Hásumar (BJ)

Líklega hefur aldrei verið betra veður um sumar hér í höfuðborginni, þó að reyndar hafi undanfarin ár verið afbragðsgóð. En það hefur verið svo margt neikvætt í þjóðlífinu, að það kæmi ekki á óvart að í minningu fólks yrði talað um sumarhretin árið 2004 þegar frá líður.

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að tala um fjölmiðlamálið, en veikindi forsætisráðherra hafa þó orðið til þess að enn hefur reynt á Baugsmiðlana og þeir fallið á prófinu. Hvað skyldi Fréttablaðið hafa sett á forsíðu eftir að forsætisráðherrann er lagður inn bráðainnlögn og numið úr honum gallblaðra og nýra? Jú, meintur morðingi á að sæta geðrannsókn (aðalfrétt, enda kemur það mjög á óvart), flugvél nauðlenti og flugmaðurinn gekk ómeiddur frá, ágreiningur Íslands og Evrópusambandsins yrði leystur að sögn einhvers Breta (ráðherra) og fálkaorðan seld á ebay. Veikindin finnast ekki einu sinni í smáa letrinu á forsíðunni. DV bætir þó um betur og segir að ráðherrann geti sjálfum sér um kennt vegna mataræðis. Er óvild ritstjóra þessara blaða svo taumlaus að þeir geta ekki einu sinni sagt hlutlaust frá alvarlegum veikindum á hlutlausan hátt sem þeirri stórfrétt sem þau eru? Vel að merkja, þetta sannar ekkert um fjölmiðlalögin, aðeins það að enginn þeirra tuga blaðamanna sem hjá blöðunum vinnur hefur getað lagt hlutlaust fréttamat á málið.

Umferðarslys eru dapurleg og víst væri gott að fækka þeim. Ein leiðin er fræðsla og áróður, önnur eftirlit og viðurlög. Nú hefur Vátryggingafélagið, VÍS, staðið fyrir afar ógeðfelldri og ósmekklegri herferð þar sem reynt er að ganga fram af hlustendum. Það tekst rækilega, svo mjög að ég slekk á útvarpi eða sjónvarpi þegar „sjokkauglýsingarnar“ byrja. Það að auglýsingarnar veki viðbjóð sannar hins vegar ekkert um að þær hafi tilætluð áhrif. Þegar ég var tólf ára var okkur sýnd kvikmynd um lungnauppskurð á reykingamanni. Þegar leið yfir mig og nokkra bekkjarbræður mína var búið að opna brjóstholið og maður sá sótsvört lungun. Tveimur árum síðar var að minnsta kosti helmingurinn af þessum viðkvæmu sálum byrjaður að reykja. Meining áróðursmeistaranna var góð, en ég held að áhrifin hafi verið þau ein að enginn úr hópnum lagði fyrir sig læknavísindi. VÍS ætti að eyða peningunum í eitthvað uppbyggilegra.

Nú er þessi pistill að verða álíka leiðinlegur og meðal Víkverji og nauðsynlegt að komast á aðeins hærra plan í lokin.

Nákominn ættingi minn setti sér það markmið að lesa allar skáldsögur Halldórs Laxness í sumar. Hann byrjaði á Glæp og refsingu og kemst ekki lengra. Mér fannst þetta hins vegar góð hugmynd og er búinn að lesa Gerplu, Sjálfstætt fólk og Atómstöðina. Ég er svo að safna kjarki í Heimsljós, þar sem ég hef að vísu lesið fyrsta bindi af fjórum og Sölku Völku, sem ég er hræddur um að sé afskaplega leiðinleg bók, miðað við hvaða fólki finnst hún góð.

Það er ólíku saman að jafna með þessar þrjár bækur. Sjálfstætt fólk er mjög merkileg skáldsaga. Þegar maður er búinn að lesa hana skilur maður vel hvers vegna Framsóknarmenn höfðu jafnan horn í síðu Halldórs. Hann gerir mjög miskunnarlaust grín að samvinnuhugsjóninni og hvernig hún hneppti menn í fjötra. Kannski er grín ekki rétta orðið því að sagan er hrakfallabálkur frá upphafi til enda. Halldór mun hafa ætlað að skrifa á móti rómantískum bókum Knúts Hamsuns, sérstaklega Gróðri jarðar sem ég las til þess að búa mig undir Sjálfstætt fólk. Og það tekst. Söguhetja Hamsuns er sigurvegari en ekkert lát er á harmsögu Bjarts í Sumarhúsum.

Gerpla er sérstæð bók, meistaraverk á sinn hátt, sem hefði batnað er höfundur hefði stytt hana um a.m.k. 100 blaðsíður. Mig minnti að hún væri líkari Fóstbræðrasögu í „staðreyndum“ en hún er. Hetjurnar verða náttúrlega andhetjur eins og Halldór setur söguna fram. Hann hefur örugglega verið undir sterkum áhrifum frá Birtingi sem hann hafði þýtt skömmu áður.

Atómstöðin er hins vegar ekkert sérstaklega merkileg bók. Hún á að klekkja á yfirstéttinni sem selur landið og jafnframt vera óður til Erlendar í Unuhúsi í hlutverki organistans. Halldór hefur greinilega hnoðað saman bók til þess að þjóna málstaðnum, gegn amerískum herstöðvum. Það hefur komið fram að hann fékk styrki frá Sovétríkjunum en ekki veit ég hvort sérstaklega var greitt fyrir Atómstöðina. Hún er eiginlega áróðursrit sem vefst utanum tvo brandara; Ugla segist ætla að verða organisti en ekki kommúnisti og bein þjóðskáldsins sem komu heim sem danskur leir. Það mætti segja mér, að Halldór hefði skrifað þessa bók á tveimur mánuðum. Hann er hins vegar svo góður rithöfundur að bókin er eins og vel stílaður reyfari, en sannarlega ekkert úrvalsrit.

Og svona í lokin. Þeir sem vilja vita hvað varð um bein Jónasar eiga að lesa Ferðalok Jóns Karls Helgasonar sem komu út í fyrra, en  þar er sagan öll sögð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.