Á sama tíma árið 2020 (BJ)

Á þilfarinu var grind með innbökuðum nautalundum. Ég taldi hleifana og efaðist strax um að þetta yrði nægur matur fyrir alla þá sem höfðu meldað sig í matinn. Sjálfur hefði ég kannski sett þær í kassa eða að minnsta kosti breitt yfir þær dúk til þess að hlífa þeim fyrir sjórokinu, en þarna voru þær öllum til sýnis. Það var reyndar enginn úti á þilfari nema ég og kokkarnir.

Og nokkrir kassar af áfengi, kippur af bjór og annað góðgæti sem þarf til þess að fólk geti skemmt sér vel. Mér datt í hug að þetta væru birgðir bekkjarráðsins og spurði hvort ég gæti gengið í veigarnar.

„Ég veit ekki hver ætti að stoppa þig“ sagði annar kokkurinn, en ég sá að hinn gaf honum illt auga Þetta var greinilega ekki okkar bjór, þannig að ég hélt aftur af mér.

Flest bekkjarsystkina minna voru löngu farin út í Viðey. Ég var tveimur tímum of seinn, rétt eins og í gamla daga þegar við vorum í 6.-Q. Enn í dag hugsa ég til með hryllingi til þýskunnar í fyrsta tíma sem ég missti svo oft af. Baldur Ingólfsson kenndi okkur og hafði það fyrir venju að spyrja hvort einhver byði sig fram. Allir grúfðu sig yfir borðið og gættu þess að líta ekki upp.

Einu sinni hugsaði ég mér þó að leika á Baldur, þaullas fyrsta hlutann af heimaverkefninu og kunni hann reiprennandi. Þegar Baldur spurði að venju hvort einhver byði sig fram var ég snöggur að rétta upp hönd. Ég brilleraði þó að ég segi sjálfur frá og Baldur og þeir bekkjarbræður mínir sem voru vaknaðir tóku andköf. Á örskotsstundu var ég kominn yfir kaflann sem ég hafði undirbúið og var býsna ánægður með mig.

Baldur kinkaði íhugull kolli og sagði: „Þetta var gott. Viltu ekki halda áfram og þýða næsta kafla líka.“ Í honum kunni ég ekkert og upp komst um kauða.

Ástæðan fyrir því að ég var seinn í þetta sinn var ekki að ég óttaðist að Baldur biði mín í eynni (hann er dáinn) heldur hafði ég tafist í skólaslitum sem ég segi frá hér (Jón G. var sammála mér um að það væri mjög fyndinn pistill þegar ég var búinn að eyða hálftíma í að skýra fyrir honum brandarann).

Hjá Viðeyjarstofu fann ég engan úr árganginum nema tvo bekkjarbræður mína sem höfðu verið eftir til þess að gæta vínfanga. Það var álíka ráðstöfun og setja ref yfir hænsnahús og ekki batnaði það þegar ég kom í hópinn. Skólasystkin okkar voru á vappi um eyna með Páli Ásgeiri, leiðsögumanninum knáa sem um hverja helgi setur te á brúsa og heldur til fjalla.

Ég fór inn og hitti þar hæstráðanda á staðnum. Áður fyrr var það Skúli fógeti eða einhver Briem eða Stephensen, en nú var það bara einhver kona í eldhúsinu. Hún lagði mér lífsreglurnar:

„Þið megið bara drekka úti.“

Þegar hún sá spurnarsvipinn á mér bætti hún við:

„Þið megið bara drekka vín sem þið eigið úti.“

Sá svo að þetta gekk ekki alveg upp og reyndi að skýra til hlítar:

„Það er að segja vín sem þið hafið keypt sjálf.“

Loks gat hún botnað hugsun sína:

„Nema vín sem þið kaupið sjálf á barnum uppi.“

Loksins skildi blessuð skepnan, en reyndar held ég að engum hafi dottið í hug að bera vínföngin inn.

Um sexleytið dreif að fólk úr öllum áttum. Stór hópur kom úr göngunni og annar með síðustu ferð úr landi. Mér gekk misvel að þekkja fólkið. Sumir voru gjörbreyttir, aðrir ekki ósvipaðir því sem þeir voru þegar ég sá þá síðast. Mér fannst Vigdís hafa breyst lítið, að minnsta kosti þekkti ég hana strax þar sem hún var á tali við Sigga Kristjáns.

Almennt held ég að hægt sé að gefa út þá reglu að þeir sem komu á stúdentsafmælið fyrir fimm árum hafi breyst minnst, þannig að það er greinilega besta leiðin til þess að halda sér ungum að mæta vel á þessar samkomur.

Annars finnst mér að fólk eigi að ganga með nafnspjöld í barminum á svona samkomum, jafnvel almennt á götum úti. Þá lendir maður ekki í þeim vandræðum að vera að tala við ókunnugt fólk og komast svo að því að það var í bekk með manni árum saman. Þekkti þó þær Hildu, Ingibjörgu og Helgu Jóns, sem var reyndar með mér í Langholtsskólanum, ein allra í árganginum. Ég var reyndar svolítið ánægður með að Hilda var komin alla leið frá Kaliforníu og Helga frá Svíþjóð, bara til þess að hitta mig.

Allir voru kátir og enginn um of enn sem komið var. Veðrið var alveg eins og búið var að panta, sól og blíða. Sumir skiptu um föt eftir gönguna og voru í hátíðabúningi. Af því að ég var ekki í úlpu héldu allir að ég væri í sparifötum, þó að reyndar hefði ég farið úr þeim í vinnugallann áður en ég kom.

Þættir úr 40 ára æviferlum flutu milli fólks. Sumir hafa marga fjöruna sopið, aðrir sopið eitthvað annað en fjörur. Engar játningar fyrr en síðar um kvöldið og jafnvel þær voru tiltölulega saklausar.

Staðarhaldarinn nýi hvatti fólk eindregið til þess að koma sér inn í skuggann, en fékk litlar undirtektir. Það var ekki fyrr en Jón G. tilkynnti að nú væri nóg komið að allir hættu (Jón er gjaldkerinn og ætlar sér örugglega að geyma eitthvað af vínföngunum til 50 ára stúdentsafmælisins. Gunnar Steinn hafði reyndar reiknað það út upp á glas hve mikið vín þyrfti, en þar skeikaði nokkrum ámum, enda er hann úr máladeild þar sem menn lærðu frasa eins og Errare humanum est).

Óttinn við litla vínsölu var ástæðulaus, því að við barinn var biðröð sem entist frá því við komum inn þar til hópurinn hélt á brott með síðasta skipi.

Ég skimaði um eftir mínum bekk. Allir halda hver á sinn bás eins og í gamla daga. Kúbekkurinn var bakvið súlu. Það vantaði pláss fyrir einn og það var leyst með því að reka Helga Sveinsson í burtu, fyrir þá sök eina að vera ekki í bekknum. Í ljós kom reyndar að hann hafði komið fyrstur, en mátti samt þola yfirgang og frekju bekkjarins, sem árgangurinn almennt hefur umborið í áratugi og Helgi tók með jafnaðargeði.

Maturinn var ekkert slor, humarsúpa og sæbarin Wellingtonlundin. Hefði væntanlega mátt kalla þetta sjávarréttaseðil, en það vissi nánast enginn nema ég. Í humarsúpunni var reyndar fluga sem truflaði suma, en flestir æstu sig ekki tiltakanlega yfir, því að þetta var Litla flugan í flutningi – hverra nema okkar bekkjarfélaganna?

Annars var hópnum að mestu hlíft við skemmtiatriðum. Söngur og gleði eins og vera bar og nokkrir voru látnir rifja upp Minningar úr Menntaskóla sem Sigurður Helgason kynnti. Allt í einu mundi ég eftir því að ég var einn þeirra sem átti að láta Gamminn geisa. Það sló út um mig köldum svita þegar fyrri ræðumenn fóru á kostum. Ég leitaði ráða hjá bekkjarfélögunum, hvort þeir myndu ekki eftir einhverju kætilegu.

Það reyndist farið í geitarhús að leita ullar. Enginn mundi eftir neinu skemmtilegu og úr svipnum á sumum þeirra las ég helst að þeir væru ekki vissir um að þeir hefðu nokkurn tíma verið í menntaskóla.

Upp fór ég nú samt og stamaði upp nokkrum setningum, enda hlédrægur að eðlisfari. Reyndar fékk ég afar gott hljóð enda ýmsir átt von á því að ég kæmi með uppljóstranir af margvíslegu tagi um ástamál og óreglu á áttunda áratugnum (gæti verið heiti á bókarkafla) en þegar í ljós kom að ég mundi ekkert slíkt vörpuðu allir öndinni léttar og klöppuðu feginsamlega þegar ræðunni var lokið.

Sigrún Páls bauð upp á einkasýningu á myndum frá menntaskólaárum. Það var eins í gamla daga, stelpurnar hópuðust í kringum Sigurð Emil.

Gleðin hélst að minnsta kosti þangað til við Vigdís fórum í land með fyrra fleyi. Punkturinn yfir i-ið var fallegasta sólarlag vorsins.

Í landi sögðu allir eins og alltaf: „Nú verðum við að fara að hittast oftar.“

Svo hittumst við næst eftir fimm ár eins og venjulega.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.