Alltaf í boltanum (BJ)

Kaup Landsímans á hlut í Skjá einum og sýningarrétti á enska boltanum vekja furðu allra þeirra sem vilja minnka umsvif ríkisins. Jafnframt vekur það athygli hve gróflega er gengið á móti stefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í fjölmiðlafrumvarpinu. Augljóst var að gert yrði grín að kaupunum í framhaldi af ,,lánum“ Símans til tveggja forráðamanna Skjás eins. Engu er líkara en að stjórnendur Símans hafi á örlagastundu verið slegnir blindu.

Það er ekki langt síðan, að eitt af því sem var lagt fyrrverandi stjórnendum Landssímans til lasts, var að þeir hefðu komið upp ,,hlutabréfasjóði“ innan fyrirtækisins. Nú virðast þeir sem á eftir fylgja reka svipaða stefnu. Áður hafði Síminn tekið þátt í hlutabréfakaupum í Búlgaríu. Þau kaup vöktu reyndar furðu lítil viðbrögð hjá þeim þingmönnum sem nú tala um að nær væri að fjárfesta í dreifikerfi innanlands en skemmtisjónvarpi. Hjartað slær náttúrlega enn Búlgaríu megin.

Einn þeirra sem undrast kaupin er forsætisráðherra, sem ekki var hafður með í ráðum. Í frétt á mbl.is segir 4.9.2004: ,,Davíð Oddsson forsætisráðherra segist fyrst hafa frétt af kaupum Símans á rúmlega fjórðungshlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu, sem rekur Skjá einn, í fréttum. Hann sé ekki enn kominn til starfa eftir veikindin og ráðgerir að sitja sinn fyrsta ríkisstjórnarfund á þriðjudag. Hann hafi ekki verið að skipta sér af þjóðlífinu með nokkrum hætti á bataveginum; bannaði ráðherrum að hringja í sig og hann sagðist ekki muna hringja í þá yrði hann pirraður yfir því sem hann sæi í sjónvarpinu.“

Ekki er hægt að skilja orð ráðherrans öðru vísi en svo að menn hafi sætt lagi í veikindum hans til þess að snúast þvert gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur haft þá stefnu að minnka umsvif ríkisins og að markaðsráðandi fyrirtæki hasli sér ekki völl á fjölmiðlamarkaði. Bæði þessi prinsipp eru brotin með kaupunum á hlut í Skjá einum.

Margir undruðust hve mislagðar hendur Sjálfstæðisflokksins voru við að koma í gegn máli sem fullyrða má að hafi haft fylgi meirihluta þingmanna, ef þeir hefðu verið hafðir með í ráðum við undirbúning málsins. Enginn þarf að efast um að Sjálfstæðismenn ráði því sem þeir vilja um málefni Landsímans. Kaupin geta ekki verið gerð að yfirlögðu ráði stjórnmálamanna, því að allir sem fylgst hafa með stefnu flokksins undanfarnar vikur sjá að kaupin myndu gera flokkinn að athlægi. Vonandi verður forsætisráðherra orðinn nógu hress til þess að komast í símann næstkomandi þriðjudag.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.