Það er sérstakt að fara burt í viku og fá svo skammt af fréttum. Davíð ætlar ekki að hætta, Siv þarf að hætta en vill ekki, Jón Steinar bíður eftir að verða stimplaður inn í Hæstarétt, Clinton hjónin ætla að kvelja okkur með nærveru sinni, meira að segja frú Blair (sem Bretar kalla Bliar) ætlar að koma hingað (til hvers?). Eftir eina stutta viku í burtu finnst manni þetta allt orðið fremur bragðdauft. Jæja, Hannes vann siðanefndina.
Á meðan á þessu stóð var ég úti í Austurríki, Vínarborg nánar tiltekið. Eins og allir ferðalangar hafði fjölskyldan fengið ýmis góð ráð. Í Vín fær maður sér vínarpylsur (sem ég gerði en þeir kölluðu okkar vínarpylsur Frankfúrtara) vínarsnitsel, en það var ekki lítið og pent heldur á stærð við flatböku, vínarbrauðin sáust hvergi, vínarvalsarnir hljómuðu víða og Vínarkórdrengirnir sungu eins og englar.
Eitt af því sem mikil áhersla var lögð á var að fara í ferð í hestakerru. Ég var fremur efins en lét þó undan þegar mér var sagt að Raggi Bjarna hefði sérstaklega mælt með slíkri ferð í Vínarborg, þó að hann væri ekki fyrir þær yfirleitt. Þessar hestakerrur eru alls staðar nálægar í miðborg Vínar og ef maður ekki sér eða heyrir hestana finnur maður að minnsta kosti af þeim og afurðum þeirra fnykinn. Í stuttu máli. Þessar ferðir eru jafnspennandi og í öllum öðrum borgum. Ofnæmisgjarnir ættu að halda sig frá þeim. Loks kom svo upp úr kafinu að Raggi Bjarna var alls ekki hinn eini sanni heldur læknir með sama nafni. Hefði ég vitað það hefði ég ekki látið ginnast.
Sigling um Dóná hljómar rómantískt, en við völdum samt bara stysta túr, hálfhring. Hitinn var 25°. Leiðsögumaðurinn byrjaði á því að segja okkur frá því að hann myndi ekki vera símasandi, það væri svo leiðinlegt. Eftir kortér sagði hann okkur að nú færum við framhjá gasverksmiðjunni. Svo var okkur sagt að nú færum við í gegnum græna svæðið og þar væri ekkert að sjá nema tré. Hitinn var nú orðinn 27°. Feit kona gekk um skipið og bauð bjór til sölu. Nú sneri báturinn við og sigldi inn í hugvitsamlegt vatnslokukerfi, þannig að við komumst af einu vatnasvæði á annað. Inni í þessari loku vorum við í 37 mínútur föst meðan vatnið seytlaði. Hitinn var 34° og maður var eins og lokaður inni í stóru baðkari úr stáli. Fararstjórinn sagði okkur hve gamalt skipið væri og fræddi okkur um lengd þess og breidd. Loks fylltist baðkarið og við komust á rétt ról. Þá sagði fararstjórinn okkur að á hægri bakkanum (það er til vinstri við okkur) væri eina Búddahof í Austurríki. En nú var okkar hálfhring lokið og þó feita konan hefði gefið okkur bjórtunnuna hefðum við ekki verið lengur.
En fyrir utan þessar aukaferðir var Vín feiknaskemmtileg borg. Á veturna er tónlistarlífið eflaust líflegra, en söfn, kaffihús og tónlistarhallir eru úti um allt. Við fórum líka í ferð út fyrir Vín til nokkurra smáborga við Dóná og þar er hún miklu fallegri og skemmtilegri. Það hefði verið gaman að synda í ánni en það gerðu menn við borgina Krems. Hún er hins vegar straumhörð og betra að vera í toppformi fyrir slíka spretti.
En nú er maður kominn aftur í íslensk dægurmál. En satt að segja eru þau ekkert meira spennandi núna en áðan þó að ég sé búinn að vera klukkutíma lengur á landinu.