Þegar Berlínarmúrinn féll árið 1989 héldu sumir að hinni sögulegu baráttu milli einræðis og lýðræðis, milli stjórnlyndis og frelsis, hefði lokið. Bandaríski stjórnmálaheimspekingurinn Francis Fukuyama lýsti yfir „endalokum sögunnar“, í þeim skilningi að „vestræn gildi“ hefðu unnið fullnaðarsigur. Auðvitað var barnalegt að halda að baráttunni fyrir frelsi og mannréttindum ljúki nokkurn tíma, þótt virða megi þeim það til vorkunnar sem barist höfðu fyrir einstaklingsfrelsinu að þeir fylltust sigurvímu.
Við Íslendingar þurfum ekki að leita til útlanda til þess að sjá sjálfsblekkinguna í aðdraganda hrunsins. Stór hluti þjóðarinnar gleymdi því að það sem virðist of gott til þess að vera satt er það sjaldnast. Fyrstu viðbrögð margra við hruninu voru reiði, en fljótlega hófst uppbygging sem víða hefur gengið afar vel.
Því er ótrúlegt hve hratt aðstæður hafa breyst á verri veg. Hver hefði trúað því fyrir þremur til fjórum árum að forseti Bandaríkjanna leiddi baráttuna gegn ferðafrelsi og frjálsum viðskiptum þjóða á milli? Víða um Evrópu hafa öfgaflokkar og lýðskrumarar náð sterkri stöðu. Jafnvel í Þýskalandi hriktir í stoðum Kristilegra demókrata, sem hafa verið burðarásar stöðugleikans í landinu, stöðugleika sem er undirstaða friðar í Evrópu.
Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, varar við þessari þróun í grein í Morgunblaðinu fyrir viku: „Þýskaland sem varpar af sér arfleifð Kohls myndi allt í einu verða uppspretta mikillar óvissu, frekar en brjóstvörn stöðugleikans í hjarta Evrópu.“
Winston Churchill var forsætisráðherra Breta í seinni heimsstyrjöldinni. Hann áttaði sig vel á því að lykillinn að friði í Evrópu og heiminum öllum er náin samvinna þjóða, samvinna sem allir græða á og enginn hefur hag af því að ráðast á annan.
Árið 1942 sagði Churchill í bréfi til Anthonys Edens, utanríkisráðherra síns: „Eins fjarlægt og það virðist núna … sé ég fyrir mér Bandaríki Evrópu, þar sem skil milli þjóða verða sem allra minnst og hægt verður að ferðast að vild.“
Árið 1946 gekk hann lengra í frægri ræðu í Zurich: „Við verðum að byggja upp eins konar Bandaríki Evrópu … sem verða þannig, ef vel tekst til, að styrkur hvers ríkis um sig skiptir ekki mestu máli. Ef öll ríki Evrópu vilja ekki taka þátt í bandalaginu í upphafi verðum við samt að ná saman þeim sem vilja og geta ruglað saman reytum.“
Þeir sem ekki skilja söguna gleðjast yfir ólgunni í Evrópu. Við Íslendingar eigum að styðja við frelsi og lýðréttindi hvar sem við komum því við. Á sínum tíma átti þjóðin leiðtoga sem leiddu hana inn í alþjóðlega samvinnu, gegn hatrammri andspyrnu einangrunarsinna. Nú telja jafnvel menn sem einu sinni voru teknir alvarlega að ólgan í Evrópu og heiminum öllum sé fagnaðarefni.