Nú finnst mér ég sitja kyrr á sama stað og samt að vera að ferðast. Ég er í flugvél. Mér fannst sama máltækið næstum eiga við þegar Íslendingar kepptu við Norðmenn og menn kepptust við það að lýsa því yfir að þennan leik yrðum við að vinna. Svo gerðum jafntefli og urðum að láta aðra vinna fyrir okkur meðan við biðum spennt. Sjónvarpið stytti okkur að vísu stundir með skemmtilegum auglýsingum. Við eigum sem sé eftir tvo leiki enn sem verða mikilvægustu leikir í íslenskri fótboltasögu. Þá dugir ekki að sitja á sama stað og láta aðra vinna.
Í flugvél dettur manni sitthvað í hug. Keppnin um fallegasta orðið stendur sem hæst og margir velta því fyrir sér. Mér sýnist að flest orðin sem nefnd eru séu frekar væmin. Hvers vegna er ljósmóðir fallegri en ljósálfur eða ljóska? Einhver greindi fallegu orðin hljóðfræðilega og mín hugmynd féll ágætlega að þeirri greiningu. Ljúflingur datt mér í hug. Ljúflingur er huldumaður eða álfur, sem fæstir vita. Gaman væri reyndar að átta sig á muninum á álfum og huldufólki. Í mínum huga lítur huldufólk út eins og venjulegt fólk, en álfar eru smávaxnir, sköllóttir, skeggjaðir og rauðir í kinnum, en ekki með oddstæð eyru eða skotthúfur. Þannig er til dæmis 18 barna faðir í álfheimum. En svo eru álfkonur eins og huldukonur, þannig að þetta er erfitt úrlausnarefni.
Fallegasta orðið er vandfundið. Auðvitað er nauðsynlegt að deila um smekk, og um hann verður deilt. Ég finn það sjálfur að mér finnst nöfn falleg ef mér þykir vænt um fólk sem heitir þeim. Svo njóta sumir nafns. Manni þykir vænt um þá vegna þess að þeir heita eitthvað. En það á ekki að velja fallegasta nafnið heldur fallegasta orðið.
Orð hafa ýmsa eiginleika. Sum orð geta til dæmis lýst sjálfum sér. Orðið stutt er stutt. Önnur gera það ekki. Langt er ekki langt orð. Orðið fótboltavöllur er auðvitað ekki fótboltavöllur. Orð er hins vegar orð og nafnorð er nafnorð. Lýsingarorð er ekki lýsingarorð og sögner ekki sögn. Orðið íslenskt er íslenskt. Allt er þetta óumdeilt. Hvað um eftirfarandi dæmi?
- Er orðaleppur orðaleppur?
- Er orðskípi orðskrípi?
- Er orðið ömurlegt ömurlegt (það finnst mér) eða fallegt fallegt?
Álitamálin verða fleiri. Er orðið fullkomið fullkomið? Ef það er fullkomið er þá hægt að stigbreyta það, fullkomnara fullkomnast? Hvernig getur eitthvað verið fullkomnara eða dauðara ef út í það er farið, en orðið dautt er ekki dautt og fellur því ekki undir skoðunina í þessum pistli.
Orðið samsett er samsett en ósamsett er ekki ósamsett. Fornt er fornt orð og gamalt gamalt, en nýtt er ekki nýtt.
Er orðið leiðinlegt leiðinlegt eða ljótt ljótt?
Á erlendum tungum er til fræðigrein um slík orð. Á ensku kallast hún autology. Um hana myndast skemmtilegar þversagnir sem segja má að vísi til spegla sem spegla sjálfa sig. Heterology fjallar um orð sem ekki vísa til sjálfs sín. Þverstæðurnar um það sem ekki vísar til sjálfs sín eru skemmtilegri. Frægust er rakaraþversögnin sem segir frá rakara sem rakaði alla í þorpinu sem ekki rökuðu sig sjálfir. Hver rakaði rakarann? Það er sama hvert svarið er, maður lendir alltaf í vandræðum. Um þetta er fjallað í bókinni AHA! Ekki er allt sem sýnisteftir Martin Gardner sem til er á íslensku og hefur glatt marga gegnum tíðina.
Allt eru þetta útúrdúrar úr útúrdúrum.
Líklega er orðið útúrdúr ekki útúrdúr.
En með því að fjalla um orð sem vísa til sjálfra sín náum við markmiðinu sem sett var í upphafi. Við ferðumst, en sitjum þó alltaf kyrr á sama stað.