Hekla er eitt hinna minni fjalla á Íslandi

„Gosin í Heklu byrja með látum og hún er tilbúin í gos.“

Ég var á fyrirlestri hjá Páli Einarssyni jarðeðlisfræðingi og hann virðist vita hvað hann er að tala um. Þess vegna leist mér ekki vel á boðskapinn, því að ég var búinn að ákveða að ganga á Heklu um miðjan júlí. Það voru ekki nema þrír mánuðir í gönguna og engar líkur á að goshættan minnkaði á þeim tíma. Páll hélt áfram:

„Heklugos byrja með stuttum fyrirvara 23-79 mínútur samkvæmt reynslu frá gosum 1970, 1980, 1991 og 2000. Stuttur aðdragandi þýðir að erfitt gæti orðið að bregðast við. Varhugavert er að ferðast fótgangandi á Heklu því hættuástand getur skapast með afar stuttum fyrirvara.“

Auðvitað var ekki um það að ræða að hætta við gönguna. Anna frænka var búin að panta miða til Íslands 16. júlí til þess eins að ganga á fjallið og maður breytir ekki plönum hjá henni. Hún er Svisslendingur og þeir skipuleggja hverja mínútu minnst hálft ár fram í tímann og oftast auðvitað miklu lengur.

Reyndar átti ég hugmyndina að ferðinni. Hún á sér mjög langan aðdraganda. Sumarið 1977 vorum við Vigdís í sumarfríi á Íslandi og einu sinni sem oftar skrapp ég í heimsókn til Ólafar móðursystur minnar. Mér var boðið í kvöldmat og maðurinn hennar, Páll Björnsson hafnsögumaður, var nýkominn heim. Ólöf sagði mér að hann hefði verið í gönguferð á Heklu og „það er ekki lítið afrek hjá sextugum manni.“

Mér fannst þetta flott hjá Páli enda taldi ég þetta í alvöru mikið afrek. Það var fráleit hugsun að pabbi, sem var á sama aldri, færi í slíka göngu og örugglega minnst fimmtán ár síðan hann fór í sína síðustu göngu á fjall sem var miklu hærra en Öskjuhlíðin. Þá sögðu menn hróðugir: „Allt er fertugum fært“ og allir kinkuðu kolli, eftir fertugt var allt á niðurleið.

Við Vigdís gengum reyndar á Heklu árið 1987 með Ferðafélaginu. Hún var eftirminnileg, en einkum vegna tveggja samferðamanna, Birgir Albertssonar kennara og Höskuldar Jónssonar, formanns Ferðafélagsins og ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Birgir, sem kenndi mér lestur í sjö ára bekk og löngu síðar biblíusögur, var framarlega í flokki. Honum varð tíðrætt um að það væri mjög heimskulegt að fara úr Skjólkvíum fremur en úr Næfurholti. Þetta tæki allt of langan tíma og hætt við því að ský söfnuðust á toppinn. Svo fannst honum allt of mikið tillit tekið til þeirra sem fóru seint yfir. Þegar þokan settist svo á tindinn sagði hann: „Þetta vissi ég!“ Birgir var fjörgamall á þessum tíma fannst mér, þó að hann væri furðu ern, satt að segja býsna sprækur. Ég sé það núna að hann var 52 ára.

Höskuldur var annar fararstjóra og hann tók að sér það óvenjulega hlutverk fararstjóra að reka lestina, því að hann gekk með þeim sem drógust aftur úr og stappaði í þá stálinu. Síðan hef ég alltaf borið mikla virðingu fyrir honum. Hann var virðulegur eldri maður fannst mér, enda stóð hann þá á fimmtugu.

Ekki man ég hve lengi við vorum á göngunni, en efst á fjallinu var fönn. Annars var fjallið marautt. Við enduðum í hlýjum gígnum. Annað veit ég ekki um umhverfið því að gráminn var þéttur. Sumir slepptu síðasta spelinum sem mig minnir að hafi verið erfiður. Svo röltum við niður aftur í þykkninu.

Hekla var ekki sérlega hátt á listanum hjá mér yfir fjöll sem ég þyrfti að ganga á eftir þetta, en fyrir nokkrum árum varð mér ljóst að vel gæti svo farið að ég yrði jafngamall og Páll var þegar hann stóð Heklutindi. Páll var einn þeirra manna sem ég met mest og mér fannst að vel væri við hæfi að feta í fótspor hans. Þessu laumaði ég út úr mér í heimsókn hjá Önnu frænku í Sviss í fyrra og hún sagðist umsvifalaust ætla að koma með, en Páll var móðurbróðir hennar. Þar með varð ekki aftur snúið, fleiri bættust í hópinn og sumir heltust svo úr lestinni eins og gengur.

Margir hafa skrifað um Heklu og í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir: „Hekla er eitt hinna minni fjalla á Íslandi, en er þó allra fjalla nafnkunnust erlendis.“ Þetta fannst mér ástæðulaus úrdráttur. Þeir Eggert og Bjarni hafa ekki haft aðgang að Google, en þar kemur fram að Hekla er tólfta hæsta fjall landsins. Að vísu gæti hún hafa verið lægri þá, því að nokkrum sinnum hefur hún gosið síðan, en samt örugglega eitt af hæstu fjöllum á landinu sé mæld hæð yfir sjávarmál. Fyrir okkur sem hugðumst ganga á hana er það huggun harmi gegn að hún er ekki nema um 1.000 metra upp úr umhverfinu.

Jónas Hallgrímsson nefndi Heklu þrisvar í sínum ljóðum og frægast er örugglega ljóðið til Herra Páls Gaimards, Þú stóðst á tindi Heklu hám. Af því að tveir Pálar aðrir hafa komið hér við söguna, Einarsson og Björnsson, ætla ég að vitna hér í nokkrar línur sem sjaldan sjást úr þessu ljóði:

Þvílíkar færum þakkir vér
þér, sem úr fylgsnum náttúrunnar
gersemar, áður aldrei kunnar,
með óþrjótanda afli ber.
Heill sér þér, Páll, og heiður mestur!

 

Vigdís var lengi ákveðin í því að fara í gönguna, en kenndi sér svo fótarmeins sem varð til þess að hún hélt sig heima. Það var ágætt, því að hún bauð okkur upp á dýrindis máltíð ef við kæmumst til baka. Mér kom í hug sagan af fylgdarmanni Eggerts og Bjarna sem komst ekki áfram vegna höfuðverks, en „við héldum, að hjátrú hans og ímyndun bannaði honum að nálgast hið skelfilega fjall“ eins og segir í ferðabókinni.

Tvær vettvangsrannsóknir mínar um Suðurland leiddu í ljós að óvenjumikill snjór er í Heklu þetta sumar. Úr fjarlægð virðist snjórinn nánast ná niður í fjallsrætur. Bandarískir þingmenn telja eflaust þetta sanna að hnattræn hlýnun sé villukenning.

Í huga mínum fannst mér eins og þeir sætu hvor á sinni öxlinni á mér Pálarnir; Páll Björnsson hvetti mig til dáða, en nafni hans Einarsson hristi höfuðið. Ég þóttist lítt hræddur við gos, en dreymdi þó skrítinn draum fyrir nokkrum dögum þar sem ég var staddur á leiðinni upp frá Litlu kaffistofunni og var litið til Vífilfells, sem allt í einu tók að spúa frá sér eldi og ösku. Við það var ég sem lamaður og vissi ekki hvort ég ætti að flýja á brott eða horfa á þennan einstæða viðburð sem ég varð vitni að.

Lítið varð um svefn aðfaranótt föstudagsins 17. júlí sem varð ofan á sem ferðadagur eftir mikla yfirlegu yfir veðurvefnum yr.no, sem reyndar hefur reynst svo óáreiðanlegur að undanförnu að ég sendi þeim kvörtunarbréf í vor. Ekkert svar barst enda hafa Norðmennirnir eflaust talið að nú væri einhver Íslendingur að væla yfir veðrinu.

Klukkan tuttugu mínútur yfir fimm fór ég á fætur og slökkti á vekjaraklukkunni. Veðrið var bjart og stillt. Í garðinum var þröstur sem lét mig ekki trufla sig. Um sexleytið var ég sóttur og ekki varð aftur snúið.

Við komum að Heklurótum um klukkan hálf níu og tíu mínútum síðar lögðum við af stað, sjö manna vaskur hópur. Vegurinn að Skjólkvíum var vel fær en seinfarinn. Vegurinn upp í fjallið er hins vegar engu farartæki opinn enda skafl í honum miðjum. Á bílastæðinu voru engir þegar við komum, en skömmu á eftir okkur birtust þar tveir Pólverjar.

Við lögðum í hann. Elstur var maður Önnu, Hanspeter, sem er sjötíu og sjö ára gamall. Himininn var heiður og blár en stundum komu smábólstrar sem teygðu sig í kringum tindinn, eins og þeir ætluðu að setjast um hann, en Heklutindur er segull á ský. Mér varð hugsað til Birgis heitins og áttaði mig á því að nú var ekkert hægt að bíða eftir þeim sem hægast fóru. Samt hef ég enga sérstaka ánægju af því að ganga viðstöðulaust, vil gjarnan stoppa öðru hvoru til þess að fá mér sopa eða bita. Þess vegna fannst mér það góðs viti þegar Anna dró upp sódavatnsflösku. Tappinn var fastur en þegar hann losnaði var það með stæl og kolsýrt vatnið frussaðist út.

„Það fór þá aldrei svo að við fengjum ekki gos“, sagði ég, hinum til lítillar ánægju. Það var greinilegt að Páll jarðeðlisfræðingur hafði náð að koma sínum boðskap á framfæri og hræða marga. Rifjaðar voru upp sögur af útlendum vísindamanni sem hafði skýlt sér með skjalatösku eða spjaldi í síðasta gosi. Einhver sagði hughreystandi að Almannavarnir myndu senda sms með viðvörun ef goss væri að vænta. Ég minntist þess að á skiltinu við veginn stóð að eldgos gætu truflað fjarskipti, gps-tæki og áttavita, en sagði ekkert.

Á leiðinni voru skaflar, nánast frá fyrstu skrefum, en þó fórum við í gegnum nýlegt hraun. Fljótlega komum við í snjó sem hélst nánast óslitinn til loka. Eftir nákvæmlega klukkutíma vildi ég stoppa og fá mér sopa af vatni, minnugur þess þegar ég fékk krampann á leiðinni á Öræfajökul. Engum öðrum fannst þetta sniðugt, en var þó látið eftir mér. Pólverjarnir örkuðu hjá.

Allt í einu kallaði ein konan í hópnum: „Helvítis Pólverjarnir.“ Eitt andartak hélt ég að þeir hefðu nappað göngustaf eða bakpoka, en þeir höfðu það eitt til saka unnið að vera komnir tuttugu skrefum á undan. Hún spratt á fætur og arkaði á eftir þeim. Sigurinn í þessu Hekluhlaupi skyldi ekki falla einhverjum útlendingi í skaut.

Það dreifðist úr hópnum. Ég stoppaði öðru hverju og tók ljósmyndir, en það er ekki þægilegt að hafa þunga myndavél skoppandi á maganum á sér, þannig að ég reyndi að fara ekki hraðar en svo að vélin héldist kyrr. Rannsóknir mínar á GPS-ferlum höfðu leitt í ljós að það eru tvær brattar brekkur á leiðinni, önnur fyrst og hún var að baki og í hinni vorum við núna.

„Andskoti er hún löng þessi brekka þín“, sagði einhver eins og það væri mér að kenna.

„Og langt eftir enn“, svaraði ég uppörvandi.

„Hversu langt?“, spurði þá Anna og Hrólfur svaraði að bragði: „Um 50 metrar.“ Brekkan reyndist hafa þá náttúru að það var sama hversu langt við gengum, alltaf voru fimmtíu metrar eftir.

Loks komumst við þó í minni halla og mín grúppa kastaði aðeins mæðinni. Anna benti á að gufustrók lagði upp af jörðinni og spurði hvort þetta væri alltaf svona. „Nei, það var snjór yfir þessu í gær“ svaraði ég og fékk ekki hlýtt bros að launum. Kannski var það vegna þess og Anna var upptekin við að rýna í hæðarmælinn í símanum sínum.

„Tólf hundruð og þrjátíu, nei, þrjátíu og sex, nei, nei tólf hundruð þrjátíu og níu metrar“, sagði hún.

„Haltu áfram að lesa af honum aðeins lengur, þá verðum við komin alla leið á toppinn“, sagði ég.

Þetta fékk engar undirtektir og ekkert annað að gera en halda áfram. Það var orðið kaldara. Í fótsporunum mynduðust sérkennilegir klakadrönglar. Ég hafði gleymt að taka með mér heyrnartæki til þess að spila tónlist í símanum og þá er fátt annað að gera en horfa á snjóinn og telja skrefin. Mestan hluta leiðarinnar draup af mér svitinn, en nú var ég farinn að finna aðeins fyrir tánum. Tilfinningin minnkaði líka í fingrunum, en það bætti úr skák að ég sá tindinn framundan. Örugglega ekki nema 200 skref eða svo.

Eftir 200 skref sýndist mér leiðin lítið hafa styst og önnur 200 bættu litlu við. Þriðji skammturinn náði mér upp á brún, sem var þó lítill ánægjuauki, því að þá sá ég að þetta var alls ekki tindurinn heldur var annar framundan. Þetta var samt ekki bratt og eina lausnin var að halda áfram. Ég var ekkert mjög þreyttur, en fór hægt yfir. Hlaupagarparnir voru löngu horfnir. Það hafði þykknað upp (ég þarf að skrifa annað bréf til yr.no sem hafði spáð glampandi sól allan daginn), en toppurinn var enn auður. Einhver hafði stungið þar niður göngustaf þannig að ég þóttist viss um að hærra yrði ekki komist.

Við brúnina var skafl sem einhver hafði dottið niður úr. Þá varð mér hugsað til þess að fjallaleiðsögumaðurinn sem ég leitaði til hafði sagt mér að þarna væri hiti undir og maður gæti pompað einn til tvo metra niður. Þetta var bara hálfur metri eða svo, en svolítið fall samt.

Framundan var smáskafl og svo hápunktur, þó nokkrum metrum neðar en sá sem maður sá enn utar. Þangað þurfti náttúrlega að stika, en verst var að sú leið var bæði niður og upp. Á endanum hafðist það líka og gangan tók mig um þrjá og hálfan tíma. Þau fljótustu í hópnum voru líklega um þrjá tíma eða tæplega það og þau sem hægast fóru eru ekki komin upp enn. Komust þó í um 1.400 metra, sem er ekki afleitt fyrir 77 ára gamlan mann.

Loksins fékk maður að borða nestið. Þarna er svolítill hiti sem hefur brætt íshella í snjóinn, suma mannhæðarháa. Enginn kannaði þá, enda höfðu menn sögur á hraðbergi um slys í slíkum svaðilförum. Datt mér þá í hug að kíkja á símann, hvort nokkurt sms hefði borist. Ekki var það, svo að ég hringdi í Vigdísi til þess að stæra mig af afrekinu. Þá kom í ljós að ekkert símsamband var og ég mundi eftir viðvöruninni um að í gosi ruglaðist farsímasamband. Lét samt eins og ekkert væri og sagði félögum mínum að ég hefði fengið þrjú sms skeyti, en gæti ekki lesið þau vegna sambandsleysis.

Rökfræðin segir að ef maður fer sömu leið upp og niður eigi hún að vera jafnlöng. Samt er það mín reynsla að þó að niðurleiðin sé fljótfarnari er hún alltaf miklu lengri en mig minnti að leiðin upp hefði verið. Allir í göngunni voru sammála um þetta og mér datt í hug að hér væri landrek í gangi. Á virku eldfjalli hljóta landflekarnir að færast hratt í sundur.

Niður var ég kominn rúmlega tvö og ferðin í heild hafði þá tekið fimm og hálfan tíma. Leiðin er einföld í snjónum og segir sig nokkurn veginn sjálf. Nokkrum görpum mættum við á fjallinu. Pólverjarnir þurftu að láta í minni pokann fyrir fjallahlaupurum okkar (ég veit ekki hvort þeir vissu að þeir væru í kapphlaupi). Tveir Íslendingar voru á skíðum og annar þeirra var kominn upp á undan mér. Auk þess mættum við tveimur galvöskum pörum, útlendum, og sáum tilsýndar fjögra manna fjölskyldu sem mér fannst varla nógu gönguleg til þess að komast alla leið. Auk þess þéttist nú loftið á toppnum.

Þrjú fóru hægar niður en við og þegar ekki hafði sést til þeirra eftir tæpan klukkutíma var mér ekki sama og hringdi í Önnu. Hún sagðist halda að þau væru villt. „Hér er bara stígur og þéttar stikur sem við munum ekkert eftir að hafa séð áður.“

Ég varpaði öndinni léttar og sagði henni að á Íslandi væri það góðs viti að vera á stikuðum stíg. Ef hún fylgdi honum til enda væri hún komin á leiðarenda. Ég veit ekki hvað hún vildi meira; kort með áletruninni: „You are here“? Svisslendingar eru vanir því að hugsað sé fyrir þá.

Allir komu svo aftur og það var ekki fyrr en á bakaleiðinni að tindurinn hvarf í skýjahulu.

Það er verst að nú neyðist ég til að ganga á fjallið aftur þegar ég verð 77 ára. Þá reyni ég að draga Vigdísi með.

Benedikt Jóhannesson bj@heimur.is

PS. Svo óvenjulega vill til að svar kom við þessum pistli áður en hann var birtur. Gylfi Pálsson skrifar:

Þú stóðst á tindi Heklu hám. – Til hamingju. Öðruvísi mér áður brá: Það var um miðjan ágúst 1980 að við Steina lágum í tjaldi við Stöng í Þjórsárdal. . Gengum einn daginn inn að Háafossi en varð tíðlitið suðaustur til Heklu þar sem hún gnæfði ögrandi í heiðríkjunni. Ákváðum að ganga á fjallið daginn eftir. – En ég var í nýjum, ótilgengnum ferðaskóm og þegar við komum aftur í tjaldið að kvöldi og ég fór úr skónum fylgdi með skinn bæði af hælum og tám.

Það varð því ekkert af Heklugöngu sem var eins gott því áætlaðan uppgöngudag gaus eldstöðin og sprunga, 5,5 km að lengd, opnaðist efst í fjallinu, sprunga sem hefði gleypt okkur – hefðum við staðið þar. Svona getur gott hælsæri bjargað lífi manns. Þetta hef ég komist næst því að fara beina leið til helvítis.

Categories

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.