Bíódagar

Fyrsta bíómyndin sem ég sá var eftirminnileg fyrir tvennt. Hún var söngvamynd og ég man að í henni var fólk með Havaí-kransa um hálsinn og gott ef ekki í strápilsum líka. Annað skolaðist til. Mig minnti að South Pacific hefði verið í Stjörnubíói, en timarit.is segir að það hafi verið Laugarásbíó. Reyndar fyrsta myndin í Laugarásbíói. „Hefur hið nýja kvikmyndahús Todd-AO-sýningartæki, sem eru hin fullkomnustu, sem til eru hér á landi“ sagði Mogginn í frétt 18. maí 1960. Todd-AO tæknin var aðallega minnisstæð vegna þess að í upphafi mynda sýndi Laugarásbíó mynd þar sem áhorfandinn fór í alvöru rússíbanareið. Hljóðið allt um kring og myndin voru í alvöru þannig að manni fannst maður vera í vagninum. Árum saman sögðu foreldrar mínir sama brandarann: „Todda ómynd“. Þetta grín var alltaf jafnfyndið.

Ég var nýorðinn fimm ára. Á frumsýningunni voru forsetahjónin og ráðherrar, en ég hef líklega farið í júní. Á jútúb sé ég lögin úr kvikmyndinni. Ég man ekki eftir nema tveimur, Happy Talk og Some Enchanted Evening væntanlega vegna þess að ég hef heyrt þau síðar, ekki úr myndinni. Það er skemmtilegt að talað er um Laugarássbíó (tvö ess) í auglýsingunni sem fylgir greininni, en „ekkert þessu líkt hefur áður sést“.

Þetta sama ár sá ég tvær aðrar myndir sem urðu mér eftirminnilegri: Umhverfis jörðina á 80 dögum í Trípólíbíói og Boðorðin tíu í Laugarásbíói. Sú fyrrnefnda var stórkostleg ævintýramynd og enn man ég eftir því þegar brúin sem lestin fór yfir hrundi. Jú og þegar Fílías Fogg bjargaði indversku ekkjunni af báli. Svo lenti hann í baráttu við indjána í Ameríku. Fílías Fogg var enginn auli.

Móses var enginn veifiskati heldur. Ég hafði aldrei séð neitt því líkt þegar guð sendi honum boðorðin tíu á Sínaí fjalli með því að meitla þau í steintöflur með eldingum. Hvað þá þegar Móses kom til baka og gyðingarnir dönsuðu kringum gullkálfinn (ég var auðvitað bara fimm ára).

Í myndinni henti hann steintöflunum í kálfinn, sem mér fannst eyðsla á flottum töflum. Ég velti því lengi fyrir mér að nú væri frumheimildin ekki til lengur og ekki gott að vita hvort rétt væri farið með boðorðin. Rauðahafið opnaðist svo fyrir gyðingum meðan faróinn elti þá, en lokaðist svo aftur á Egyptana. Í minningunni hafði hafið opnast á mjög eðlilegan hátt. Þegar ég sá myndina aftur seinna sá ég að þetta var bara ómerkileg brella. Ég á eftir að koma aftur að Rauðahafinu í pistli fljótlega.

Á fyrstu myndirnar tvær fór ég með pabba og mömmu, en Boðorðin tíu sá ég með Guðrúnu systur. Tíu árum seinna sá ég hana aftur með Sigga bróður. Þá var ég 15 ára og Siggi átta ára. Myndin var svo löng að mamma sendi pabba út að leita að okkur þegar við vorum ekki komnir heim eftir miðnætti. Við komum um eittleytið því þetta var alvöru stórmynd, fjögra tíma löng. En það var bjart úti, því þetta var í maí.

Ég vissi það auðvitað ekki, enda ólæs á þessum tíma, að Laugarásbíó ruglaði alla bíómenningu þeirra tíma með því að vera með samkeppni. Mogginn segir 4. nóvember 1960: „MIKIL óánægja ríkir meðal framkvæmdastjóra kvikmyndahúsa bæjarins vegna þess, að Laugarásbíó er sagt hafa yfirboðið leigu á mörgum kvikmyndum og hefur Mbl. áður greint frá höfuðatriðum málsins. Mikil deila er nýafstaðin á þessum vettvangi. Stóð hún einkum um tvær kvikmyndir: Umhverfis jörðina á 80 dögum og Boðorðin 10. Úrslitin urðu þau, að Trípólibíó fékk þá fyrrnefndu, Laugarásbíó þá síðarnefndu“. Þessi frjálsa samkeppni hefur lengi verið til óþurftar, en ég hef greinilega notið hennar og séð aðalmyndirnar.

Það er engin leið að muna allar þær myndir sem maður sá í gamla daga. Samt eru þær miklu minnisstæðari en myndir og þættir sem maður sér núna í sjónvarpinu, myndir sem allar virðast gerðar undir Alzheimers tækninni. Þegar rúmur klukkutími er búinn áttar maður sig á því að þessa mynd höfum við séð áður. En það kemur ekki að sök, plottið og flétturnar koma jafnmikið eða -lítið á óvart og í fyrsta sinn.

Mogginn stillti bíómyndaauglýsingunum upp á sama hátt í mörg ár. Þess vegna getur maður auðveldlega stillt minningunum í ákveðna röð.

Gamla bíó var efst í horninu vinstra megin. Þar voru Disney myndirnar með barnastjörnunni Haylay Mills (Pollyanna, sem var alltaf í sviga eftir nafnið hennar), sem var reyndar komin nálægt tvítugu þegar þarna var komið sögu, en á Íslandi voru myndirnar orðnar gamlar, þannig að hún var síung hjá okkur. Ferð í Gamla bíó var alltaf spennandi og ég man að mér fannst skrítið þegar allt var bjart af degi þegar maður kom úr ævintýraheiminum, hvaða hetja sem maður var í það skiptið. Eftir fyrstu árin fór ég ekki oft í bíó með foreldrum mínum, en ég man þó að við yngri bræðurnir sáum Mary Poppins með þeim og sátum á hliðarsvölunum vinstra megin við sviðið.

Í Tónabíói voru Dollaramyndirnar með Clint Eastwood. Þar voru líka Bítlamyndirnar, Hard Days Night og Help!. Þær voru stórkostlegar fannst manni þá. Við sáum þær saman strákarnir í hverfinu. Ég var George þegar við lékum Bítlana.

Háskólabíó var stærsta bíóið. Þar söng Julíe Andrews árið 1968 í um hæðirnar sem lifnuðu við tónaflóð. Þegar ég var 17 ára fórum við Goggi vinur minn saman á Borsalino, gangsteramynd sem gerðist á fjórða áratugnum. Þeir léku aðalgæjana Alain Delon og Jean-Paul Belmondo. Við Goggi tókum þá okkur til fyrirmyndar í klæðaburði (slepptum reyndar höttunum, sem ég sé núna að voru mistök).

Borsalino

Seinna sáum við Vigdís saman Don‘t look now, sem var alvöru spennumynd. Á íslensku hét hún Rödd að handan. Þar voru líka mánudagsmyndirnar, menningarlegar myndir sem fólk sem vildi sýnast gáfað, menningarlegt eða róttækt þyrptist á. Þangað fór ég stundum, en átti líklega erfitt með að uppfylla þessi skilyrði, því að oftast leiddist mér.

Stundum fórum við strákarnir í þrjú-bíó á sunnudögum. Í Austurbæjarbíói var siður að skiptast á hasarblöðum, en við tókum ekki þátt í því. Ég keypti einu sinni svoleiðis blað í bíóferð. Kannski var það ekki þrjú-bíó, en ég man eftir frönsku myndinni Fantomas um Manninn með 100 andlitin. Þá voru oft sýndar myndir sem ekki voru amerískar.

Nýja bíó var lengst til hægri á bíósíðunni. Af einhverjum ástæðum man ég ekki eftir mörgum myndum þaðan. Helst hryllingsmynd eftir Roman Polanski Leigjandinn, en það var eftir að ég var tvítugur og hún var sýnd í Háskólabíói en ekki Nýja bíói.

Hafnarbíó var braggi við Skúlagötuna og sýndi Sjaplín myndir. Þar voru líka sýndar „fræðslumyndir“ af sænskum uppruna. Frægust var Táknmál ástarinnar, en það er einkennilegt hvað hægt er að gera bæði kynlíf og húmor leiðinleg með því að fjalla um þau á fræðilegan hátt. Annars voru ljósbláar myndir helst sýndar í Hafnarfirði, en ég gerði mér aldrei ferð þangað til þess að sjá þær.

Við Vigdís fórum saman á Nútímann með Sjaplín um jólin 1973 í Hafnarbíói. Hún hafði verið sýnd hér árið 1936 líka og pabbi hafði boðið mömmu með sér, þegar þau voru að draga sig saman. Þau þorðu samt ekki að fara aftur á hana tæplega 40 árum seinna, þrátt fyrir hvatningu mína. Hafa eflaust óttast að hún væri ekki jafnstórkostleg og í minningunni.

Í Stjörnubíói var Brúin yfir Kwai-fljótið sýnd. Við fórum saman nokkrir strákar úr bekknum í Langholtsskólanum og flautuðum lagið alla leiðina heim. Svo brann það vegna þess að það var leyft að reykja í bíó.

Laugarásbíó var svo minn heimavöllur. Á sunnudögum sýndi það Regnbogann yfir Texas, Roy Rogers mynd sem endaði þannig að Roy skaut bófann aftur fyrir sig, því hann sá hann í spegli.

Tómas bróðir fór með mér á hasarmyndir, meðal annars Tólf rudda í Gamla bíói árið 1969. Við gengum heim eða að minnsta kosti upp á Hlemm.

Í Kaupmannahöfn fórum við Siggi Kristjáns, vinur minn, tvisvar í bíó. Í annað skiptið hittum við Ragnhildi Páls, frænku mína. Það var sem betur fer á einhverri hasarmynd sem ég man ekki hver var, en ekki Síðasta tangó í París. Það var ekki mynd til þess að hitta eldri frænkur á.

Fyrsta myndin sem ég sá í Ameríku var spennumynd sem Guðmundur Eiríksson sagði okkur frá, en við bjuggum hjá Þóreyju frænku Vigdísar og honum í New York. Hún hafði sett allt á annan endann og hét George, heyrðist mér. Daginn eftir gengum við svo framhjá bíóhúsi sem sýndi Jaws, sem við skelltum okkur auðvitað á. Hún stóð undir væntingum, en það gerði hin myndin sem við sáum, Tommy, rokkópera Who, alls ekki.

Við Vigdís fórum oft í bíó í Bandaríkjunum. Þá nenntum við í miðnæturbíó, en mér fannst gönguferðin heim eftir Exorcist löng og drungaleg. Það var kalt og dimmt.

Svo fórum við að hlaða niður börnum og bíóferðum fækkaði langleiðina í núll. Einu sinni reyndum við að fara í bíó með Steinunni eins árs, en hún hafði ekki smekk fyrir Fiðlaranum á þakinu.

Skömmu eftir hrun fórum við á afsláttarsýningu klukkan tvö á Viltu vinna milljarð? í Laugarásbíói. Svo fór ég einu sinni einn á James Bond mynd fyrir nokkrum árum. Jóni syni mínum fannst það svo dapurlegt að vita af föður sínum einum í bíó að hann sagði: „Ég hefði verið til í að fara með þér.“

Ég fór reyndar einn og sá Woody Allen mynd í San Francisco fyrir tæplega fimm árum, en þar var ég einn á ferðalagi, þannig að það var ekki jafnsorglegt og James Bond í Laugarásbíói.

Í gamla daga hétu næstum allar myndir íslenskum nöfunum og ég sakna þeirra. Nú eru flest þessi gömlu bíóhús horfin og Sambíóin hafa tekið við. Þau voru ekki til í gamla daga og ekki sami sjarmi yfir minningunum úr þeim. Það er samt auðvitað gott að einhver nennir að reka kvikmyndahús.

Núna eftir áramótin höfum við Vigdís séð tvær fínar myndir í kvikmyndahúsi. Okkur fannst það stórkostlegt afrek hjá okkur rosknu hjónunum. Fyrst The Post og svo Darkest Hour um Churchill.

Þá fann ég aftur að það er svolítið gaman að fara í bíó.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.