Ósýnilegi maðurinn (BJ)

Þegar ég sagði fólki að ég væri á leiðinni til San Francisco ráðlögðu nokkrir mér að vera með blóm í hárinu. Ég á svo frumlega vini. Fyrir tæplega fimmtíu árum var ort:

If you’re going to San Francisco

Be sure to wear some flowers in your hair

If you’re going to San Francisco

You’re gonna meet some gentle people there

Í SF hittir maður sem sé rólegt og gott fólk, þó að enginn kunni þá línu.

Þegar ég fer til útlanda leyfi ég mér eitt sem ég geri sjaldan heima á Íslandi. Satt að segja er hægt að segja að ég sleppi fram af mér beislinu, svona svo lítið beri á. Einu sinni fór ég til útlanda með manni sem sagði mér að hann bragðaði aldrei vín í íslenskri landhelgi. En hann var ekki fyrir kominn upp í 30 þúsund fet en hann teygaði ótæpilega í sig guðaveigar. Sagt er að þetta sé eini Íslendingurinn sem var á móti stækkun landhelginnar.

Ég hef hins vegar enga sérstaka þörf fyrir áfengis- og fíkniefnaneyslu í útlöndum. Það mætti segja mér að hún væri afar svipuð innanlands og utan (reyndar miklu meiri innanlands, því að þar er ég nánast allt árið, en reiknað í prómillum á dag hugsa ég að ekki hallist mjög á). Nei það er allt önnur fíkn sem ég gef lausan tauminn, nefnilega lönguninni til þess að fara í bókabúð.

Bandarískar bókabúðir eru stórkostlegar. Það eru reyndar líka frábærar bókabúðir í London og eflaust miklu víðar. Enska er aðalútlenskan mín og ef ég kaupi bækur á þeirri tungu á ég góða möguleika á að klára þær. Reynslan sýnir að ég les helminginn af bókunum sem ég kaupi og vanda ég mig þó mikið. En mesta nautnin er hvorki að kaupa bækurnar né lesa þær (þó að hvort tveggja sé mjög ljúft). Nei, skemmtilegast er að ganga um búðina, sjá nýjar bækur, halda á þeim og fletta, lesa hvað stendur á bakhliðinni, hugsa hvort maður hafi áður lesið eitthvað eftir þennan höfund, hvort bókin muni vera vel skrifuð, skemmtileg, nógu stutt til þess að ég hafi úthald í að klára hana, jafnvel renna fingrunum yfir síðuna og anda að sér bókalyktinni.

Kannski ég hefði frekar átt að gefa út bækur en blöð. En það er líka gaman að gefa út blöð, ánægjan af því að sjá þau fara fullbúin í prentsmiðju og svo aftur þegar þau koma glæsileg tilbaka.

Þegar ég kem í stórborg leita ég að bókabúðum. Ég þarf ekki margar, ein er nóg ef hún er góð. Í Cannes í Frakklandi er lítil bókabúð sem selur bækur á ensku. Hún selur svo fáar bækur að eigandinn treystir sér ekki til þess að bjóða upp á mikið úrval. Kannski er það öfugt. Maður er heppinn ef maður finnur eina góða bók þar inni. Þangað er ekki gaman að koma.

Fyrsta morguninn hér vaknaði ég klukkan fimm og fór beint á vefinn. Klukkan var tólf á hádegi heima og ég svaraði tuttugu tölvupóstum. Að því loknu var klukkan hálf sex og ég hafði ekkert að gera. Þó að ég lokaði augunum og lægi grafkyrr neitaði líkaminn að sofna. Loks gafst ég upp og ákvað að leita að bókabúð á Netinu. Fljótlega fann ég Barnes og Noble skammt frá hótelinu, en sá svo mér til skelfingar að þeir eru búnir að loka. Þá er fokið í flest skjól, hugsaði ég. Hver ræður við að selja bækur hérna ef þeir félagar, sem eru eins konar Silli og Valdi bókabransans, leggja upp laupana?

En viti menn. Hér var búð sem lofar góðu: Books Inc. Nítján mínútna gang frá hótelinu segir kortagerðarmaðurinn Gúgúll og hann veit hvað hann syngur. Hann teiknaði líka fyrir mig nokkrar leiðir og eftir vandlega yfirlegu ákvað ég að velja þá stystu. Hún liggur af Markaðsstræti yfir á Tyrkjagötu. Þetta hljómaði vel og eftir staðgóðan morgunverð (af einhverjum ástæðum borðar maður miklu meiri morgunmat á hótelum en heima hjá sér) lagði ég í hann. Ég hugsaði með mér hve tæknin hefur náð langt. Hvílík gæfa að vera uppi á þessum tímum.

Markaðsstræti er breiðgata og margir á ferli. People in motion, eins og sagði í laginu fræga. Þess vegna var ég svolítið hissa að sjá alllanga biðröð af fólki við húsvegg beint á móti hótelinu. Mér datt fyrst í hug að þarna væri súpueldhús, en þegar ég kom nær sá ég að þetta var snyrtilegt fólk, að vísu í gallabuxum, en það er löngu liðinn tími að þær séu klæðnaður Suðurríkjanegra á bómullarakrinum eins og mig minnir að Nóbelsskáldið hafi haldið fram. Þegar vel var að gáð var þetta Apple búð, en hópurinn mun vera að bíða eftir sendingu af nýjustu afurðinni sem gæti dottið inn einhvern tíma dagsins. Svolítill Sovétbragur á kapítalismanum, en svona er þetta nú samt.

Ég hélt áfram og skar mig óneitanlega úr, eini maðurinn í svörtum buxum, síðerma skyrtu og jakka. Í því að ég hugsaði það mætti ég grannvöxnum manni í gulbrúnum jakkafötum og með flókahatt, hann gæti rekið spilavíti datt mér í hug.

Leiðin sveigði til vinstri inn á Tyrkjagötu. Á móti mér kom hörundsdökk kona, ráðskonuleg og hýr á svip, íklædd skrautlegum flíkum. Tyrkja-Gudda, datt mér í hug og kinkaði kolli á móti henni. Búðirnar eru ekki eins glæsilegar og við Markaðsstræti tækifæranna, fljótlega urðu þetta heldur ókræsilegar búllur, sem buðu upp á mat eða drykk, en maður hefði orðið að vera mjög svangur til þess að fara þangað inn. Mannlífið varð sérstæðara. Skötuhjú komu á móti mér, maður um sjötugt í teinóttum fötum, með liðað hárið greitt aftur og gekk eins og Michael Jackson, tunglgöngulagið svonefnda. Eitt augnablik sýndist mér þetta vera íslenskur kaupsýslumaður sem gerði garðinn frægan fyrir hrun, en sá svo að þessi var biksvartur. Ég brosti með sjálfum mér.

Hinum megin við götuna gekk kona og talaði við sjálfa sig. Eða kallaðist á við umheiminn. Ekki greindi ég heilar setningar, en uppistaðan var: Fökk, fökk, fökk. Hún gekk hratt og menn tóku á sig sveig til þess að verða ekki á vegi hennar. Ég leit í hina áttina og sá þar tiltölulega ungan mann með strítt hár, húfu á höfði, einhvern tíma var svona húfa kölluð skopparahúfa á Íslandi, kolsvart skegg í stíl við hárið og glas sýndist mér í hægri hendi. Hann beygði sig og sveiflaði hendinni til, rétt eins og hann væri kringlukastari í hringnum. Ég herti sporið, en það var ekkert að óttast, hann gekk áfram í sömu atrennunni eins langt og ég sá til hans. Svona menn eru víða á vappi í borginni, ekki allir með kringluna, en skopparhúfuna og skeggið.

Óþægilegur þefur barst frá húsveggnum sem greinilega gegndi jafnframt hlutverki útisalernis. Ég færði mig á ytri brún gangstéttarinnar, en þar var ég ekki lengi því að á vegi mínum voru nokkrir útigangsmenn að því að ég best fékk séð. Með því að líta yfir götulengjuna sá ég að ég var eini hvíti maðurinn á svæðinu. Þar að auki í jakka í borg þar sem bolir eru spariklæðnaður.

Við rimlahlið stóð kona í keng með olnbogann upp í loftið. Maður í hjólastól fór framhjá. Hann var í óreimuðum skóm, ljósbláum ópressuðum buxum og í hvítum bol með kaffiblettum á. Höfuðið hékk til hliðar. Mér varð hugsað til Indlands þar sem allir heimsins sjúkdómar voru samankomnir á götum Nýju Delí. Er hún þó hreinlegasta borg landsins. Þar vantaði fætur, hendur eða andlit á fólk. Í því að ég hugsaði þetta glotti maður sem ég fór framhjá. Hann var tannlaus. Vinur hans var með lepp fyrir auganu.

Eðlilega vildi ég láta líta þannig út að ég væri ekki með 250 dali í veskinu þaðan af síður Samsung Galaxy S3 síma í vasanum. Enginn sagði neitt við mig, sem var óvenjulegt. Ameríkanar eru vanir að heilsa öllum sem á vegi þeirra verða. En þó að ég greikkaði sporið varð ég að stoppa á ljósum. Við hliðina á mér var maður í hörkusamræðum við rusladall. Græna ljósið lét bíða eftir sér, en þegar það loksins kom var samtalinu lokið og maðurinn heilsaði póstkassanum vini sínum innilega.

Enginn yrti á mig og enginn virtist sjá mig. Gönguferð mín skapaði álíka uppnám og heimsókn frá ósýnilega manninum. Nánast jafnhratt og þessi hópur birtist á Tyrkjagötu hvarf hann aftur þegar ég hafði gengið fjórar húsalengdir. Bókabúðin birtist við sjónarrönd eins og vin í eyðimörk og ég nánast stökk inn. Books Inc.olli ekki vonbrigðum. Þar eru gamlar bækur og nýjar, ævisögur, smásögur, gamansögur og harmsögur; hver á sínum stað eins og þær biðu eftir sínum hjartans vini. Margar bækur segja frá því hvernig menn eiga að byggja upp líf sitt að nýju. Ást og kynlíf eru greind í öreindir í sjálfshjálparbókum. Ég er ekki viss um að guð hjálpi þeim sem kaupa sjálfshjálparbækur. Húmor og kynlíf hafa þann undarlega eiginleika að verða leiðinleg þegar fræðimenn taka þau til meðferðar.

Ég fiskaði á allt öðrum miðum. Skáldsögur heilla mig mest, smásögur reyndar enn meira. Ég keypti þrjú smásagnasöfn, eina skáldsögu sem ég held að við eigum og nokkrar bækur um málfar og stíl. Ég sá það á fólkinu sem vann í búðinni að það var bókavinir. Miðaldra kona gekk um og gaf öðru hvoru skipanir um að finna skyldi þessa bókina og fjarlægja hina. Hún var svolítið skemmtileg í vexti, ekki ósvipuð blöðru sem blásið var í fyrir nokkrum dögum en hefur tapað sveigjunni en ekki loftinu.

Ungur afgreiðslumaður minnti mig á drenginn sem lék klón Hitlers í myndinni The Boys from Brazil. Svartur toppurinn hékk talsvert út á hlið. Hann var í hrókasamræðum við konu hátt á áttræðisaldri. Sú var hávær, hrukkótt og með stráhatt; minnti mig svolítið á Karen Blixen. Ég forðaðist að ná augnsambandi við nokkurn mann og þessi undarlega kona var engin undantekning. Þegar hún gekk framhjá mér leit hún fast á mig og sagði: Would you like someone to play with? Svo hló hún hrossahlátri eins og Janis Joplin.

Það eru margir skrítnir hér í San Francisco. Öllum virðist vera hleypt út á götu. Nema það er ekki nokkur maður með blóm í hárinu á götunni. Þeir eru líklega settir á órólegu deildina.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.