Skáldið á Dyngjuveginum (BJ)

Okkur er kennt að hér á landi hafi verið nokkur stórskáld. Meðal þeirra eru Einar Benediktsson og Gunnar Gunnarsson. Pistlahöfundur verður að gera þá játningu að hafa aldrei náð að hrífast af Gunnari sem skáldi. Í ljósi þess ég fann um daginn grein þar sem Einar Benediktsson lýsti sömu skoðun árið 1922 kem ég nú loks út úr skápnum.

Þegar höfundur var ungur drengur sá hann oft menn sem þá voru þekktir. Enginn var þó þekktari en Gunnar skáld Gunnarsson, sem bjó á Dyngjuvegi eftir að hafa brugðið búi á Skriðuklaustri árið 1948 eða þar laust á eftir. Gunnar var þá ekki bara þekkt skáld hér á landi heldur höfðu sögur hans náð miklum vinsældum í Danmörku. Þar hafði skáldið búið og skrifaði bækur sínar reyndar fyrst á dönsku. Reykjavíkurborg vildi gera vel við þennan skáldjöfur sem hafði búið stórbúi á Austurlandi, en það sem næst komst búgarði í Laugarásnum var að láta hann fá tvær lóðir til að reisa hús sitt á og þó kannski nær þremur. Gunnar byggði ekki stórt hús í þetta sinn, það var satt að segja hálfmjóslegið þarna efst í þessari stóru og bröttu lóð. Aldrei sá ég Gunnar ganga um lóðina en hann gekk hins vegar oft um hverfið. Hann var þá jafnan í gráum frakka og með trefil og brúna leðurhúfu sem hann náði að teygja niður fyrir eyrun. Ekki var hægt að segja að Gunnar væri tiginmannlegur þegar hann gekk með hendur fyrir aftan bak, álútur eins og hann væri stöðugt að leita að fimmeyringum á jörðinni. Mig minnir að hann hafi einu sinni yrt á mig og var ekki orðmargur. Þá gekk ég í hús ellefu ára gamall, var að selja blað, eigin útgáfu eins og löngum síðar, og hann greiddi fimm krónur fyrir án málalenginga. Síðan þótti mér vænt um hann. Mikið varð ég feginn að Fransiska kona hans eða þá nafna hennar og sonardóttir Gunnarsdóttir komu ekki til dyra. Þær voru ógnvaldar allra barna í hverfinu, sérstaklega ef einhver fór inn á þessa stóru ónotuðu lóð til þess að renna sér á skíðum eða sleða. Fransiska eldri var dönsk og talaði slaka íslensku. Ekki dró það úr óttanum sem hún olli, en hún var afar passasöm á sína landareign. Skíðabrekkan var umsvifalaust skírð Kellingabrekka í höfuðið á þeim nöfnum, en ekki er mér kunnugt um að það heiti hafi ratað á kort.

En þó að við vissum auðvitað að Gunnar væri frægt skáld þá höfðu ekki margir lesið neitt eftir hann. Í sýnisbók sem við vorum látin lesa í skólanum var kafli úr Fjallkirkjunni sem mér þótti afskaplega leiðinlegur, en átti að vera drepfyndinn. Ítrekaðar tilraun síðar til þess að lesa verk Gunnars hafa allar endað á sama veg nema Svartfugl. Þar tekst honum að byggja upp spennu. Ég man líka að mér fannst gaman að myndinni um Sögu Borgarættarinnar sem gerð var milli 1920 og ’30, en hef aldrei hætt mér út í að lesa þá bók. Mér er sagt að þýðingar Gunnars sjálfs á verkum sínum séu mun slakari en eldri þýðingar, sérstaklega þýðingar Halldórs Laxness. Ég hef hitt fólk sem var hrifið af verkum Gunnars, en hann átti sér, held ég, enga aðdáendur meðal minna jafnaldra, ólíkt Þórbergi og Halldóri Laxness. Það er gaman að skjóta því inn í að á þessum árum voru örfáir heiðurslistamenn, en þeir voru Davíð Stefánsson, Gunnar, Halldór og Þórbergur, Kjarval og Páll Ísólfsson og Tómas Guðmundsson, ef ég man rétt. Nú eru þeir miklu fleiri og maður ætti erfitt með að telja upp tvo og varla þrjá sem eru af þessum gæðaflokki.

Tilefni þess að Gunnar sótti á hugann var grein eftir Einar Benediktsson í Skírni frá árinu 1922 sem ég las um daginn. Einar var ekki hrifinn af Gunnari: „Ég minnist þess líka, að einn norrænn ritdómari hefur sagt G .G. til lofs, að hvergi nokkursstaðar fyndist hjá honum eitt einasta orð til prýði. („Udpyntning“). Ritdómarinn leit víst svo á, að þetta væri vott um dæmalausa sagnalist. Og það er satt, að það er einsdæmi að sjá svo margar bækur, án þess að nokkursstaðar bregði fyrir andagift, skáldskap eða stíl. Öfgarnar og uppspuninn, sem ganga algerlega í bág við allt, sem á sér stað, eða jafnvel getur átt sér stað, á sögusvæðum hans, skýra þó fyrirbrigðið að nokkur leyti. Þessi höfundur mælir gildi skáldskapar síns við firn og ótrúleik ósannindanna. – En menn hljóta jafnframt að spyrja sjálfa sig, hvað geti valdið því, að almenningur meðal Dana hefur gert mikið út skáldsagnasnilld G. G. Þótt þetta komi ekki beint við dómum Íslendinga sjálfra um verðmæti ritstarfa hans, þá er ástæða til þess að gera nokkra skýring um þetta atriði. G. G. hefur frá upphafi haft ágætt lag á því, að ná kunningsskap og meðmælum minni háttar ritdómara og höfunda í Danmörku, sem höfðu mætur á því að sjá landa vora leita til dönskunnar til þess að geta lifað á skrifum sínum. … En G. G. hefur ekki látið sér þetta nægja – hann ætlar sér einnig að öðlast vinfengi og metorð þess menntaða heims, sem virðir norræna snilld, kyngöfgi og mátt í máli og dáðum.“ [Í ljósi þessara orða er það athyglisvert að 18 árum síðar varð Gunnar til þess að ná fundi Adolfs Hitlers Þýskalandskanslara, eini Íslendingurinn sem vitað er til að hafi spjallað við foringjann.]

Einar heldur áfram: „Vegna þess, að G. G. virðist svo gersneyddur þeim hæfileikum, er ráða mestu um gildi skáldskapar, einnig í óbundnu máli, verða megineinkenni hans ekki fundin í því, sem hann á til, heldur ákvarðast þau af því, sem hann skortir að anda, málsmennt og smekkvísi, en einmitt það gerir hann einnig stórvikan og fyrirferðarmikinn á markaðinum. Hann tefst aldrei frá iðju sinni af því að leita eftir myndum, er lýst geti því, sem honum býr í brjósti, heldur lætur hann orðin sjálf teyma sig áfram, svo að stundum er líkast því, sem hann skrifi í nokkurs kyns óráði; koma þá einatt fram fágætar öfgar, villur og smekkleysur í máli hans, svo að lengi mætti leita að líku, þótt stigið væri niður á hin lægstu þrep meðal auvirðilegustu ritsmíða samtímans.“

Og undir lokin: „Danski Íslendingurinn G. G. hefur aldrei verið nógu fær til að skynja af sjálfsdáðum – að hann er að jarða Norðurlönd í óhæfum, fádæma þvættingi, skáldskapar- og fegurðarsnauðum, sem skyggir á skáldfrægð Íslands, út að yztu endimörkum þeirrar þekkingar um norræna ritlist, sem til er meðal þjóðanna.“

Eftir að hafa lesið alla þessa dembu þá þori ég loks að koma úr felum með skilningsleysi mitt á andagift Gunnars. En maður getur heldur ekki varist því að hugsa: Hvernig gat Gunnar átt sér viðreisnar von eftir svona dóm?

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.