Þol ei órétt!

Atburðir nýliðinna daga sýna glöggt að það er þörf á nýju, frjálslyndu afli í íslensk stjórnmál, afli sem styður vestræna samvinnu og aðgerðir gegn ólöglegum stríðrekstri Rússa. Í þessu máli hefur öllum staðreyndum verið snúið á hvolf til þess að þjónka Pútín og ofbeldisaðgerðir hans.

Ofbeldi gegn Úkraínu

Rússar innlimuðu Krímskaga þegar stjórnvöld í Úkraínu voru ekki lengur undirgefin þeim. Sumir hafa bent á að ekki sé langt síðan Krím heyrði undir Rússland og þar séu flestir íbúar rússneskumælandi. Með svipuðum málflutningi gætu Finnar og Pólverjar ráðist á Rússland, sem tóku væna sneið af löndunum í seinni heimstyrjöldinni. Hitler beitti þessum málflutningi ítrekað í aðdraganda stríðsins og alltaf lyppuðust Davíðar og Chamberlainar þess tíma niður til þess að friða ljónið.

Tugir þúsunda rússneskra hermanna eru á austurlandamærunum Úkraínu margir þeirra vestan við þau. Þeir kalla sig eflaust verndara eða frelsishetjur. Ekki er nema rúmt ár síðan Rússar eða leppar þeirra skutu niður fulla farþegaflugvél sem flaug frá Hollandi.

Bandaríkin fengu til liðs við sig vestræn ríki innan NATO og Evrópusambandsins til þess að styðja aðgerðir gegn yfirgangi Rússa:

  • Vopnasölubann á Rússland, svo og að selja ekki hátæknibúnað til vopnaframleiðslu og orkuframleiðslu.
  • Skerðing á ferðafrelsi tiltekinna rússneskra aðila til landa sem taka þátt í þvingunaraðgerðum.
  • Frysting eigna þessara aðila, svo og bann á viðskipti við nokkra banka og olíufyrirtæki.
  • Bann á þjónustuviðskiptum við hin innlimuðu svæði á Krímskaga og  í Sevastopol, og einnig fjárfestingum á þessum svæðum.

Engum fannst neitt að þessu. Gott væri að vita hverjum þessara aðgerða þeir Íslendingar sem nú tala um að við eigum að láta af samstöðu í málinu vilja láta af. Vilja þeir hefja vopnasölu til Rússlands eða bjóða þessum vildarvinum í heimsókn? (Ólafur Ragnar gæti að vísu viljað það).

Makríllinn kemur til sögunnar

Íslendingar hafa undanfarin ár selt makríl til Rússlands. Þann 12. júní sagði í Morgunblaðinu:

„Undanfarin ár hefur makrílvertíð byrjað er líður á júnímánuð, en mikil óvissa er um sölu makríls á næstu mánuðum. Hermann Stefánsson, framkvæmdastjóri Iceland Pelagic, sem er eitt stærsta fyrirtækið í útflutningi á makríl, segir að þó svo að markaður sé fyrir hendi í Rússlandi sé efnahagsástandið erfitt í landinu og rúblan hafi gefið eftir undanfarið. Rússland hafi síðustu ár verið langstærsti markaðurinn fyrir makríl frá Íslandi. Áður hefur komið fram í fréttum að útflytjendur hafi lent í erfiðleikum á síðasta ári í viðskiptum við Rússland vegna gjaldþrota fyrirtækja þar í landi. Talið er að verulegir fjármunir kunni að hafa tapast vegna þessa. Í öðrum tilvikum hafi greiðslur borist seint, en eitthvað mun þó hafa skilað sér síðustu mánuði.“

Þessi markaður hefur með öðrum orðum lokast og það hafa útgerðarmenn vitað lengi. Gengi rúblunnar hefur hrunið um helming á sama tíma og olíuverð hefur lækkað samsvarandi. Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður bendir á hið augljósa í grein í Vísbendingu: „Það mun ekki ganga að selja rússneskum almenningi innflutt matvæli á sama verði í dollurum og áður, en það þýðir tvöfalt verð í rúblum. Samdráttur í kaupmætti almennings leyfir honum ekki slíkan munað.“

Rússar vita hins vegar að á Íslandi eru ekki hugaðir menn við stjórnvölinn. Kannski var hægt að nýta sér ástandið til þess að hræða Íslendinga frá samstöðu með vesturveldunum og bandalagsþjóðum þeirra. Rússar lýstu yfir innflutningsbanni á íslenskan fisk. Það skipti þá engu, því að fiskurinn var orðinn svo dýr í rúblum að fáir gátu keypt hann. Íslendingar vildu heldur ekki selja liði sem ekki gat borgað.

Bara til áréttingar: Rússar settu innflutningsbann á íslenskar matvörur, Íslendingar studdu vopnasölubann og bann við ferðalögum nokkurra olígarka. Til upprifjunar má minna á orð þáverandi forsætisráðherra á Hólahátíð 1999: „En það mikla land Rússland með öllum sínum náttúrukynstrum og kostum fær ekki notið sín, því stjórnkerfið og efnahagslífið nær ekki að þroskast og virðist um þessar mundir einkum lúta lögmálum glæpalýðs og eiturlyfjarbaróna. Blóðpeningar þeirra flæða um Evrópu og skapa þar ótta og öryggisleysi. Menn sem engar leikreglur virða, leitast við að þvo illa fengið fé sitt í fjármálakerfum þjóðanna. Margir stjórnmálaforingjar í Evrópu telja þetta mestu ógnun sem nú sé við að eiga á Vesturlöndum.“

Sami maður sagði árið 2005: „„Samstaða vestrænna lýðræðisríkja innan NATO var sú brjóstvörn sem villimennska kommúnismans brotnaði á. Heimsmyndin er nú breytt. Þær hættur sem stafa að lýðræðisríkjunum eru aðrar og margbrotnari en áður. Hryðjuverkamenn og skálkaríkin sem styðja þá eru ógn við frelsi okkar, líf okkar og limi. Þörfin á samstöðu er engu minni nú en áður.“

Nú segir hann: „Var enginn sem treysti sér til að upplýsa ESB og Bandaríkin um það, að sá her, sem íslenska ríkisstjórnin óttast mest, er svokallaður bloggher hinna virku á netinu. Þeim her tókst að koma í veg fyrir að Landhelgisgæslan mætti taka á móti fáeinum afskrifuðum vélbyssum Norðmanna, sem fást áttu gefins, áður en rokan hófst, en voru svo metnar fyrir siða sakir á upphæð sem bílasala auglýsti að fengist fyrir tveggja ára gamlan Range Rover.“

Tollarnir í Evrópusambandinu

Athyglisvert er að heyra Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi tala um að ekki tjói að flytja makríl út til Evrópusambandsins því þar sé 20% tollur á makríl. Hvers vegna var þetta ekki upplýst fyrr, til dæmis þegar menn voru að meta hvaða hag sjávarútvegurinn hefði af inngöngu Íslands í sambandið?

Nú koma ráðamenn skælandi til sambandsins og biðja um lækkun þessara tolla til þess að bjarga sjávarútvegsfyrirtækjunum (sem hvort eð er gátu og vildu ekki selja Rússum makrílinn).

Þetta mál verður til þess að menn verða að endurskoða frá grunni kynningu á hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegi gagnvart aðild. Fyrirtækin sem flest nota evru í sínum reikningum og viðskiptum geta ekki verið á móti því að aðrir landsmenn noti þá ágætu mynt.

Samstaða er nauðsyn

Nú er ljóst að með langvarandi rangfærslum gegn vestrænni samvinnu hafa andstæðingar Evrópusambandsins loks náð því undraverða stigi að þeir trúa sjálfir bullinu í sér. Það sem áður var hvítt er nú svart, fyrrverandi vinir verða fjendur og bandamanna helst að leita í landi glæpalýðs og eiturlyfjabaróna.

Auðvitað er lítið við því að segja að leigupennar beiti blekkingum, en menn sem kosnir eru sem framverðir baráttunnar fyrir vestrænum gildum mega aldrei víkja. Þegar þeir svo mikið sem íhuga það sýnir það enn einu sinni, að á Íslandi er þörf fyrir nýjan markaðssinnaðan flokk sem telur að Ísland eigi að halda áfram í þeirri sveit sem þeir hafa verið í allt frá stríðslokum.

Það þarf Viðreisn!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.