Leiðinlegasta þjóð í heimi

Alltaf uppgötvar maður eitthvað nýtt. Ég sem hélt að Svíar væru leiðinlegustu menn í heimi. Svo fór ég til Noregs. Og nú eru Svíar í öðru sæti. En Noregur er fallegt land og Ósló falleg borg. Ef það byggju þarna bara einhverjir aðrir …

Auðvitað get ég ekki sagt að ég hafi gert mér allt of miklar vonir. Á flugvellinum á leiðinni út sagði ég fólki að ég væri að fara til Noregs á tryggingastærðfræðingaþing. Augnaráðið sem ég fékk hefði ekki lýst meiri vorkunn þó að ég hefði sagt frá því að ég væri að fara í lungnaskiptaaðgerð. Mér fannst samt hlýlegt þegar við vorum að renna upp að hótelinu ókum við um Rósinkransgötu. Mér varð strax hugsað til Guðlaugs heitins þjóðleikhússtjóra og fannst ég vera á heimaslóð. Ekki varð kætin minni þegar ég sá að glugginn á herberginu mínu sneri einmitt út að þessari götu. Beint á móti herberginu mínu var bar þar sem í glugganum voru plaköt, annars vegar af Ópinu og hins vegar Madonnu. Í glugganum stóð: ,,Seldar á barnum.“ Ég hugsaði með mér: ,,Þeir eru ekki jafnhúmorslausir eins og af er látið.“

Þetta átti eftir að breytast.

Ráðstefnan var í tilefni af 100 ára afmæli Norska tryggingafræðingafélagsins. Jú, það hljómar vissulega spennandi. Daginn sem við komum var byrjað á hátíðarerindi. Ragnar Nordberg, þeirra besti maður, átti að tala. Hann var kynntur til sögunnar klukkan fimm, 17.00. Allir mættir á slaginu og búnir að fá glas af kampavíni, þannig að mér fannst ljóst að þarna yrði veislustemming. Klukkan 17.15 spurði Ragnar hvað hann hefði langan tíma. Hann hefur líklega verið eini ráðstefnugesturinn sem ekki fékk prógrammið fyrirfram. ,,Aha, klukkutíma, einmitt.“ Svo fór hann að rekja fyrir okkur sögu líkindareikningsins frá 1904 til samtímans. Eftir því sem klukkan færðist nær sex jókst tilhlökkun mín, því hann hafði spurt um tímann. En, því var ekki að heilsa. Þá datt mér í hug að hann hefði meint að hann hefði klukkutíma frá þeim tíma sem hann spurði. Ég taldi mínúturnar: 18.07, 18.10, 18.12, 18.13, 18.14. Sekúndurnar: 18.14.30, 18.14.45, 18.14.55, … 57, 58, 59 og …

Nei, Ragnari var alveg sama um mig. Hann ætlaði ekkert að hætta. Mínúturnar skriðu áfram. Loksins sagði hann svolítið sem vakti vonir: ,,Tryggingastærðfræðingur veit að hann er leiðinlegur þegar jafnvel öðrum tryggingastærðfræðingum leiðist að hlusta á hann.“ Hann hefur séð að menn eru farnir að dotta. En, nei, nei, nei, Ragnar var óstöðvandi. Rétt fyrir sjö hætti hann.

Ég var reyndar löngu hættur að hlusta, en ég sá að hann var hættur að hreyfa varirnar og færði sig til hliðar. Annar maður kom upp og þakkaði Ragnari fyrir þessa frábæru og innblásnu ræðu sem hefði sett rétt samhengi í hlutina. Bla, bla, bla … Þá gerði hann mistök. Hann tók sér smáhlé, felldi niður eitt bla. Það var óskynsamlegt. Ragnar steig nefnilega fram aftur og sagði að hann hefði greinilega ekki talað nógu skýrt ef menn hefðu skilið ræðu hans svona. Hann yrði greinilega að bæta nokkru við. Viðbótin var kortér (eða fjórðungur stundar eins og þeir segja í útvarpinu).

Loks tókst þeim að draga hann af sviðinu. Svona leiðinlegur er enginn annar maður, hugsaði ég. En þar skjátlaðist mér. Ragnar er nefnilega með skemmtilegustu Norðmönnum.

Það fann ég út næstu tvo tímana meðan þeir komu upp hver af öðrum, með sína glerskálina hver og ræðu frá Fjármálaeftirlitinu, Tryggingasambandinu, skólanum í Ósló, öðrum í Bergen, fyrri formönnum, ýmsum tryggingafélögum. Ég hefði fullyrt að þeir hefðu verið minnst fjörutíu, en mér er sagt að þeir hafi bara verið sjö.

Ó, hvað ég hlakkaði til að komast heim á hótelið. Það var farið að halla að miðnætti þegar ég lagðist á koddann. Ég veit ekki hvað er svefnmeðal ef ekki þessi ræðuhöld.

Þá var ég búinn að gleyma vinum mínum í Rósinkransgötu. Því Rósinkransgata er greinilega aðalpleisið í Ósló. Klukkan eitt lokaði ég glugganum. Klukkan tvö fór ég að virða fyrir mér fólkið við barina. Á aðalbarnum stóð þrekvaxinn maður og stoppaði alla sem ætluðu inn, ræddi við þá og lét þá bíða drykklanga stund fyrir utan. Klukkan tvö athugaði ég hvort það væri kannski smuga á glugganum, ég hefði ekki lokað honum nógu vel. Klukkan þrjú sá ég að þeir voru orðnir tveir fyrir framan barinn að ræða við gesti á inn eða útleið. Klukkan fjögur datt mér í hug að kveikja á sjónvarpinu til þess að yfirgnæfa hávaðann.

Ég vaknaði rétt fyrir níu.

Allan þennan dag var ég á ráðstefnu tryggingastærðfræðinga í Ósló.

Norskra tryggingastærðfræðinga.

Þetta var langur dagur.

Um kvöldið var dýrindis máltíð. Með ræðuhöldum. En nú var boðið upp á meira en eitt kampavínsglas. Hvítvín, rauðvín, desertvín, koníak. Og viti menn. Norðmennirnir skánuðu með hverju glasi.

Hátíðaræðumaðurinn sagði meðal annars eftirfarandi sögu: ,,Kona nokkur var hálflasin og fór til læknis. Eftir rannsóknina varð hann alvarlegur á svip og segir við hana að hann hafi þau slæmu tíðindi að hún sé haldin bráðdrepandi sjúkdómi og eigi bara þrjá mánuði eftir. Kona spyr skelfingu lostin: ,,Hvað á ég að gera?“ Hann segir við hana: ,,Það er ekkert annað að gera en að þú flytjir inn með tryggingastærðfræðingi þegar í stað.“ Konan segir: ,,Hvers konar rugl er þetta, ekki batnar mér af því.“ ,,Nei,” segir læknirinn, ,,en þetta verða lengstu þrír mánuðir sem þú hefur lifað.“

Hann hefði átt að stinga upp á norskum tryggingastærðfræðingi.

Ég komst á herbergið klukkan hálf tólf. Nóttin var … (sjá hér að framan).

Nú var kominn laugardagur. Við þrömmuðum fram og aftur um Ósló. Miðborgin er falleg. Akker bryggja, virkið og höllin, konungshöllin, Karls Jóhannsgata. Þetta eru góðir röltstaðir. Frá bryggjunni getur maður siglt í 10 mínútur yfir að Framsafninu, Kon Tiki safninu og Víkingasafninu (reyndar fleirum sem ég kann ekki að nefna eða lýsa því að þrjú söfn voru nóg). Vigelandsgarðurinn með styttum eftir þennan myndhöggvara þeirra er eftirminnilegur og synd að fara til Óslóar án þess að sjá hann.

Mér tókst að fá nýtt hótelherbergi. Sofnaði eins og ungabarn klukkan hálf eitt. Klukkan sjö kviknaði á sjónvarpinu hjá mér og á bláum skjánum blikkaði tilkynning: ,,You have a message.“ Ekki vissi ég hver vildi senda mér boð á þessum tíma, en af því að þetta var hvimleitt ákvað ég eftir kortér að lesa fjandans boðin. Mér sýndist þau vera um það að reikningurinn biði eftir mér niðri og kreditkortið mitt gjaldfært.

Það var þá mikilvægt að segja mér þetta klukkan sjö, hugsaði ég og slökkti á sjónvarpinu og hallaði mér aftur. Um leið og höfuðið kom á koddann kviknaði skjárinn aftur og sagðist hafa boð til mín. Ítrekaðar tilraunir til þess að slökkva báru ekki árangur. Mér hugkvæmdist hins vegar að snúa skjánum frá mér og hugsaði með mér að þetta myndi bætast við kvörtunarbréfið mitt til hótelstjórans.

Rétt fyrir ellefu var ég kominn á stjá og gat skoðað skilaboðin mikilvægu aftur. Þau voru ekkert um reikninginn. Einhver hafði fundið veskið mitt með kreditkortum og það beið eftir mér í afgreiðslunni.

Þeir eru leiðinlegir, en þeir eru þó heiðarlegir.

Eftirskrift: Pabbi var kominn á spítala þegar hér var komið sögu, en einhver hafði prentað út pistilinn fyrir hann. Hann sagði eitthvað á þessa leið: „Bensi á ekki að skrifa að Norðmenn séu svona leiðinlegir. Það er auðvitað rétt, en oft má satt kyrrt liggja.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.