendurnar á glæpamönnum og hreinsunin eftir þá verður blóðbað.“ Hann telur að landið hafi verið smitað af græðgi. Venjulegt fólk sitji uppi með skuldirnar meðan auðjöfrarnir haldi snekkjunum. Aðspurður um hverjir þetta séu segist Vilhjálmur hafa lista með þrjátíu og þremur nöfnum. „Þeir eru megin sökudólgarnir. Ég get sannað það.“

Vilhjálmi hefur reyndar ekki gengið vel að sannfæra dómstóla um sekt ýmissa þeirra sem hann hefur farið í mál við, en að undanförnu hafa sektardómar fallið í mikilvægum málum sem tengjast hruninu og aðdraganda þess.

Hvað um hrægamminn?

Hugh Hendry segist hafa fengið líflátshótanir frá Íslandi eftir að hann gaf sína frægu yfirlýsingu. Árið 2010 sagði hann í viðtali við Independent: „Lítum á Ísland. Ég lagði ekki neina peninga á Icesave reikninga því að [Landsbankinn tók] áhættu sem ég myndi aldrei taka, að bjóða mjög háa vexti á innlán. Ef maður tekur áhættu borgar maður ef manni skjátlast. Nema ríkisstjórnin segir: Hafði engar áhyggjur, hér er vinur minn skattgreiðandinn með tékkheftið. Við sitjum öll eftir með útgjöldin til þess að leysa þá úr snörunni sem tóku rangar ákvarðanir. … Í Grikklandi segja kampavínssósíalistarnir að rétt sé að leysa vanda bankanna, ekki vanda fólksins. En svo rugla þeir almenning með því að segja: Sjáið hér eru vondu spákaupmennirnir – þetta er allt þeim að kenna.“

[Simon Usborne: Indpendent 22. mars 2010: Master of the universe: Can Hugh Hendry teach us to love hedge funds?]

Greinin birtist í Vísbendingu 13. júlí 2015

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.