Bókin Being There eftir rithöfundinn Jerzy Kosiński kom út árið 1970. Í henni segir frá manni sem ólst upp í lokuðum húsagarði, hafði aldrei haft samband við umheiminn og kunni hvorki að lesa né skrifa. Þegar eigandi garðsins dó varð garðyrkjumaðurinn að fara út á meðal fólks. Hann kunni ekkert nema garðrækt og svaraði flóknum spurningum á þá leið að eftir hret kæmi betri tíð og það yrði að hlú að gróðrinum til þess að hann dafnaði. Kvikmyndin eftir sögunni endar á því að í bakherbergjum er stungið upp á garðyrkjumanninum orðheppna sem forseta. Þá var sagan grín.
Nú er grínið alvara. Fákunnandi Bandaríkjaforseti varpar stöðugt sprengjum inn í stjórnmálin, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Áratuga uppbygging friðsamlegra samskipta og frjálsrar verslunar er rifin niður eins og hún skipti engu. Bandamenn eru fordæmdir og hættulegir einræðisseggir lofsamaðir. Bandaríkin segja sig frá alþjóðasamningum og ganga úr bandalögum þjóða. Sannar frásagnir verða falsfréttir.
Þá reynir á heiðarlegt fólk. Þögn er uppgjöf. Stuðningur er svik við frið og frelsi.
Árið 1935 birti Morgunblaðið frásögn af viðtali við nýlega kjörinn forseta Þýskalands, „friðarvininn“ Adolf Hitler. Þjóðverjar gengu úr Þjóðabandalaginu skömmu eftir að Hitler varð kanslari eftir kosningasigur Nazista.
„Hitler [sagði], að Þjóðverjum kæmi aldrei til hugar, að setja nein skilyrði fyrir því [að ganga aftur í Þjóðabandalagið]. En hitt væri auðskilið mál, að Þýskalands gæti ekki átt sæti í bandalaginu nema það hefði jafnan rétt og hinar þjóðirnar í því. Jafnréttið væri ekki skilyrði af hálfu Þjóðverja, heldur sjálfsögð krafa frá almennu sjónarmiði.“
„Blaðamaðurinn kvaðst nýlega hafa átt tal við franskan stjórnmálamann og spurt hann hvers vegna Frakkar vildu ekki viðurkenna jafnréttiskröfu Þýskalands. Hefði hann svarað því til, að hann áliti að Þjóðverjar vildu aðeins frið og sátt þangað til þeir væru orðnir nógu sterkir til þess að fara í stríð.“
„Hitler kvaðst hafa barist fyrir friði í 15 ár. „Ég vil einungis farsæld þjóðar minnar“, sagði, hann, „og stríð flytur engum farsæld. Það flytur aldrei annað en þjáningar. Ég get fullvissað yður um það, að Þýskaland mun aldrei rjúfa friðinn að fyrra bragði. En hitt getur hver verið viss um, sem grípur til okkar, að hann mun grípa um þyrna og brodda“.
Hitler lauk máli sínu þannig: „Við viljum lifa í fullri sátt … við nábúa okkar … með því að bjóða öllum nágrannaþjóðunum að gera hlutleysissamninga við þær. En aðra samninga, svo sem hernaðarsamninga, ætlum við ekki að gera við neinar þjóðir; við ætlum ekki að eiga það á hættu, að komast í stríð vegna málefna sem okkur sjálfum koma ekkert við“.
Á fjórða áratugnum þagði margt gott fólk og svo fór sem fór.