Er sanngjarnt að borga skatta?

Hagfræðingurinn Arthur Laffer setti á sínum tíma fram kúrfu sem við hann er kennd. Með henni benti hann á að ofurskattar leiða ekki endilega til ofurtekna hjá ríkissjóði. Eftir því sem skattprósentan er hærri minnkar hvatinn til þess að vinna. Sumir stjórnmálamenn hafa það sem keppikefli að skattar verði sem lægstir meðan aðrir telja að hið opinbera sé hæfara en einstaklingar til þess að fara með fé.

Nokkrir stjórnmálaflokkar lögðu til sérstaka útgjaldaaukningu fyrir kosningarnar síðastliðið haust. VG vildu bæta 236 milljörðum króna við útgjöld ríkisins meðan Sjálfstæðismenn létu sér nægja viðbót upp á 100 milljarða. Hvorugur flokkurinn hefur sagt hvaða skatta á að hækka til þess að ná þessum útgjaldaauka, en forsætisráðherra sagði í nýlegu viðtali við Morgunblaðið að ýmislegt væri til skoðunar í þeim efnum.

Á sama tíma og ríkisstjórnin ástundar skipulegt undanhald í fjármálum ríkisins lagði þingflokkur Viðreisnar fram tillögu um ábyrga fjármálastefnu í samræmi við varnaðarorð fjármálaráðs og peningastefnunefndar Seðlabankans. Blikur eru á lofti í kjaramálum og ef haldið verður áfram á sömu braut er ljóst að ríkisstjórnin missir tökin á efnahagsmálunum. Aðeins þremur mánuðum eftir að ríkisstjórnin losaði tökin á efnahagsmálunum fer verðbólga í fyrsta sinn í fjögur ár yfir viðmiðunarmörk.

Ekki bætir úr að stefnan er mjög óljós. Meðan forsætisráðherra segist íhuga skattahækkanir koma formenn samstarfsflokkanna og segja skattalækkanir í bígerð, samhliða því sem bætt verði í útgjöld á ýmsum sviðum.

Stefna Viðreisnar er skýr í skattamálum. Skattahækkanir eru óæskilegar þegar hið opinbera tekur þegar til sín drjúgan hlut af tekjum þjóðarinnar, en í þensluástandi eru ekki aðstæður til þess að draga úr tekjuöflun nema hægt sé að minnka útgjöld á sama tíma. Með markvissri niðurgreiðslu skulda losnar fé sem ella færi í vaxtagreiðslur.

Enginn segir að núverandi skattkerfi sé það besta. Auðvelt er að benda á betrumbætur:

1.     Persónuafsláttur verði breytilegur eftir launum, þannig að þeir tekjuminnstu hafi hærri persónuafslátt en núna, en þeir tekjuhæstu engan.

2.     Almennur virðisaukaskattur verði lækkaður í 22% með því að fella niður undanþágur til ferðaþjónustu. Þannig færist skattbyrðin af Íslendingum á erlenda ferðamenn og greinar sitja við sama borð.

3.     Erfðafjárskattur verði lækkaður í 5% á fjárhæðir undir 10 milljónir og felldur niður þegar einstaklingar fá minna en 2,5 milljónir króna í arf.

4.     Auðlindagjöld verði ekki ákveðin af embættis- eða stjórnmálamönnum heldur ráðist af aðstæðum á markaði. Þau lækka þá þegar afkoman versnar en vaxa þegar vel árar.

Þessir skattar eru sanngjarnir og slíka skatta er auðvelt að innheimta.

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 27.3. 2018

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.