Tónlistarveisla í farangrinum (BJ)

Í Vínarborg eru þeir Beethoven og Mozart á hverju horni. Maður er ekki búinn að ganga lengi um götur borgarinnar þegar maður sér nafn að minnsta kosti annars þeirra á skildi. Hér bjuggu þeir þetta árið, annars staðar sátu þeir og lásu bækur eða drukku kaffi. Maður tókst allur á loft af innblæstri. Þessar tröppur gekk Ludvig á sínum tíma. Og nú er ég hérna líka. Kannski var honum hent niður stigann þegar hann sveikst um að borga leiguna eða reifst við konuna sína. Karlinn var víst aldrei skemmtilegur í sambúð, en sagt er að þegar hann hafi verið orðinn heyrnarlaus hafi hann verið orðinn svo hávær að um þverbak hafi keyrt.

Mozart bjó um tíma á hótelinu sem við vorum á, Tigra Hótelinu. Að hugsa sér að hann skuli hafa setið þar sem ég sötraði hvítvín. Wolfgang var reyndar ekki nema 16 ára þegar hann bjó þarna, en hefur samt klárað líkjörinn sem við hann er kenndur og allt gin sem er drekkandi og skilið eftir Gordon rudda.
Einhver kynni að spyrja hvort það skipti í raun og veru miklu máli upp á innblástur að vera á sömu slóðum og gömlu meistararnir. Ég get vottað að svo er. Maður var ekki fyrr búinn að leggja höfuðið á koddann að tónarnir hreinlega streymdu til manns. Fyrstu tvö kvöldin hafði ég gerssamlega áreynslulaust samið Eine Kleine Nachtmusik og Aríu Næturdrottningarinnar. Í sturtunni einn morguninn setti ég svo saman Hann Tumi fer á fætur.
Leyndarmálið bakvið góða dvöl í Vín er að þekkja rétta fólkið. Allir geta þrammað um göngugöturnar og fundið þar sömu búðir og í öllum öðrum stórborgum. Ef heimamaður er með í för kemst maður í gegnum húsasund og sér sérkennilega glugga, blóm eða vínvið, styttur eða upplifir þögn sem ekki er boðið upp á aðalstrætunum. Þar verður maður ekki heldur fyrir hestakerrunum og tilheyrandi mengun sem lesa má um í pistli mínum frá Vínardvöl fyrir tæplega áratug.
Ekki þarf að taka það fram að ég hef þau samband sem þarf til þess að breyta dvölinni úr tilbreytingarlausri verslunarferð í stórborginni í viðburðaríka menningarferð. Án þess að fara út í það í smáatriðum get ég sagt frá því að ég ók og gekk alls 30 kílómetra og fór þó varla út fyrir um rúmlega kílómetra radía frá Stefánskirkjunni.
Vín er svolítið svipuð Róm þar sem sagan fylgir manni við hvert fótmál. Við okkur blasti glæsileg bygging með skrauti yfir gluggum og á hornum. Styttur stóðu í röðum á þakbrúninni. Leiðsögumaðurinn staldraði aðeins við og sagði svo: „Ég held að þetta sé ekkert sérstakt.“ Ef þetta hús væri í Reykjavík myndu túristar flykkjast að því og okkur innfæddum hlýnaði um hjartarætur í hvert skipti sem við færum framhjá. Hér yppa menn öxlum og taka ekki eftir henni.
Óperan býður aldrei upp á sömu sýninguna tvö kvöld í röð. Kvöldið sem ég átti leið þarna um var Don Carlo eftir Verdi á fjölunum. Ekkert heyrði ég af því að sá heiðursmaður hefði vappað um stræti Vínar, en feginn er ég að óperan lét það ekki stoppa sig. Þessi sýning er snilldarvel gerð. Ég man illa nöfn söngvara en Vargas heitir sá sem fór með titilhlutverkið og allir sögðu mér að ég mætti ekki missa af. Það voru ýkjur. Hin voru ágæt.
Söguþráðurinn gengur út á að Don Carlo verður ástfanginn af móður sinni og pabbi hans er ekki sáttur við það. Vandræðin byrja þó fyrst þegar Carlo ruglast á mömmunni og einhverri hirðkonu sem ásældist hann. Var hún þó 50 kílóum þyngri en móðirin. En maður getur náttúrlega ruglast í myrkrinu.
Ég fer ekki út í smáatriði en aðeins teygði á ímyndunaraflinu þegar þessi ágæta frauka söng um þá bölvun sem fylgir því að hafa fæðst svona fögur. Ég veit auðvitað ekki hvernig hún var þegar hún fæddist, en hún hafði gert sér mat úr fegurðinni, því að mér sýndist að hún væri komin vel á annað hundrað kílóa.
Sýningin er snilldarvel gerð og óperuhúsið ekki til þess að spilla gleðinni. Punkturinn yfir i-ið var að við pöntuðum okkur hvítvín og snittur sem biðu eftir okkur á borði í hléinu. Verdi og snittur með Vigdísi. Rómantískara verður það varla. Ég man varla eftir því að hafa verið svona snortinn á óperu. Vigdís segir að við höfum séð Don Carlo þegar við vorum í París. Sú sýning fellur algerlega í skuggann af þessari, þó ekki væri nema vegna þess að ég man ekkert eftir henni.
Daginn eftir Don Carlo sáum við 9. sinfóníuna í sérstakri hátíðarútgáfu þar sem búið var að semja við hana nýjan forleik. Sá á ekki eftir að festast í sessi, en samt klöppuðu þrettán manns eftir honum. Eftir fyrsta hluta sinfóníunnar klöppuðu sjö, meðal annarra maður á okkar bekk. Á tónleikum í Vínarborg eru heimamenn í sínu fínasta pússi. Ég klikkaði á bindinu og verð að játa að fyrir vikið naut ég tónleikanna ekki sem skyldi. Stjórnandinn var hinn makkafagri Dadamel sem var heima á Íslandi í vor. Hann stjórnar af innlifun, svo mikilli að hann rumdi með í einum kafla og frussaði af krafti þegar þess var þörf.
Tónleikahöllin við Leopoldstrasse er glæsileg og var troðfull klukkan ellefu á sunnudagsmorgni. Þarna var fólk á öllum aldri. Þegar við komum inn var gamall maður að reisa konu sína úr hjólastólnum og reyndi samtímis að snúa henni þannig hún gæti sest. Allt stefndi í óefni þegar ég greip hönd hennar og hún náði jafnvægi á ný. Lausnin fólst í því að hún settist í sætið við hliðina á því sem eiginmaðurinn reyndi að hola henni í. Þau brostu á eftir okkur.
Framan við okkur voru þrjá stelpur en foreldrar þeirra sátu annars staðar. Þær hegðuðu sér vel og klöppuðu ekki á röngum stöðum. Snyrtilegur maður á sextugsaldri reyndi að koma sér í betra sæti þegar klukkan var orðin ellefu, en var varla sestur þegar sá sem hafði borgað fullt verð greip í öxlina á honum. Hinn reyndi að láta líta út eins og þetta væri ekkert mál og svindlaði sér í annað sæti.
Þeir sem muna eftir þeirri níundu vita að þar er stór kór og fjórir einsöngvarar. Kórinn skil ég vel og hann gegnir mikilvægu hlutverki. Þá stöku skil ég lakar. Þegar þau komu inn stóðu þau á svölum ofan við hljómsveit og kór. Konurnar tvær voru vinstra megin og sátu í byrjun með væminn aumingjasvip sem stundum sést á leikkonum sem vita ekki hvernig þær eiga að láta. Tenórinn var eins og klisjuútgáfa af aría, með gult hár sem sveiflaðist um eyrun og hárendarnir vísuðu fram þar sem þeir dingluðu rétt áður en þeir snertu axlirnar. Hann horfði svipbrigðalaus út í salinn.
Bassinn var dökkur eins og hæfði röddinni, hallaði öðru hvoru undir flatt, geiflaði sig og setti svo hökuna upp í loftið. Ranghvolfdi annað veifið í sér augunum. (Það á ekki við að skjóta því inn hér en á göngugötunni sá ég blindan betlara sem söng ágætlega, en af slíkri innlifun að þegar átökin voru mest runnu augasteinarnir upp undir augnlokin og það skein í hvíturnar. Þetta er ekki fögur sjón og og hætt við að áhorfendur hafi forðað sér, sem ekki var meiningin).
Eftir að bassinn hafði lokið sér af í fyrsta sinn lyfti hann hökunni enn hærra en áður, sýnilega ánægðari með sína frammistöðu en ég. Smám saman fór aumingjasvipurinn af konunum og þegar þær höfðu lokið sinni fyrstu innkomu sá maður glöggt að sú sem var lengst til vinstri taldi að nú væri hljómsveitin bara að drepa tímann þangað til söngkonan hæfi upp raust sína á ný. Þær stöllur hvísluðust á.
Þessi kona var ekki há í loftinu, en hefði hún lagt á hliðina hefði hún hækkað.
Sá bjarthærði virtist ekki skilja vel hvað um var að vera. Líklega hefur hann lært í söngskólanum að hegða sér alltaf í samræmi við máltækið: „Dumm wie ein tenor.“
Í lokin hrópaði sá sem klappaði milli þátta tuttugu sinnum Bravó! Þetta var upplifun og ein samferðakona mín taldi að tónleikarnir sönnuðu að hægt væri að stigbreyta orðið fullkominn. Ekki er ég viss um það, hlekkirnir mynda keðjuna. En gaman var þetta. Ekkert jafnast á við tónleika í Vínarborg. (Vara þó við alls kyns valsa veislum sem fákænir ferðamenn falla fyrir eins og klækjum töframannsins á götunni).
Hvað fleira?
Í garðinum hjá styttunni af Jóhanni Strauss lá einn róni eftir á bekk. Á næsta bekk við hann var par sem kysstist í að minnsta kosti hálfa mínútu. Ekki veit ég hvað þau voru búin að kyssast lengi þegar ég byrjaði að fylgjast með þeim. Ég laumaði kossi á Vigdísi á tröppunum í óperunni, en hann varði bara örskotsstund áður en einhver truflaði okkur.
Þrír menn með barðastóra hatta gengu yfir torgið hjá Jesúítakirkjunni. Hún er stærri að innan en utan. Einn keisarinn var þekktur fyrir garðyrkju öðru fremur. Mikið væri það gott ef fleiri leiðtogar hefðu meiri áhuga á blómum en byssum.
Þessi sami lét safna saman fyrir sig alls kyns plöntum og dýrum í fjarlægum löndum Þegar leiðangurinn kom heim voru blómin sett niður og dýrin ráfuðu um garðana ásamt nokkrum svertingjum. Að því kom auðvitað að dýrin dóu og þá voru þau stoppuð upp. Þegar svertingjarnir dóu hlutu þeir sömu örlög.
Sendiherrann spurði mig hvort heimsóknin til hans kæmi í smásögu. Hann býr í snoturri íbúð sem hann hefði alls ekki þurft að afsaka svona mikið. Hann spurði hvenær ég ætlaði að gefa út smásagnasafn. Ég er greinilega enginn markaðsmaður.
Á póstkorti sá ég skilaboðin: „Það er sama hver spurningin er. Svarið er alltaf: Súkkulaði.“ Ég ætla að selja Nóa þetta slagorð. Í því að ég skrifa þetta horfir einn félagi minn ásakandi á mig þegar ég narta í Bounty. Vinkona hans bannar honum að borða ís og segir að hann valdi kviðsliti. Þó að ég sé þegar bæði slitinn og samansaumaður lauma ég seinna Bountyinu til Vigdísar. Hún bannar mér aldrei neitt svona og enn síður ef hún er samsek.
Karlskirkjan hefur verið í viðgerð í áratug og þar eru stillansar upp í efstu hvelfingu. Þangað er hægt að taka lyftu. Þegar við komum inn ýtti Vigdís á efri takkann, en í því að lyftan lokaðist spurði ég: „Ertu viss um að þú hafir ýtt á rétta hæð?“ Við vorum komin vel á veg þegar hún kinkaði kolli. Svo lamdi hún mig í hausinn með kortinu. Vinnupallarnir dúa allir, ekki síst stigarnir sem liggja upp. Í þeim brakar stöðugt og skríkir. Maður þarf svo ekki nema rétt að teygja út höndina og þá snertir maður loftið, fimmtíu metra ofan við kirkjugólfið. Marmarinn þar er máluð sjónhverfing. Einhverjir höfðu fundið þörf hjá sér til þess að skrá komu sína, meðal annars var hjarta utan um D + Z + G og í línunni neðan við KPA. Áhugavert ástarsamband. (Ég las reyndar D + 2 + 6, en þar er stærðfræðingurinn örugglega á ferð, en útkoman úr því er ekki KPA og kannski ekki margir sem finna þörf hjá sér að skrá reikningsdæmi á kirkjukúpulinn).
Niðri er sýning á myndum af kirkjugestum sem ekki vissu að einhver stæði á pöllunum að mynda þá. Flestir voru að fitla við sálmabækur eða bora í nefið og bara einn sem hafði lagt höndina á læri vinkonu sinnar.
Austurrískir þjónar eru prófessíonal dónar og þjónarnir í Ágústínusarkaffinu eru stéttarsómi að því leyti. Vínarsnitselinn er þurr og hefði haft gott af smá feiti eins og mamma var með í gamla daga. Ég ætla að senda þeim uppskriftina hennar.
Ekki er nóg með að ég komi andríkari frá Vín en ég kom þangað. Í farteskinu er viðskiptahugmynd. Ég ætla að kaupa hús í miðbæ borgarinnar og setja skilti utan á það: „Hér bjó hvorki Hayden, Mozart, Brahms né Beethoven.“ Ég er viss um að þangað flykkjast túristar, enda verður þetta eina húsið í Vín sem hægt verður að segja þetta um. Kannski þarf ég að byggja nýtt hús.
Áður en ég gleymi því. Mozart var giftur Constönsu, eins og margir vita. Þegar hann féll frá í blóma lífsins árið 1791 var hún 29 ára. Hún giftist síðar Georg Nikolaj Nissen, dönskum rithöfundi og diplómat. Móðir Georgs þessa var Anna Zoega, en náfrændi þeirra, Jóhannes Zoega, fluttist árið 1787 til Íslands sem tugtmeistari í hegningarhúsinu við Arnarhól sem nú hýsir stjórnarráðið. Af honum er kominn mikill ættbogi hér á landi og meðal annars höfundur þessa pistils, sem er því eiginlega náfrændi Mozarts og kemur víst fáum á óvart.
Heim flugum við í gegnum Bratislava í Slóvakíu og þaðan man ég ekki annað en orð eins samferðamannsins þegar hann sá KFC málað á risastóran húsvegg. „Að hugsa sér að jafnvel hér skuli maður ekki vera laus við Kennedy Fried Chicken.“
Habsborgararnir voru síðustu keisarar í Rómaveldi og jafnframt konungar í Ungverjalandi, en eftir fyrri heimstyrjöldina leið veldi þeirra undir lok þegar heimsveldi Austurríki-Ungverjalands var bútað upp í frumeindir. Síðasti ríkisarfinn var Ottó von Habsburg sem var þingmaður á Evrópuþinginu og lést fyrir nokkrum árum. Hann fékk konunglega greftrun síðastur manna, en í því fest meðal annars að hjartað er numið brott og sett í krukku og lifrin held ég líka og sett í aðra krukku. Þær eru svo geymdar, hvor á sínum stað og búkurinn á þeim þriðja. (Ég mæli ekki með austurrískri lifrarkæfu, en það er útúrdúr).
Sagt er að aðstoðarmenn Ottós hafi einhvern tíma spurt hann í kaffitímanum hvort hann ætlaði ekki að horfa á leikinn um kvöldið. Hann spyr hvaða leikur það sé og þeir svara: Nú, fótboltaleikurinn. Þegar Ottó spyr: hverjir keppi, svara hinir að bragði: „Austurríki-Ungverjaland.“
Ottó kinkar kolli og segir svo: „Það gæti verið áhugavert. Við hverja keppa þeir?“
PS, Í Vínarborg samdi ég líka þennan pistil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.