Verðandi Nóbelsskáld í klóm KGB (BJ)

Í síðastliðinni viku varð ég fyrir eftirminnilegri lífsreynslu. Á ferðalagi í Vilníusi í Litháen fór ég í gamalt fangelsi KGB sem breytt hefur verið í safn til þess að minnast voðaverka þeirra sem þar voru unnin. Í kjallara á gömlu húsi skammt frá þinghúsinu eru einangrunarklefar, hópklefar, pyntingarklefar, spennitreyja og aftökuherbergi. Þegar maður fór inn bakvið járnhurðina í einum klefanum var eins og maður heyrði enn fótatak fangavarðanna á ganginum. Og það var ekki laust við að maður heyrði jafnframt bergmálið af boðskap jábræðra þeirra hér á landi frá fyrri árum.

Það er erfitt að gera sér ógnir slíks fangelsis í hugarlund, jafnvel þó að maður fái að sjá aðbúnaðinn. Einangrunarklefarnir sem menn voru settir inn í strax og þeir komu í fangelsið höfðu líka verið gerðir þægilegri eftir dauða Stalíns. Þá var bætt í þá mjórri tréfjöl sem fangarnir gátu setið á. Á teikningum voru sýndir eins manns klefar en í raun voru þar hafðir inni 10, 20 eða jafnvel 30 fangar samtímis. Í einu herberginu var beint að föngunum vatnsbunu sem þeir gátu aðeins sloppið við með því að standa á litlum stalli í miðju herberginu. Og þarna voru þeir látnir hírast klukkutímum saman. Í enn dýpri kjallara var svo aftökuherbergi þar sem menn voru skotnir til bana. Líkin voru svo falin í nafnlausum gryfjum, sem sumar hafa ekki fundist enn þann dag í dag.

Svo sérkennilega vill til að ég tók með mér í fríið Gerplu Halldórs Laxness og náði að ljúka henni á nokkrum dögum. Gerpla er háðsádeila á hetjudýrkun og á meðal annars að sýna þá bölvun sem af konungum og þeirra valdabrölti leiðir. Þeir fóstbræður Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld fá heldur háðulega útreið fyrir löngun sína til þess að vinna mikil afrek og yrkja konungum lofkvæði. En beisk ádeila Halldórs hittir hann sjálfan undarlega fyrir, hvort sem það hefur verið meiningin eða ekki.

Í Gerplu segir frá fundi Þormóðs og Sighvats skálds Þórðarsonar. Þormóður flytur lofkvæði um Ólaf konung digra Haraldsson, sem þá var ekki lengur við völd í Noregi. Sighvatur hafði verið hirðskáld konungs en segir: „Það lof sem borið er konúngi öðrum en þeim sem nú ræður landi er hverri þögn verra þótt vel sé ort. Kvæði um fallinn konúng er ekki kvæða. Kvæði um sigursælan konúng, þann er í dag ræður landi, það eitt er kvæði.“ Sighvatur er á leið að færa nýjum röðli lof og prís. Skyldi Halldór hafa séð í Sighvati mann sem kom til Moskvu í réttarhöldunum miklu og óskaði sérstaklega eftir leyfi til þess að fá að vera viðstaddur. Og skrifaði svo ári síðar bók sem nefndist Gerska ævintýrið. Nafnið minnir meira að segja svo á Gerplu að höfundur sjálfur ruglaðist á þeim síðar í frásögn.

Réttarhöldin í Moskvu voru lokin á hreinsunum Stalíns, en í þeim voru allir helstu félagar hans bornir þeim sökum að hafa ætlað að svíkja byltinguna. Flestir játuðu sakir eftir að hafa fengið meðferð svipaða því sem KGB-safnið í Vilníusi vitnar um. Og málagjöldin voru makleg að mati Halldórs í Gerska ævintýrinu: „Þeir sem vilja sósíalismann í Ráðstjórnarríkjunum feigan verða að taka afleiðingunum af liðveislu sinni við auðvaldið, og eingusíður þótt þær boði feigð. Og þetta virtist mér flestum samsærismönnum í Búkharínsmálunum vera fyllilega ljóst, ekki síst Búkarín sjálfum, og ég tel honum það til heiðurs, og þeim öllum.“

Það er merkilegast við skrif Halldórs og starf hans sem hirðskálds Stalíns var að hann vissi sjálfur hvernig ástandið var í raun og veru. Hann var viðstaddur handtöku Veru Hertz, barnsmóður Benjamíns Eiríkssonar, en þagði yfir henni áratugum saman. Í stað þess að segja satt og rétt frá reit hann Gerska ævintýrið sem byrjar svona: „Í fyrsta sinn á ævinni hef ég á valdi mínu að semja bók sem yrði útlögð á allar þjóðtúngur Vesturlanda, stórar og smáar, gefin út í tröllauknum upplögum í sérhverju landi, prentuð neðanmáls í stærstu dagblöðunum, birt í útdráttum í hundruðum og þúsundum blaða og tímarita, ásamt laungum mundprýddum ritdómum á helstu bókmentasíðunum, þar sem ég yrði ausinn lofi fyrir sannleiksást og ritsnild og bent á mig sem sérstaklega hæfan mann til að taka á móti Nóbelsverðlaununum. Ég mundi verða kafinn að taka á móti tékkávísunum á erlendan gjaldeyri frá Þýskalandi, Ítalíu, Einglandi, Frakklandi, Amriku og Norðurlöndunum, og mundi sennilega kaupa mér skemtibústað á Miðjarðarhafsströndinni ásamt síðustu gerð af rollsroja, og eftilvill aka nokkra hríngi kríngum jörðina mér til skemtunar. Já það mundi verða eitthvert annað líf heldur en nú, þegar maður verður að toga með klípitaung sinn hundraðkallinn útúr hverjum forleggjaranum útá hin vesölu upplög bóka sinna til þess að geta borgað fyirir sig á hóteli. Sem sagt, ég hef á valdi mínu að stýra pennanum iní dýrðarljóma Alt sem ég þarf að gera er að setja saman nógu átakanlega lýsingu af húngri, klæðleysi, húsnæðisleysi, sóðaskap og skorti réttaröryggis í Rússlandi, að ógleymdum svikum Stalíns við kommúnismann og æðisgeinginni meðferð hans á hinum dygga lífverði Leníns, gömlu bolsévíkunum – og ég mun verða einn af hetjum rétt hugsandi manna um gervallan heim.“  (Tilvitnun úr 2. útgáfu Gerska ævintýrisins frá 1983).

Með öðrum orðum, allt þetta hefði Halldór uppskorðið með því einu að segja sannleikann.  Og hvers vegna  vék Halldór þessum freistingum öllum frá sér? Hann hefur kannski trúað því að hirð Stalíns ætti eftir að breiðast út um allar jarðir. Og víst fékk Halldór mest af þeirri dýrð sem hann hafnaði í þetta sinn þótt síðar yrði. Í Skáldatíma segir hann um 25 árum seinna um þessi skrif: „Ekkert er algeingara í almennri sálarfræði en það að einhver neiti að trúa því sem hann horfir á með augunum en sjái það sem sannanlega er ekki til á staðnum. Mannleg skynsemi getur meira að segja komið í veg fyrir að við sjáum þá hluti sem skynslausri skepnu liggja í augum uppi. Ef trúin er annarsvegar þá heldur skynsemin kjafti.“

En árið 1939 vitnaði hið hrifnæma hirðskál í rússneskan sveitamann máli sínu til stuðnings: „Það er ekki að furða þó við höfum þá Lenín og Stalín hávegum, þeir hafa gert okkur að manneskjum.“ Skynsemin hélt kjafti í 25 ár meðan milljónir voru drepnar og settar í fangelsi af „manneskjum“ Stalíns.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.