Ganga, en ekkert hlaup, í Jökulsárgljúfri

„Þetta er erfiðara en það virðist vera“, sagði maðurinn þegar hann hafði fikrað sig upp kaðalinn. Ég var reyndar á niðurleið og aðdráttaraflið var mér bæði hjálparhella og ógnvættur. Í bæklingnum stóð að maður ætti ekki að fara niður í Hafragil með þungar byrðar, en nú hékk ég þarna klyfjaður bakpokanum sem Vigdís taldi sjálfsagt að ég bæri.

Vigga í kaðli

Þetta var reyndar alls ekki svo erfitt. Mér tókst að finna hvert stigið á fætur öðru og datt jafnvel í hug hvort vaðurinn væri ekki óþarfur. Líklega hafði mér misheyrst.

Í því að ég hugsaði þetta fann ég ekkert stig, fálmaði áfram með táberginu og þegar ekkert gekk greip ég þann kost vænstan að láta mig síga. Kaðallinn sveiflaðist til vinstri og ég sveif í lausu lofti. Samt var ég ekkert hræddur nema um myndavélina sem hékk um hálsinn á mér. Sveiflan endaði með skelli á grjótinu og ég sá að handarbakið var hruflað. Kannski sá ég það ekki, en fann það að minnsta kosti.

Samt var ég ekkert hræddur, það versta var yfirstaðið og það sem eftir var sigsins var reipið aðeins til trausts en lítils halds.

Jökulsárgljúfur hefur lengi heillað mig. Gönguferðin frá Dettifossi niður í Ásbyrgi hefur eitthvert aðdráttarafl sem auðvelt er að skilja ef menn hafa séð myndir af því sem fyrir augu ber. Það eina sem truflar er að leiðin er svolítið löng – 30 til 35 kílómetrar – og svo eru einstöku hindranir fyrir lofthrædda.

Ferðin hefst við Dettifoss hjá venjulegu fólki og í þessari frásögn skulum við láta eins og við Vigdís séum venjuleg, þó að í lok frásagnarinnar komi í ljós að svo er alls ekki.

Allir túristar sem koma norður í land stóðu og störðu á Dettifoss. Yfir sumum þeirra var regnbogi, sem var þeim til happs því að enginn datt í gljúfrið þennan dag. Gönguleiðin getur hafist beint í fossúðanum.

bj við Dettifoss

Flestir líta á ferðina sem þrjá áfanga, álíka langa 10 +/- 2 kílómetra hvern. Fyrst liggur leiðin úr Dettifossi í Hólmatungur. Þar er kostur á tveimur leiðum. Í leiðbeiningum sagði:

„Hafragilsundirlendi er erfiðasta gönguleiðin í Jökulsárgljúfrum en jafnframt sú mikilfenglegasta. Þeim sem bera þungar byrðar er ekki ráðlagt að fara niður í undirlendið, þar sem ganga þarf um einstigi, yfir stórgrýti og í Sanddal er kaðall sem þarf að styðjast við til að fara upp/niður undirlendið. Betra er að ganga alla leið að tjaldstæðinu við Dettifoss, skilja þar farangurinn eftir og ganga síðan um undirlendið. Einnig er þeim sem eru lofthræddir ráðlagt að fara ekki þessa gönguleið.“

Auðvitað kom ekkert til greina annað en mæta fullklyfjaður í Hafragilið. Sanddalurinn er eins og nafnið bendir til hálfgerð eyðimörk, en að öðru leyti helst merkilegur fyrir að maður veltir því fyrir sér hvort heitið sandalar sé dregið af nafni dalsins.

Leiðin er alls staðar vel stikuð nema á einum stað, einmitt þegar maður kemur reikandi niður skriðuna eftir kaðalinn. Þar stendur klettur út í ána og af einhverjum ástæðum hefur láðst að setja stiku við leiðina upp á hann. Við hættum okkur upp í stórgrýtið þar fyrir ofan, en þar var óleiði. Rétt við klettsnefið er ágæt leið sem kom loks í ljós eftir að við snerum til baka.

Ekki hafði maður gengið lengi þangað til réttlætingin á erfiðinu kom í ljós: Hafragilsfoss er glæsilegur og sérkennilegur foss í ánni sem lemst niður af miklum krafti, svo miklum að öðru hvoru kemur skvetta upp eins gos. Fossinn er ekki ýkja hár, en skemmtilegur.

Foss í Jökulsá

Litlu síðar kemur að annarri skriðu sem ekki er árennileg, en allt hafðist það nú samt. Við endann á henni hefur tröllkarl orðið að steini, kannski vegna þess að hann hefur ekki lagt í einstigið. Vigdís fetaði það léttstíg og ég fylgdi í kjölfarið.

Vigga við drangann

Sérkennilegt fyrirbæri tók við. Úr gilbotninum seytlar vatn og myndar blátt og tært lón sem liggur upp að gráu og gruggugu jökulfljótinu. Þarna hefðum við auðvitað átt að skella okkur í bað, en þá hugmynd fékk ég ekki fyrr en núna, enda kannski eins gott því hafði maður flotið niður í jökulelfina væri enginn til þess að skrifa þessa sögu.

Vogur í Jökulsá

Á köflum finnst manni engu líkara en að engin leið sé upp úr gljúfrinu og líklegast að maður beri þar beinin, en þá kemur ljós gjá sem liggur skáhalt á gljúfrið og upp úr henni kemst maður í gegnum marga fallega hvamma.

Gljúfrið

Á gilbarminum tekur við tíðindalítil leið. Það var ekki fyrr en við komum að stuðlagólfi að við sáum aftur í enn eitt furðuverkið.

Vígaberg er sérkennilegur klettur og hjá honum foss sem dregur nafn af berginu. Hann liggur í U, svipað og Níagarafossarnir, en er heldur minni.

Annar foss og minni

Allt í einu er maður kominn upp á svonefnt Þórufell og bílastæðið við Hólmatungur blasir við. Þessi áfangi tók okkur um það bil þrjá og hálfan tíma á göngu.

Við höldum áfram enn. Þarna eru svonefndir Katlar og það væru mikil mistök að ganga framhjá þeim. Reyndar eru svo víða sérkennilegir klettar og fallegir fossar að ekki verður tölu á komið og erfitt að rjúfa frásögnina með lýsingum á þeim.

Gönguleiðin er einstaklega falleg, meðfram Stallá sem maður þarf að vaða, en það var bara skemmtilegt og engin hindrun.

bj á leið yfir lækinn

Gloppa er hellir og gat í sandbarð þar sem maður sér ána í gegn. Í hellinum hefur verið rétt og þar sést enn hleðsla. Útúrdúr en vel þess virði.

Á gilbarminum

Oddur bróðursonur minn er 11 ára, en það lét hann ekki stoppa sig. Hann fór vandlega yfir það hve margir kílómetrar væru á hverri leið og svo gerðum við okkur það til dundurs að giska á hve mikið væri eftir.

Karlinn og Kerlingin eru klettadrangar sem eru hverjum ferðalang ástæða til þess að ræða hvers konar pólitík það sé eiginlega að hafa Karlinn stærri. Ég hætti mér ekki í þá umræðu.

Drangar í Rauðuskriðum

Annars verð ég að segja að allur þessi stígur er til fyrirmyndar. Sums staðar eru plankar sem fleyta manni yfir mýrlendi og stikurnar eru sem fyrr segir þéttar. Svo eru víða drangar sem standa út í ána þar sem gott er að virða fyrir sér fallega fossa eða stuðlaberg. Það hefur verið mikið lagt í hönnun á þessu gljúfri.

Í Vesturdal er tjaldstæði og þar eru hinir eiginlegu Hljóðaklettar, sem bera ekki nafn með rentu. Þar er ekkert bergmál sem heitið getur. Við hefðum heimtað endurgreiðslu ef náttúrupassinn hefði verið kominn.

Hljóðaklettar

Öðrum áfanga var lokið og hann tók um þrjá tíma.

Veður var hagstætt á göngunni, upp í 15 gráðu hiti en skýjað að mestu. Svona finnst mér veðrið alltaf vera fyrir norðan, en heimamenn börmuðu sér ákaflega.

Við átum nesti fyrir neðan klettabyrgi og undum hag okkar hið besta. Í Hljóðaklettum er gaman að fara slóðina meðfram ánni, alla leið að Rauðhólum. Ég man eftir því að þegar við bræður fórum þarna fyrst með foreldrum okkar sagði mamma að stuðlarnir í Þjóðleikhúsinu væru mótaðir eftir Hljóðaklettum. Ef það er rétt er fyrirmyndin fallegri en afsteypan.

Meira í Hljóðaklettum

Nú var degi tekið að halla og frá Rauðhólum lá löng leið yfir engi og votlendi. Þar eru sérkennilegir klettar, ekki ósvipaðir tungunni í Ásbyrgi og einn heitir Byrgið.

Við seftjörn varð rjúpnahópur á vegi okkar. Rjúpur er snjallar að fela sig og tókst það býsna vel, þó að ég mundaði bara myndavélina en ekki önnur skotfæri.

Rjúpa

Loks vorum við komin á brún Ásbyrgis og það blasti við. Í kvöldljósinu var það öðruvísi en venjulega. Leiðin liggur á gígbarminum um þrjá kílómetra og eins og oft þegar maður heldur að maður sé kominn kom í ljós að síðasti áfanginn var drjúgur.

Ásbyrgi

Tófuklif í Ásbyrgi er leið sem liggur niður klettavegginn, niður stiga og kaðal, frá barmi á botn Ásbyrgis. Þessi leið er svo létt að meira að segja Sigurður bróðir minn, sem lætur sér ýmislegt fyrir brjósti brenna þegar kemur að klifri, fór þarna með bros á vör.

Eftir voru 800 metrar í skálann við Ásbyrgi og ég sagði Oddi frænda að heimsmetið í 800 metra hlaupi væri tæplega tvær mínútur. Það varð til þess að þeir feðgar freistuðu þess að hlaupa áfangann á tveimur mínútum (sem mér fannst raunsætt af þeim að stefna ekki á heimsmet við þessar aðstæður). Það tókst nokkurn veginn og þeir komust í sjoppuna kortér fyrir tíu og gátu keypt ís sem við höfðum sannarlega unnið fyrir.

Kvöldsól

Síðasti áfanginn tók þrjá og hálfan tíma á göngu og gangan öll um tíu tíma.

Ferðin endaði í Klifshaga þar sem foreldrar Solveigar hans Sigga eiga bústað. Sannarlega skemmtilegur dagur.

Er nú komið að játningu. Dagurinn var nefnilega ekki einn heldur tveir. Við Vigdís komum að sunnan með Flugfélagi Íslands og þessa verslunarmannahelgi var uppbókað í flugið klukkan átta. Við lentum því ekki fyrr en rúmlega tólf og vorum ekki komin í Hólmatungur, þar sem ferðin hófst fyrr en rúmlega þrjú.

Leiðin lá því þaðan í Ásbyrgi þennan sunnudag og daginn eftir keyrði Siggi okkur upp að Dettifossi þar sem við Vigdís töltum síðasta áfangann sem hefði átt að vera fyrstur. Þau þurftu hins vegar að flýta sér í bæinn.

Hjá okkur endaði túrinn í jarðböðum við Mývatn sem eru skemmtileg uppfinning og loks í kaffihúsin við Dimmborgir þar sem ég fékk besta hamborgara sem um getur, Gautann.

Gautinn var punkturinn yfir i-ið.

Benedikt Jóhannesson bj@heimur.is

PS Í lokin hvet ég alla til þess að lesa bók Sigrúnar Helgadóttur um gljúfrin, hún er mikill gimsteinn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.