Betri er hugsun en rétthugsun

Fátt er dapurlegra en þegar skynsamt fólk styður slæman málstað og lætur draga sig í dilka rétthugsunar sem merkt er hægri eða vinstri. Vinstri menn voru blindir á glæpi kommúnista í Rússlandi og töldu þar drjúpa smjör af hverju strái. Í hungursneyðinni í Úkraínu á árunum 1932-33 dóu milljónir manna. Nú er viðurkennt að hún var bein afleiðing af stjórnarháttum Stalíns, sem var minnst þannig af formanni Sósíalistaflokksins árið 1953:

„Vér minnumst mannsins Stalins, sem … var til síðustu stundar sami góði félaginn sem mat manngildi ofar öllu öðru“.

Halldór Laxness ferðaðist um Úkraínu árið 1932 og hæddist að skrifum Morgunblaðsins um hungursneyðina og grimmdarverk bolsa (kommúnista). Honum fannst lítið til um það þó að þeir hefðu drepið tvær milljónir eftir byltinguna 1917:

„Bolsar myrtu h. u. b. tvær milljónir í borgarastyrjöldinni, segir Mgbl. Tvær milljónir! Það kalla ég ekki mikið.“ Enda var það bara vont fólk sem var drepið: „Öðru megin verkalýður Rússlands, sem hafði með byltingunni hrist sig úr rándýrshrömmum kúgaranna, hinu megin leifarnar af herjum þessara rándýra, glæpamannaforingjar, æfintýramenn og málalið þeirra. … Aldrei hefur góður og illur málstaður átt jafn ákveðna fylgismenn í veraldarsögunni.“

Ummæli Halldórs um hungursneyðina eru í minnum höfð: „Ég ferðaðist um Ukraine þvert og endilangt í „hungursneyðinni“ 1932. Það var yndisleg hungursneyð. Hvar sem maður kom, var allt í uppgangi. … Ásamt nokkrum frönskum og belgiskum ferðamönnum sat ég í þessu landi veizlur með óbreyttum úkrainskum verkamönnum, — þar á meðal einhverja ríkmannlegustu veizlu, sem ég hef nokkurntíma setið“. Meðan fólkið svalt sat skáldið dýrlega veislu með sínum meðreiðarsveinum. Seinna gerði Halldór upp við sína fortíð, en hann tók óneitanlega þátt í að blekkja umheiminn.

Margir „hægrimenn“ hafa verið slegnir svipaðri blindu. Í Bandaríkjunum studdu báðir stóru flokkarnir frjáls viðskipti og vestræna samvinnu fyrir örfáum árum. Ekki er langt síðan Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi var líkur frjálslyndum Demókrötum.

Nú er öldin önnur. Sjálfstæðismenn trúa því sumir að Repúblikanar séu „hægriflokkur“ og þess vegna eigi að styðja málstað þeirra, hversu vitlaus sem hann er. Forseti Bandaríkjanna ýtir undir útlendingahatur, aðhyllist einangrunarstefnu og ógnar mannréttindum. Samt styðja margir hægrisinnar hér á landi „sinn mann“, þó að hann gangi gegn þeirra megingildum og sé ógn við þá stefnu sem hefur tryggt frið í okkar heimshluta í sjötíu ár. Enn fleiri elta flan Íhaldsmanna í Bretlandi í blindni, því „íhaldsmenn“ eigi að standa saman.

Vont og heimskt fólk lætur illt og heimskulegt af sér leiða, en ef gott fólk stendur þegjandi hjá á meðan er heimurinn í hættu.

Biritis í Morgunblaðinu 2. júlí 2018.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.