Lausnin

Í gær, 14. ágúst, var afmælisdagurinn hans pabba. Ég mundi auðvitað eftir því, en hefði ekki fært í frásögur nema af litlum viðburði. Um morguninn sat ég á fundi og þegar erindinu var lokið sagðist fundarboðandi ætla út í allt aðra sálma og spurði hvort ég þekkti Einar Marínó Magnússon. Ekki minntist ég hans. Réttir hann mér þá lítið hefti og getur þess um leið að þessi föðurbróðir hans hafi lengi unnið hjá Hitaveitunni, kallaður Nói.

Þá áttaði ég mig á að Einar var kunningi pabba, en pabbi stýrði Hitaveitu Reykjavíkur í rúman aldarfjórðung. Nóanafnið þekkti ég ekkert því að pabbi vísaði yfirleitt til manna með eiginnöfnum og ekki gælunöfnum. Ekki veit ég hvort það er þess vegna, en mér er alltaf lítið um að fullorðið fólk sem ekki þekkist þeim mun betur kalli aðra gælunöfnum. Það er allt annað mál hvað menn kalla vini og ættingja sem þeir þekkja vel.

Þetta var útúrdúr. Heftið heitir: Nokkur minningarbrot frá árunum mínum hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Einar er fæddur 4. febrúar árið 1924 og lauk prófi í járnsmíði. Hann vann hjá Hitaveitunni allan tíma pabba þar og nokkur ár síðan. Þeir hittust öðru hvoru nokkrir gamlir samstarfsmenn í kaffi í Perlunni eftir að pabbi hætti að vinna: Einar, pabbi, Árni Gunnarsson verkfræðingur og Jón Eggertsson yfirvélstjóri.

Saga Einars fjallar um dælur, legur og bora og höfðar kannski ekki til margra, en gott að þeim fróðleik sé til haga haldið. Í miðju hefti kom þó frásögn sem ég las af athygli. Einar lýsir því fyrst hve erfitt hafi verið að eiga við dælur með grafítlegum sem „spændust upp af óhreinindum í vatninu.“ Olíusmurðar dælur dugðu öllu betur en við þær var mikið viðhald, óþrif og „alltaf hætta á að olían kæmist í vatnið og voru menn uggandi yfir því.“

En við þessum vanda fannst lausn „þegar Jóhannes hitaveitustjóri rakst á grein í fagtímariti um eiginleika „TEFLONS“ þessa undraefnis sem fundið hafði verið upp í sambandi við geimferðir. Það var sagt mjúkt og eftirgefanlegt, líkt og gúmmí og þyldi mjög háan hita. Jóhannes taldi þarna vera komið efni sem hentaði í legur. Framleiðandinn var ameríska fyrirtækið „DU PONT“ Umboðsaðili þess á Íslandi var Orka hf. Jóhannes setti sig strax í samband við umboðið og fékk svar fljótlega um að sennilega gætu þeir fengið fyrirtækið í Ameríku til að búa til legur með blöndu sem hentaði heita vatninu. Eftir þessu skjótu viðbrögð Jóhannesar tel ég hann hafi bjargað Hitaveitunni frá vaxandi vatnsskorti og erfiðleikum vegna bilana í borholudælunum.“ Lýsir Einar svo ferð pabba og Höskuldar Ágústsonar yfirvélstjóra til Bandaríkjanna þar sem þeir fengu líka teikningar að réttingabekk sem mikill fengur var að og nýttist vel á Íslandi.

Síðar kemur Einar aftur að sama máli: „Nú var komin nokkurra ára reynsla á þetta frábæra leguefni „Teflon“. Það má segja að það hafi bjargað Hitaveitunni út úr þeim vanda sem eldra leguefni var búið að valda fyrirtækinu. Þessa björgun má þakka Jóhannesi Zoëga, hitaveitustjóra, og hefði hann mátt fá ríflega viðurkenningu fyrir framtakið. Þegar þeir félagar Höskuldur og Jóhannes fóru til Bandaríkjanna saman má segja að þeir hafi farið í gullleitarferð. Gullið fundu þeir svo sannarlega.“

Einar heldur áfram og segir frá því að þeir kaffifélagarnir í Perlunni færðu pabba verk sem Einar smíðaði til þess „að minnast þess sem hann afrekaði í legu- og borholudælumálunum.“

Ég man vel eftir þessu verki, sem þeir kölluðu Lausnin, sem var heima hjá pabba á Laugarásveginum og honum þótti vænt um. Það skrítna er að ég man ekki eftir að pabbi hafi nokkurn tíma gumað af þessari uppfinningu sinni, sem Einar lýsir sem byltingu þegar „dælurnar fóru að ganga snurðulaust með teflonlegunum og réttum öxlum. Sumar dælurnar voru farnar að ganga 10-15 ár án þess að líta á þær með 3.000 snúninga á mínútu. Það eru margir hringir yfir árið. Það er ekki ofsögum sagt að teflonið sé gulls ígildi. Í þeim gullfundi átti Jóhannes Zoëga stærsta þáttinn.“

Pabbi vék reyndar að þessu í Æviminningum sínum: „Mikill árangur varð af nýju stóru borholunum, en dælurnar settu strik í reikninginn, þær voru sífellt að stöðvast þegar mest var þörfin fyrir heita vatnið. Það var ekki fyrr en 1965 að ég var að lesa grein í amerísku tímariti um efni sem heitir teflon og er notað í alla skapaða hluti núna þar sem þörf er á mýkt við háan hita. Það er efni sem þróað var á stríðsárunum í sambandi við fyrstu atómsprengjuna, það var ekki notað í hana sjálfa heldur í tæki sem voru notuð til þess að aðskilja gastegundir.

Teflon er svipað gúmmíi, mjúkt og eftirgefanlegt en það þolir ákaflega mikinn hita án þess að breyta sér. Mér datt strax í hug að þetta efni væri tilvalið í legurnar. Þá vorum við búnir að prófa meðal annars innilokaðar málmlegur smurðar með olíu. Það gekk mun betur, en smurningin var viðkvæm og við óttuðumst mikið að olían kæmist í vatnið og einnig að vatn kæmist í olíuna, eyðilegði smurninguna og festi öxlana í legunum. Ég setti mig undir eins í samband við framleiðanda teflons, Du Pont í Ameríku, og dæluframleiðandann sem einnig var í Ameríku. Báðir tóku jákvætt í þessa tillögu og fyrstu dælurnar með teflon-legum voru reyndar vorið 1966.

Árangurinn uppfyllti björtustu vonir okkar og var gerð gangskör að því að breyta öllum borholudælum Hitaveitunnar á þennan hátt. Því var lokið fyrri hluta árs 1968 og hafa borholudælur Hitaveitunnar ekki verið áhyggjuvaldur síðan. Á tilraunaárunum gengu dælurnar oft ekki nema nokkra daga, jafnvel aðeins nokkrar klukkustundir án bilana. Nú ganga þessar dælur án truflana árum saman og er þeim fjarstýrt frá stjórnstöð, þ.e. þær eru gangsettar og stöðvaðar eftir þörfum.“

Einhverjir hefðu kannski gert meira úr þessari byltingu sem Einar lýsir svo fjálglega, en þessi stutti texti er dæmigerður fyrir pabba, hann var ekkert að monta sig af þessu afreki sem fór framhjá mér þangað til félagar hans gáfu honum verkið. Mér finnst gott hjá Einari að halda þessu til haga.

Af þessu tilefni detta mér í hug tvær sögur af pabba sem sýna að hann var ekki venjuleg skrifstofublók. Aðra sagði Jóhann Reynisson Zoëga frændi minn mér. Einhverju sinni hafði komið upp eitthvert vandamál sem olli því að vatnslaust var í Fossvogi. Hringt var í pabba sem strax stökk út og Jóhann sem var í heimsókn hjá okkur fékk að koma með. Þeir sem á staðnum voru voru ráðalitlir en pabbi fór strax inn í dælustöðvarskúr sem var svo fullur af mælum og lokum að flestum hefðu fallist hendur. Pabbi sá hins vegar strax hvað var að, skrúfaði frá réttum loka þannig að vatnið flæddi á ný.

Tómas bróðir minn sagði mér svo frá því að þegar taka átti í notkun kyndistöð í Árbænum átti á koma þar fyrir mikilli dælu. Pabbi var lasinn og hafði verið heima í nokkra daga, en þegar hann heyrði að sérfræðingarnir hefðu lent í vandræðum bað hann Tómas að keyra sig uppeftir. Í kyndistöðinni fórnuðu menn höndum og vissu ekki sitt rjúkandi ráð, en pabbi leit andartak á dæluna nýju og sagði strax: „Þið hafið sett hana vitlaust saman.“ Svo gaf hann leiðbeiningar um hvernig ætti að bera sig að og fór svo heim og lagði sig aftur. Eftir þetta gekk allt eins og smurt og dælan small saman.

Mér varð það hins vegar minnisstætt að hann sagði frá því að hann gat stokkið heljarstökk í leikfimi sem strákur og af því bæði öfundaði ég hann og var svolítið hreykinn að eiga svona snjallan föður.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.