Þjóðfélagið er að fara í gang eftir áramótin. Kannski eru menn að ná sér af timburmönnum og dusta af sér rykið. Þeim fækkar sem líta um öxl og fleiri farnir að gera eitthvað. Göngum við af Evrópska efnahagsssvæðið inn í Evrópusambandið? Skilja mátti fréttir helgarinnar svo með hæfilegum vilja.
Mörður Árnason skrifar um það að Þorsteinn Pálsson geti ekki verið í stjórnarskrárnefnd af því að hann sé sendiherra og Sjálfstæðisflokkurinn hafi skipað hann. Af hverju ekki? Miklu nær væri að amast við því, ef Þorsteinn væri í nefndinni en vissi ekkert um stjórnarskrána, eða hann ætlaði sér ekki að vinna þar af heilindum með þetta merka plagg heldur reyna að laga það að stundarhagsmunum í baráttunni. Líklega er enginn þeirra sem skipa þessa nefnd hæfari til starfa en Þorsteinn, lærður lögfræðingur með víðtæka reynslu úr stjórnmálum, yfirvegaður maður og hefur jafnframt þá fjarlægð sem fylgir starfi sendiherrans undanfarin fimm, sex ár. Betur að fleiri flokkar hefðu á slíkum mönnum að skipa til þess að fást við þetta mikilvæga starf.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson heldur áfram þrekvirki sínu um Halldór Laxness. Ég mjakast aftar í bókinni. Í dag hnaut ég af einhverjum ástæðum um tvo mola. Á bls. 246 er sagt frá því að þýskir nasistar vissu vel um að Halldór styddi kommúnista. Heinrich nokkur Jessen skrifaði honum opið bréf þar um. „Ekki er vitað, hverjir voru heimildarmenn Jessens, en margir koma til greina. Günter Timmermann var ræðismaður Þýskalands í Reykjavík 1934-1938. hann var að vísu friðsamur fulgafræðingur og kom illa saman við æstustu nasistana í þýsku nýlendunni í Reykjavík. Fyrir þeim fór málfræðingurinn Bruno Kress, sem talaði reiprennandi íslensku. … Hann naut styrks frá rannsóknastofnun hins illræmda S.S. liðs þýskra þjóðernisjafnaðarmanna, Ahnenerbe.“
Á bls. 311-12 stendur svo: „Margir drættir Ólafs Kárasonar Ljósvíkings seru sóttir til vestfirska alþýðuskáldsins Magnúsar Hjaltasonar, Magnússonar. „Þetta er auðsætt af orðum, setningum og jafnvel köflum, sem Laxness notar beint úr ritum Magnúsar, án gæsalappa eða tilvísunar um, hvaðan tekið væri. Hefði það þó verið útlátalítið,“ sagði vinur Magnúsar, Gunnar M. Magnúss, gremjulega.“ (Magnús er hér á mynd).
Einhver laug því að mér að Elvis Presley hefði orðið sjötugur á laugardaginn var. Ég las blöðin í þaula og sá enga tilkynningu um minningartónleika á vegum Jakobs Magnússonar, þannig að þetta getur ekki verið satt.