Fjöll og mikilmenni

Stundum rekur á fjörur mínar bækur sem ég hafði ekki hugmynd um að væru til. Jafnvel þegar maður sér þær er bera þær alls ekki með sér að nokkuð sé í þær varið. Í vor fékk ég nokkrar ágætar bækur í afmælisgjöf. Ein þeirra heitir Átta fjöll eftir ítalskan höfund, Paolo Cognetti. Hún er nýkomin út á íslensku og ekki nema tvö ár síðan ítalska bókin leit dagsins ljós.

Bók með þessum titli er alveg eins líkleg til þess að fjalla um eitthvað allt annað en fjöll og áletrun á forsíðu gaf ekki fögur fyrirheit. Þar er haft eftir Vanity Fair á Ítalíu að þetta sé: „Stórkostleg saga um vináttu og hvað það þýðir að verða karlmaður.“ Eitthvað held ég að Google translate hafi skjöplast í þetta sinn, sem betur fer. Bók fjallar nefnilega einmitt um fjöll og fjallgöngur, en það hefur ekki þótt höfða til nægilega stórs hóps og þess vegna verið ákveðið að reyna að höfða til allra sem hafa orðið karlmenn eða vilja vita hvað það þýðir (hverjir sem það kunna að vera). Í stuttu máli verður enginn neinu nær um það eftir lestur bókarinnar.

Aftur á móti er þetta fín saga um strák og pabba hans – og mömmu reyndar líka – strák sem gerir uppreisn gegn áhugamáli pabbans, fjallgöngum, sem hann segist allt í einu engan áhuga hafa á, bara til þess að uppgötva að einmitt þær liggja fyrir honum í lífinu. David Bowie orðaði það þannig, að á endanum yrði maður sá sem honum væri ætlað að verða, hvernig sem hann berðist á móti því.

Ég hafði gaman að bókinni, fannst sagan ágæt. Það vill þannig til að ég hef einmitt gengið á þeim slóðum sem bókin gerist á, þó að ég hafi auðvitað ekki farið á marga af þeim tindum sem þeir feðgar klífa, hvor í sínu lagi eða saman. Reyndar er fjöllunum mest lýst úr fjarlægð en ekki göngum á nafngreinda tinda.

Þeir sem eru ekki sérstakir áhugamenn um fjöll geta vel haft gaman að bókinni líka. Hún er öðrum þræði ástar- og örlagasaga, án þess að verða yfirþyrmandi.

Þýðingin er bærileg en ég fann á henni hnökra, en ekki þannig að hún truflaði mig mikið við lesturinn. Annað hvort var ég orðinn áhugasamari um söguna eða þýðingunni fór fram þegar á leið, því að eftir fyrstu kaflana fannst mér íslenskan ágæt.

Ég mæli með Átta fjöllum. Hún er stutt og þægileg bók, „lágstemmd og snjöll saga“ eins og segir líka á kápu. Hvort hún „fjallar um grundvallarspurningar lífsins“ eins og segir í framhaldinu er umdeilanlegra. Bækur geta verið ágætar þó að þær geri það ekki.

Önnur bók sem ég hef verið að lesa er Ögursögur. Upplifanir og nokkur minningabrot eftir Sigurbjörn Þorkelsson. Sigurbjörn er ljóðskáld og rithöfundur og skrifar oft stutta pistla í Moggann og á Facebook. Hann hefur gefið út barnabækur, bænabækur og níu ljóðabækur, svo eitthvað sé upp talið. Hann er trúaður og það sést vel á flestum hans skrifum.

Í Ögursögum segir Sigurbjörn frá minningum af ýmsu tagi. Knöppum sögum um atburði sem breyttu lífi hans eða annarra, öðrum um hversdagsleg eða óvenjuleg atvik með vinum eða ókunnugu fólki. Ég veit að einlægur stíll Sigurbjörns hefur valdið því að hann á dyggan lesendahóp, sem örugglega er býsna stór.

Ljóð hans eru mörg byggð á hugsunum sem venjulegt fólk hugsar á ögurstundum eða jafnvel hversdags. Sigurbjörn á létt með að orða hlutina einmitt eins og fólki finnst eiga að gera það. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, en tilvitnanir í ljóð hans í minningargreinum nema hundruðum. Það er segir sína sögu um hve vel ljóðin höfða til margra.

Mér finnst þetta ljóð afbragðsgott:

Mikill munur

Sumir tala mikið
en segja fátt.
Aðrir tala lítið
en segja mikið.
Mikill munur
er á því
hvort maður horfir á fólk
eða sér það.
Og mikill munur
er á því
hvort maður heyrir í fólki
eða hlustar á það sem það segir.
Þú getur nefnilega talað mikið
án þess að hafa nokkuð að segja.
Horft á fólk
án þess að sjá það
og heyrt í því
án þess að hlusta á
hvað það segir.
Níutíu prósent
af því sem þú segir
segirðu ekki með orðum
heldur athöfnum.
Betra er hjarta
sem hlustar
en eyru sem heyra.

Fyrir nokkrum árum greindist Sigurbjörn með krabbamein og það hefur sett mark sitt á líf hans síðan. Sjúkdómurinn hefur verið erfiður, stundum hefur hann hörfað en líka sótt á. Meðferðin er erfið en áfangasigrar gleðja. Sigurbjörn tekst á við meinið af æðruleysi, þó að hann dragi ekki dul á vonbrigðin þegar gildi hækka eða neikvæðar niðurstöður koma fram. En hann ætlar að lifa lífinu lifandi.

Ég hef lengi vitað af Sigurbirni, en þekkti hann ekki persónulega. Kannast reyndar við og þekki frændfólk hans, ágætiskonur og -karla. Lengi hafði ég haft hug á að eignast ljóðabók hans en ekki síður að spjalla við Sigurbjörn þannig að ég heimsótti hann í desember. Við ræddum fram og tilbaka í meira en klukkutíma og ég hafði gaman af. Margt vorum við sammála um og mér fannst gaman að tala við Sigurbjörn og fór glaður af hans fundi, bókinni og spjallinu ríkari.

Almennt hef ég vantrú á svonefndum mikilmennum, sem eru mikil á kostnað annarra, en stundum hef ég minnst á fólk sem gerir samfélagið ríkara með því að vera til. Sigurbjörn Þorkelsson er slíkur maður.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.