Milli lífs og dauða í Rauðahafinu

Ég fann allt í einu að ég hafði ekki kraft í að synda áfram. Samt reyndi ég aðeins, því að stundum er eins og maður nái sér á strik. Þegar ég leit upp sá ég að ferðin var ekki alveg hálfnuð og líklegast var best að snúa við. En það breytti litlu. Mér var þungt um andardrátt og vissi ekki hvað ég átti að gera. Líklega voru tæplega 50 metrar að bryggjunni, sem á eðlilegum degi hefði tekið um mínútu í léttum spretti. Nú var ég bara ekki í Laugardalslauginni heldur Rauðahafinu og ekki í mínu vanalega formi. Lungun neituðu að fyllast af súrefni.

Á milli Ísraels og Jórdaníu er 100 metra svæði á landamærunum. Einskis manns land. Við Vigdís vorum á leiðinni frá Eilat hafnarborgar Ísraels við Rauðahafið til Petru, gamallar borgar í Jórdaníu. Eftir margfalda skoðun á vegabréfunum tók Ali leiðsögumaður á móti okkur. Tollvörðurinn vildi helst ekki hleypa mér í gegn með nýju aðdráttarlinsuna mín, en eftir miklar hringingar hans til yfirboðara sinna slapp ég samt í gegn. Aðrir hlógu að honum. Ég veit ekki hvaða máli þetta skipti, því að þegar allt kom til alls notaði ég hana alls ekki.

Rútuferðin til Petru var rúmlega tveir tímar. Mér fannst ferðalagið skemmtilegt og  við fórum um fjöll og sléttur. Á stöku stað voru úlfaldar við veginn, asnar og geitur. En mest voru þetta óbyggð svæði, en stöku smáþorp á leiðinni.

Loksins komumst við til Petru. Ég vissi ekki almennilega við hverju var að búast, einhverjum höllum sem höfðu verið grafnar úr jörðu, hélt ég. Væntingarnar voru hæfilegar.

Satt að segja hef ég sjaldan verið jafnkátur með nokkra heimsókn. Fyrst kemur maður að stíg þar sem við sjáum hella á báðar hliðar og hestvagnar fluttu fólk á milli, en við gengum reyndar og það var ekki erfitt.

Eftir að við komum að sjoppum lá leiðin niður í gil, mjótt og djúpt úr brúnum sandsteini. Litirnir og gljúfrið sjálft hefðu nægt til þess að gera ferðina þess virði, en öðru hvoru komum við að mannvirkjum sem gerð höfðu verið í bergið. Meðfram öllu er vatnsrenna sem átti að draga úr líkum á flóðum (og eflaust líka til þess að safna vatni).

Þarna var ég kominn í einstakan ævintýraheim enda hefur Indiana Jones einmitt verið á þessum slóðum. Mér fannst ég orðinn tíu ára aftur.

Við endann á göngunum komum við svo að hofi sem fyrst glittir í en sést svo vel. Það er stórkostleg sjón. Ó vá! sögðu ferðafélagarnir og Ali leiðsögumaður endurtók það.

Nokkrir arabar sátu við enda gilsins og virtust bíða eftir því að gera eitthvað – eða ekki neitt. Fyrir innan er svo mannvirki sem ég skildi ekki vel hvort var grafhýsi eða einhvers konar útfararstofa. En það var stórkostleg sjón.

Við héldum svo enn áfram og sáum enn fleiri mannvirki, hvert öðru stórkostlegra meðal annars leikhús. Við gengum svo upp að enn frekari hellum. Ég var lafmóður og hafði greinilega ekki enn náð mér af kvefinu, sem hafði plagað mig mestalla ferðina.

Þarna var selt ýmiss konar glingur, sumt eigulegt en annað ekki, en eiginlega var það svolítið önugt að hafa sölubása þarna svo maður þyrfti að burðast með gripina heim aftur. Aldrei tók ég upp fínu og þungu linsuna.

Ég hefði getað hugsað mér að vera marga daga í Petru og fara þar um alla afkima. Þegar við vorum komin á hótelið um kvöldið fannst mér ég hafa lifað einhvern skemmtilegasta dag lífsins, dag sem ég átti sannarlega ekki von á.

Eilat er hafnarborg við Rauðahafið, en fyrst og fremst dregur hún að túrista víðs vegar að. Í ferðinni með okkur voru Finnar sem höfðu komið í beinu flugi frá Helsinki. Við gistum bara tvær nætur og seinni daginn ákváðum við að skoða kóralrif sem voru undan ströndinni frá hótelinu okkar.

Fyrst fórum við á sædýrasafn þar sem sjá mátti marga skrautlega fiska og sigldum svo framhjá rifinu. Allt var þetta mjög skemmtilegt enda ekki á hverjum degi sem maður kemst í svona dýragarð.

Rétt norðan við sædýrasafnið var boðið upp á það að snorkla yfir rifinu. Ég veit ekki hvers vegna, en af einhverjum ástæðum var ég ekkert mjög spenntur fyrir því. Í afgreiðslunni fengum við sundgleraugu sem náðu yfir nefið og svo snorklpípu.

Aðalsvæðið var á milli tveggja bryggja, rúmlega 100 metra svæði samkvæmt skilti á ströndinni. Vandlega tekið fram að maður synti á eigin ábyrgð og enginn lífvörður á vakt.

Á bryggjusporðinum smellti Vigdís á sig gleraugunum og stakk sér til sunds. Þetta var greinilega ekkert mál.

Ég reyndi að gera eins, en um leið og ég setti sundgleraugun á mig var ég gripinn köfnunartilfinningu. Mér fannst óþægilegt að geta ekki andað með nefinu. Smellti mér samt út í hægt og rólega, því eins og alltaf fannst mér vatnið ískalt þó að líklega hafi það verið rétt tæplega 20 gráður.

Varla hafði ég sleppt stiganum fyrr en mér fannst óþægindatilfinning hríslast um mig og ég varð að grípa hann aftur. Ég náði engum tökum á því að anda gegnum pípuna. Vigdís synti eins og fiskur með andlitið ofan í og pípuna upp úr.

Eftir tvær mínútur á bryggjunni harkaði ég af mér og gerði aðra tilraun, ýtti mér frá stiganum og beit um munnstykkið. Allt fór á sömu leið. Það fór hrollur um axlirnar á mér og ég gat ekki andað. Ekki ósvipað martröð.

Þessi andlitsgríma gekk greinilega ekki upp. Ég horfði á Vigdísi komna langleiðina að hinni bryggjunni með höfuðið í kafi og skammaði sjálfan mig í hljóði fyrir að hafa ekki tekið venjulegu sundgleraugun með.

Vigdís var komin upp úr og gekk tilbaka. Mér fannst ég óttalegur auli að ráða ekki við þessa miklu skemmtun. Þá fékk ég þá snilldarhugmynd að ég gæti bara svamlað í sjónum án köfunargræjunnar, sem hjá mér var eiginlega köfnunargríma.

Um það leyti sem Vigdís henti sér aftur í hafið gekk ég einbeittur á eftir henni (ekki á hafinu heldur bryggjunni) og laumaði mér út í. Þetta gekk miklu betur. Ég synti áleiðis til hennar og sagði að mér væri lífsins ómögulegt að nota snorklið, en ég ætlaði að taka sundsprett. Hún jánkaði því milli þess sem hún naut útsýnisins. Ég sá auðvitað ekki neitt.

Þannig að ég lagði í hann. Hugsaði um sundið í Dauðahafinu nokkrum dögum fyrr, en þar var sundið fyrirhafnarlaust, maður einfaldlega flaut á saltbrákinni.

Fyrstu 30 metrarnir voru venjulegir, nálægt mér var fólk sem naut útsýnisins um hafsbotninn. Ég veit ekki hve djúpt vatnið er, en giska á 10 til 20 metra.

Eins og hendi væri veifað voru kraftarnir allt í einu þrotnir. Kannski hef ég lent í svipuðu í laugunum, en þá fer maður bara að bakkanum og hvílir sig eða skellir sér í heita pottinn. Nú var ég nánast kominn að „point of no return“, en sneri samt við.

Mér fannst eins og það væri smástraumur á móti mér og gerði mér grein fyrir því að ég myndi alls ekki geta synt alla leið. Baksund datt mér í hug, því þá eyðir maður minni orku, en ég hafði ekki einu sinni minni orku. Eitthvert fólk svamlaði í kringum mig, en ég kunni ekki við að biðja um hjálp. Það hefði getað endað með ósköpum.

Leiðin milli bryggjanna var mörkuð með böndum sem fest voru við flotholt. Mér datt í hug að synda að bandinu nær ströndinni og reyna að hanga á því. Þangað komst ég en mér til skelfingar gaf bandið eftir. Aldrei datt mér í hug að synda upp á ströndina sem líklega hefur verið styst. Það var greinilega ekki ætlast til þess og jafnvel í lífsháska fer maður eftir reglum.

Við flotholtin sjálf flaut bandið sæmilega vel og mér tókst að smokra mér hægt og rólega í átt að bryggjunni. Ég sá að Vigdís var komin upp úr en var ekkert að trufla hana. Samt var ég alls ekki viss um að ég kæmist alla leið.

Þegar ég átti um 15 metra eftir varð hún vör við mig og spurði hvort ekki væri allt í lagi. Ég neitaði því, en bað hana samt að bíða og þumlungaði mig áfram. Það yrði bara vesen ef hún reyndi að bjarga mér. Síðustu kraftana notaði ég í að komast upp á bryggjupallinn, en þar lá ég í einar tvær mínútur, magnvana. Vigdís sagði að ég hefði verið náfölur.

Svo færðist aftur líf í mig. Eftir á mundi ég eftir því að það er ekki óalgengt að fólk drukkni ef það fær asmakast. Þannig fór Brian Jones, einn stofnenda Rollings Stones, á sínum tíma. En sem betur fer hugsaði ég ekkert um það þennan tíma sem ég var að fikra mig að bryggjunni. Reyndar ekki heldur um lífið almennt, þó að ég gerði mér góða grein fyrir því að ég gat verið í lífshættu.

Skrítnast er kannski að þegar við komum aftur á hótelið gekk lífið aftur sinn vanagang eins og ekkert hefði í skorist. Ég hlustaði á tónlist og fylgdist með áskorendakeppninni í skák. Við spjölluðum lítið um þessa heldur óhugnanlegu upplifun og ég skálaði ekki í tilefni þess að hafa lifað af.

Eftir á man ég miklu betur eftir Petru og góða deginum heldur en þessum skrítnu mínútum í Rauðahafinu. Enda upplifir maður ekki svoleiðis ævintýri á hverjum degi.

Og sem betur fer ekki svona martröð heldur.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.