Myndir á skírteinum

Eftir hrun [sjá skýringu í lokin] fóru bankarnir að heimta að gamlar konur skrifuðu undir yfirlýsingar í þríriti um að þær stundi ekki peningaþvætti. Fólk sem fer til útlanda þarf að skýra það fyrir Seðlabankanum hvernig það vann sér inn peningana sem það kaupir gjaldeyrinn fyrir. Bankar krefjast þess að fá afrit af vegabréfum.

Einn morgun ekki alls fyrir löngu hringdi farsíminn. Bankastjórn Seðlabankans (eða var það stjórn Íslandsbanka?) hafði krafist þess að ég legði umsvifalaust fram ljósrit af vegabréfinu mínu. Ég fylltist óróleika því að ég mundi það glöggt að fyrir nokkrum árum hafði ég mætt í mínu fínasta pússi og afhent vegabréfið til innskönnunar. Hafði skjalageymsla bankans verið rænd? Eða vegabréfið mitt tapast um leið og gjaldeyrisvarasjóðurinn um árið? Ótti minn var ekki að ástæðulausu, þó að skýringin væri önnur. Nú var sem sé allt í óefni. Þann 5. júlí árið 2013 rann vegabréfið mitt út og ég var ekki lengur til í augum bankans.

Fyrst þegar ég fór til útlanda var ég ekki með neitt vegabréf. Þá fór ég til Danmerkur á ökuskírteininu mínu (það var fyrir daga Schengen, áður en maður þurfti að ganga með vegabréf á sér öllum stundum til þess að sanna að maður þyrfti þess ekki). Ég fylltist óhug því að næst því að lokast inni í lyftu með framsóknarmanni hryllir mig mest við tilhugsuninni um að sækja um skilríki. Þess vegna var ég ekki lítið kátur þegar röddin í símanum sagði: „Það er allt í lagi.“ Ég fylltist öryggistilfinningu á ný þangað til hún bætti við: „Þú getur látið skanna inn ökuskírteinið þitt.“

Ökuskírteinið mitt var nefnilega allra misheppnaðasta skírteini sem ég hef eignast. (Nema ef vera skyldi nafnskírteinið þar sem einhver breytti fæðingardeginum fyrir mig úr 55 í 53. Ég þorði aldrei að nota það eftir breytinguna). Ökuskírteinið var samt skínandi fínt og fallegt þegar ég fékk það. Á myndinni var ég skælbrosandi og nýklipptur, gat ekki verið flottari. En skjótt skipast veður í lofti. Næst þegar ég leit á skilríkin, bleik og glansandi fín hafði eitthvað gerst. Myndin af mér var ekki lengur í fókus. Brosið og klippingin voru í lagi, en ég sjálfur var ég eins og hulinn móðu. Bull og vitleysa hugsaði ég, setti skírteinið aftur í veskið og nuddaði stírurnar úr augunum.

Löngu seinna, þekkti ég mig varla lengur á þessari mynd. Ég sá litinn á skyrtunni, en enga andlitsdrætti. Um það þurfti ekki að deila að ég var að hverfa. Af þessu hafði ég þungar áhyggjur. Gat verið að ég lifði tvöföldu lífi, einu á skírteininu þar sem ég væri enn ungur og hress, en hyrfi smám saman, og hinu þar sem ég gránaði stöðugt, fengi bauga undir augun og bætti á mig kílóum á hverju ári? Fljótlega hafði ég svo miklar áhyggjur af þessu að ég svaf varla á nóttunni (sem betur fer gat ég dottað í vinnunni). Hvað ef ég yrði stoppaður, þyrfti ég að ganga heim, taka aftur prófið, jafnvel fara í ökutíma á ný? Á meðan fjaraði myndin út og bráðum var hún orðin eins og þokubólstri.

Einhvern daginn var ég að keyra eftir Snorrabrautina sem hefði ekki verið í frásögur færandi nema ég sá allt í einu að borgaryfirvöldum hafði þóknast að setja upp nýtt umferðarljós. Á mótum Bergþórugötu og Snorrabrautar. Flestir vita ekki einu sinni að þessi gatnamót eru til, hvað þá að nokkrum dytti í hug að setja umferðarljós við þau. Við Laugaveginn var rautt ljós eins og venjulega og aftur við Hverfisgötuna. Þannig hefur þetta verið eftir að Samfylkingin tók við stjórn umferðarljósanna, og ég hlýddi eins og löghlýðinn borgari. Í Borgartúninu sá ég í speglinum að fyrir aftan mig blikkuðu blá ljós. Að gömlum vana veik ég til hliðar og stoppaði. Einhvers staðar hefur orðið slys, hugsaði ég um leið og bíllinn nam staðar. Löggan fór fram úr, en í stað þess að hverfa út í blámóðuna stoppaði hún framan við mig. út steig vörpulegur lögregluþjónn og ég hugsaði með mér að nú væri stefnuljósið til vinstri bilað, en ég gæti þess af hugsjónaástæðum að endurnýja aldrei peruna þeim megin.

Ég rúllaði rúðunni niður. „Sæll vinur“, sagði vörður laganna og ég beit í vörina á mér til þess að svara ekki: „Blessaður, kúturinn minn.“ heldur svaraði „Góðan dag“, og bætti heldur ekki við „herra lögregluþjónn“, sem mér þótti þó freistandi.

„Ertu á hraðferð?“ spurði sá boðungaklæddi, en ég svaraði sannleikanum samkvæmt: „Nei, nei, ég er bara á leið í vinnuna.“ Hann mældi mig út og hefur líklega séð að ég var lítið drukkinn. „Ertu vanur að fara yfir á rauðu?“ spurði hann.

Nú lá á að hugsa hratt. Ég er reyndar ekki vanur að fara yfir á rauðu, en þetta gat verið gildra. Þess vegna nuggaði ég hökuna, umlaði og sagði eins og annars hugar: „Venjur eru margar og oft getur vani orðið ósiður, en jafnvel þó að ég festist oft í hinum verstu klisjum verð ég að játa að …“ Ég sá að nú var löggunni efst í huga að kalla í talstöðina: „Hópútkall, ég held að ég sé kominn með Kobba Magg í dulargervi.“

Ég hafði valið ranga leið, leiðrétti mig og svaraði: „Nei.“ Hann aflýsti þegar hættuástandinu í huganum. Næst bað hann mig fyrst um ökuskírteini. Yfir mig þyrmdi og það var augljóst að næsta skref yrði að ég yrði beðinn að fara út úr bílnum og leggja hendurnar á húddið og bil milli fóta. Skjálfandi á beinunum rétti ég fram skilríkin sem hefðu getað verið frá hverjum sem er, því að myndin var algerlega horfin. Enda breyttist viðmótið þegar hann fékk plastið í hendur. Í stað þess að þrifa upp kylfuna eins og ég bjóst við varð hann hinn stimamýksti, vandræðalegur á svip baðst hann afsökunar á þessum afglöpum hins opinbera að gefa út gallað skírteini. Ég gæti að sjálfsögðu fengið annað á kostnað ríkisins og skyldi alveg gleyma þessu rauða ljósi á Snorrabrautinni.

Þarna sá ég að ég var með dýrgrip sem ég ætti aldrei að skilja við mig. Skírteinið gat greinlega leyst mig úr hverri þraut. Að vísu hafði ég sjaldan komist í kast við lögin fram að þessu, en nú gæti ég bætt úr því.

Allur þessi útúrdúr var nauðsynlegur til þess að menn skilji hvernig mér leið þegar talað var um að skanna inn ökuskírteinið. Til þess þurfti ég nýtt ökuskírteini og varð að gefa upp á bátinn öll áform um að yfirgefa hinn þrönga veg dyggðarinnar.

Til þess að gera langa sögu stutta (eða er það öfugt?) fór ég næsta dag í Kópavoginn til sýslumanns sem getur bæði gefið út ökuskírteini og vegabréf (mér finnst það reyndar hneyksli að hægt sé að gera þetta á sama stað. Ég vænti þess að ríkisstjórnin færi útgáfu vegabréfa bráðum í Bakkafjörð, en ökuskírteinin í Djúpuvík).

Vingjarnleg kona tók við mér og sagðist gjarnan vilja endurnýja vegabréfið mitt fyrir 8.437 krónur. Þegar ég rétti fram gamla vegabréfið og greiðslukortið hristi hún hins vegar höfuðið. „Hér er bara hægt að borga með reiðufé.“ Þegar hún sá hve hnugginn ég var benti hún mér á að það væri hraðbanki í Salahverfinu, en áréttaði jafnframt að hún gæti ekki gefið tilbaka.

Fyrst ég var kominn spurði ég hvort ég gæti þá ekki að minnsta kosti fengið nýtt ökuskírteini. „Nei það er önnur deild.“ Svo vel vildi þó til að sú deild var á nálægum bás. Ég dró nýtt númer og hálftíma síðar var það dregið út.

Ég bað um nýtt ökuskírteini og jú, það kostaði ekki nema 4.291 krónu, Dró ég nú hróðugur fram töfraskírteinið mitt og þá kom annað hljóð í strokkinn. Nýtt skírtein fengi ég að sjálfsögðu ókeypis. „Þú ert náttúrlega með 46,3×28,9 mm mynd með þér?“

Ég fór tómhentur frá sýslumanni.

Á skrifstofunni átti ég ágæta mynd af mér og spurði ljósmyndarana hvort ekki væri hægðarleikur að klippa hana í tilskilin hlutföll. „Nei, nei, nei, nei, nei,“ sagði Páll Kjartansson. „Þessi mynd er ómöguleg. Þú er brosandi og það sést ekki nema í annað eyrað á þér. Þér verður aldrei hleypt inn í Bandaríkin með þessa mynd.“

Lausnin var að fara til alvöru passaljósmyndara að vali Páls, reyndar gamals skólafélaga míns. Hann tók af mér 150 myndir sem mér fannst flestar ágætar, en þeir fagmennirnir hristu hausinn þangað til loks kom ein þar sem ég er ósköp raunalegur, grár og gugginn. „Þessi maður er svo vesældarlegur að landamæraverðirnir munu styðja hann inn í landið“ sögðu þeir einum rómi.

Í Kópavoginn mætti ég með 8.437 krónupeninga í skjóðu sem ég lagði hróðugur á borð gjaldkerans með myndinni döpru. Hún spurði alúðlega hvort ég væri á leið til Bandaríkjanna, sem stemmdi, eftir hálfan mánuð. „Þá þarftu flýtimeðferð“, sagði hún. „Það kostar 18.211 krónur.“ Þegar hún sá hve leiður ég var (enda vantaði mig nú 9.726 krónur í reiðufé), sagði hún „Þú getur líka látið framlengja það um eitt ár. Það kostar ekkert.“ Auðvitað var best að ég fengi nýtt vegabréf eftir ódýru leiðinni, en fengi hið gamla endurnýjað líka til öryggis. Þetta þótti mér þjóðráð og bað hana endilega gera þetta.

„Nei ég get ekki framlengt vegabréf. Þú verður að fara á deild C til þess.“

Á deild C var mér enn vel tekið. Konan bað mig að fara inn í klefa og tók mynd af mér. Spurði svo hvort ég væri ánægður með hana, sem ég var alls ekki, en stundi því upp hvort ég mætti ekki nota myndin frá ljósmyndaranum. „Nú ertu með mynd frá ljósmyndara,“ sagði hún. „Þær koma ekki beint hingað heldur fara á deild K.“ Fyrst svona stóð á hljóp hún samt á deild K og sannfærðist um að mín mynd væri í réttum hlutföllum og báðir eyrnasneplar sæjust.

Svo skrifaði ég undir og hún tók af mér fingraför. Mundi svo allt í einu eftir því að hún þyrfti að taka af mér nýja mynd þrátt fyrir allt til staðfestingar á því að hin myndin væri raunverulega af mér. Ég fór í myndavélaboxið, setti upp minn mæðulegasta svip og hún samþykkti að ég og ég á myndinni værum sami maðurinn.

„Svo sækir þú bara vegabréfið eftir þrjár vikur,“ sagði hún í því að hún gataði það gamla.

„Varstu að eyðileggja vegabréfið mitt?“ spurði ég.

„Já;“ svaraði hún.

„Sem þú áttir að framlengja?“

„Átti ég að framlengja það?“ hváði hún.

„Ég hélt að deild C sæi bara um að framlengja vegabréf,“ sagði ég heldur vesældarlega.

„Þetta gerir ekkert. Þú færð nýtt eftir þrjár vikur.“

„En hvernig á ég þá að fara til Danmerkur á morgun?“ Ég spilaði út mínu síðasta trompi, því að hún hlaut að vita að til Danmerkur þurfti ég vera með vegabréf til þess að sanna að ég sem Íslendingur þyrfti ekki vegabréf til Danmerkur.

„Þú gætir notað ökuskírteinið.“ Hún ætlaði ekki að gefa sig.

Ég rétti fram gamla þokublettinn í síðasta sinn, því í framhaldinu ætlaði ég að fara á deild F til þess að endurnýja ökuskírteinið.

Konan leit mæðulega á skírteinið. Það þyrmdi yfir hana, hún stóð upp og hvarf á braut. Kom svo til baka með boðungaklæddan yfirmann og benti til skiptis á gataða vegabréfið og ökuskírteini ósýnilega mannsins. Yfirmaðurinn (sem reyndar var kona) lagði höndina á öxlina á mér og sagði. „Farðu beina leið niður í Borgartún og sæktu nýtt vegabréf. Sýndu þeim ekki kvittunina, þú færð expressbréf í okkar boði.“

Stundum er sagt að þegar maður er farinn að líta út eins og passamyndin eigi maður að drífa sig heim. Þegar ég kom til Bandaríkjanna nokkru seinna leit embættismaðurinn við landamærin á passann og sagði: „Þetta er greinilega þú, vonandi ætlar þú ekki að vera lengi.“


Skv. lesenda er þetta ekki nákvæmt: Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti tóku gildi 1. janúar 2007. Þau eru íslensk innleiðing á tilskipun 2005/60/EB, þ.e. er tilskipun frá ESB frá árinu 2005.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.