Hinn iðandi minnihluti (BJ)

Alþingi er sómi að því að hafa forseta eins og Halldór Blöndal sem ver heiður þess fyrir ásælni forseta lýðveldisins. En það er dapurlegt að nokkrir þingmenn hafi undirbúið það að ganga út úr salnum meðan á ræðu hans stóð, en það var augljóst að myndatökumönum hafði verið sagt að búa sig undir brottför formanns Samfylkingarinnar. Þó að mörgum þingmönnum sé brýn þörf á að hreyfa sig meira, þá er það einstök vanvirða við þjóðina að gera það meðan á ræðu forseta þingsins stendur.

Þeir sem höfðu vilja og einurð til þess að hlusta á ræðu forseta þingsins átta sig á því að hann gerði einmitt það sem krefjast verður af þingforseta þegar forseti lýðveldisins hefur efnt til styrjaldar við þingið, því ekki er hægt að nefna synjun forsetans á því að undirrita lög frá alþingi neinu öðru nafni. Með inngripi sínum eyðilagði forsetinn það sem eftir var af þeirri hugmynd að þessi forseti gæti orðið sameiningartákn þjóðarinnar. Í kosningunum þar strax á eftir staðfesti þjóðin vanþóknun sýna á forsetanum með því að hann fékk aðeins atkvæði 42,5% þjóðarinnar eftir að hafa setið í embætti í átta ár.

Þingforseti skýrði tilurð ákvæðisins með eðlilegum hætti: „Synjunarákvæði stjórnarskrárinnar eru leifar af þeirri trú að konungurinn – einvaldurinn – fari með guðs vald. Þingið stóð gegn vilja konungs og leiðrétti vald eins manns með því að taka það til sín. Alþingi er kjörið af þjóðinni. Þar á fólk með ólíkar skoðanir og stefnur sína fulltrúa. Þar ráða menn ráðum sínum og leiða mál til lykta. Þótt forseti lýðveldisins sé kjörinn á sama hátt getur hann ekki mælt sig við Alþingi. … Kjarni þess sem ég vil segja nú við setningu Alþingis er að eftir atburði sumarsins stendur löggjafarstarf Alþingis ekki jafntraustum fótum og áður. Það er alvarleg þróun og getur orðið þjóðinni örlagarík nema við sé brugðist. Ákvæði stjórnarskrárinnar um æðstu stjórn ríkisins, Alþingi, framkvæmdarvald og dómsvald, þurfa endurskoðunar við. Hver skal vera staða Alþingis, hver forseta Íslands og ríkisstjórnar og hver dómstóla? Slík endurskoðun hefur látið á sér standa þar sem menn almennt hafa talið önnur mál brýnni, enda hefðu skapast ákveðnar venjur og hefðir sem ástæðulaust væri að hrófla við, en einstök ákvæði stjórnarskrárinnar hvorki verið skilin né framkvæmd eftir bókstafnum. Þau hörðu átök, sem urðu á Alþingi í vor og sumar, gera slíka endurskoðun á stjórnarskránni örðugri en ella myndi.“

Þetta voru þær skoðanir sem hinir vörpulegu stjórnarandstæðingar gengu út undir. Engum dettur í hug að forystusauður þeirra hafi séð ljósið þegar orðin voru mælt af þingforseta heldur var útganga hans augljóslega fyrirfram ákveðin. Ræða þingforseta var bæði málefnaleg og kurteisleg.

Það er mikil skammsýni ef menn telja að inngrip forsetans hafi verið heppilegt. Síðar kann að koma forseti Íslands með aðrar skoðanir, sem ekki eru geðþekkar núverandi minnihluta. Og þá er ekki víst að sama gleðin ríki þegar hann fer að neita að skrifa undir lög. En Samfylkingunni og Vinstri grænum verður ekki skotaskuld úr því að skipta um skoðun á synjunarvaldinu, rétt eins og um samþjöppun fjölmiðlavalds og hringamyndanir.

Nú krefst formaður Samfylkingarinnar lækkunar á matarskattinum. En hver kom honum á? Jú, enginn nema guðfaðir hans, Jón Baldvin Hannibalsson, sem sagði í janúar 1988: „Í öðru lagi má spyrja hverjum það væri í hag að matvæli séu undanþegin söluskatti. Ef gengið er útfrá því sem gefnu að matarinnkaup fari eftir efnahag, þá halda menn sig betur í mat og drykk með rýmri efnum. Og undanþágan frá söluskatti var þá ekki hvað síst þeim í hag. Auðvitað er sitthvað til í því að hlutfallslega séu matarútgjöld láglaunafjölskyldu meiri en annarra þótt það sé ekki einhlítt. En það sem hér er verið að gera er að fella niður undanþágur til þess að skapa forsendur fyrir virku skatteftirliti og bættum skattskilum.“

Sjálfstæðismenn undir forystu Þorsteins Pálsonar töldu skattinn óheppilegan en Jón Baldvin, Steingrímur og Ólafur Ragnar festu hann í sessi á nótt hinna löngu rýtinga.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.