Konungur konunganna

Í fornöld tíðkaðist það að mestu vitringar skrifuðu bréf sem innihéldu mikinn vísdóm. Páll postuli hafði ekki áhyggjur af því að aðrir læsu bréfin hans, hvort sem þau voru stíluð til Kórintumanna, Rómverja eða annarra. Þessi siður lá niðri um hríð og jafnvel þó að Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins vektu athygli þegar Bjarni heitinn Benediktsson skrifaði þau voru þau auðvitað bara einfaldur boðskapur og enginn hefði þurft doktorsgráðu til þess að ráða þau.

Nú er öldin önnur. Svo vel vill til að á glámbekk lá eftirfarandi bréf sem nefnt er:

Bréf Davíðs til snillinganna,

en auðvitað á það erindi við okkur hin líka.

[Sagan hefst á Hólahátíð árið 1999 þar sem spámaðurinn hefur fengið köllun]:

„En það mikla land Rússland með öllum sínum náttúrukynstrum og kostum fær ekki notið sín, því stjórnkerfið og efnahagslífið nær ekki að þroskast og virðist um þessar mundir einkum lúta lögmálum glæpalýðs og eiturlyfjabaróna. Blóðpeningar þeirra flæða um Evrópu og skapa þar ótta og öryggisleysi. Menn sem engar leikreglur virða, leitast við að þvo illa fengið fé sitt í fjármálakerfum þjóðanna. Margir stjórnmálaforingjar í Evrópu telja þetta mestu ógnun sem nú sé við að eiga á Vesturlöndum.

Við Íslendingar, sem svo nýlega höfum opnað okkar hagkerfi, þurfum að gæta þess að verða ekki leiksoppur slíkra afla. Efnahagskerfið verður að vera opið og einfalt en jafnframt gagnsætt og byggt á trausti. Lykilorðið er traust.

Á Þingvöllum treystu menn sáttarorðum Þorgeirs Ljósvetningagoða [fyrirrennara míns], vitsmunum hans og velvilja. Í þúsund ár hafa menn sett traust sitt á kærleik Krists í þessu landi. Í því trausti munum við ganga á vit nýrrar aldar, sem einstaklingar, sem fjölskyldur, sem þjóð ­ íslensk þjóð í eigin landi, með þeim ásetningi að verða Guði til ánægju og dýrðar á afmælisári og upp frá því. “

[Næsti hluti er furðu líkur Opinberunarbókinni, en það er auðvitað tilviljun]:

„Og eg sá einn engil standa í sólunni. Og hann kallaði hárri rödd og sagði til allra fugla sem undir himni fljúga: Komið og samansafnið yður til kveldverðar hins mikla Guðs að þér etið hold konunganna og landsstjórnaranna og hold öflugra og hestanna og þeirra sem þar upp á sátu og hold allra frelsingja og þjónustumanna, bæði smárra og stórra. Og eg sá dýrið og konunga jarðarinnar og þeirra lið samansafnað til að halda stríð við þann sem á hestinum sat og við hans her.

Og dýrið varð höndlað og með því sá falski spámaður sem teiknin gjörði fyrir því af hverjum hann villti þá sem auðkenningarmerki dýrsins meðtóku og þá er mynd dýrsins tilbáðu.

Og hann fóttreður þrúgu bræðinnar víns og reiði Guðs almáttugs og hefir nafn skrifað á sínu fati, á sinni lend líka svo: Konungur konunganna og Drottinn drottnanna.“

[Falsspámaðurinn er augljóslega Gunnar Bragi, fyrir þá sem ekki eru vanir að lesa slíkan texta].

[Og hverjir skyldu það vera sem eta hold allra þessara ágætu manna og hver gaf?]:

„Eftir að hafa stappað svaðið og gefið ljónunum af tröppum Stjórnarráðsins á fjórtánda ár og svo í rúmt ár þar á eftir rjátlað um á ráðherraskrifstofu utanríkisráðuneytisins taldi bréfritari sig vita ekki verr en aðrir, hvaða kröfur væru gerðar til mikilvægra ákvarðana, sem legðu ríkar skuldbindingar á Ísland og í þessu tilviki mjög íþyngjandi skuldbindingar.“

[Að lokum kemur hér hylling leiðtogans í austri sem boðar nýja dögun]:

Sjá roðann í austri! – Hann brýtur sér braut!

Fram bræður! – Það dagar nú senn!

Þeir hæða vorn rétt til að rísa frá þraut,

vorn rétt til að lifa eins og menn.

Þeir skammta okkur frelsi; þeir skammta okkur brauð.

 – Hvað skóp þeirra drottnandi auð?

[Eftir Þorstein Gíslason, afa Þorvalds Gylfasonar, en þetta er samt assgoti gott].

Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir!“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.