Í fyrirsögn forsíðufréttar í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag kom fram að ríkisstjórnin er með skattahækkanir til skoðunar. Forsætisráðherra segir í fréttinni koma til greina að hækka auðlindagjald, fjármagns- og hátekjuskatt. Síðar um daginn var fyrirsögninni breytt á mbl.is.
Í fyrstu stjórnarmyndunarviðræðum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar við Sjálfstæðisflokkinn virtust allir sammála um að nauðsyn bæri til að ferskir vindar fengju að blása um landbúnaðarkerfið, neytendum til hagsbóta, ekki síst fulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Við hlutum að gefa okkur að þeir hefðu fullt umboð flokksins til samninga. Síðar kom annað hljóð í strokkinn. Það hafði verið kippt í spotta.
Þegar stjórnarmyndunin tókst hafði ég orð á því að þetta gæti orðið frjálslyndasta ríkisstjórn Íslandssögunnar. Formaður Sjálfstæðisflokksins tók varfærnislega undir það, sem kom mér á óvart. Auðvitað höfðum við fundið að eftir því sem á leið þyngdist undir fæti þegar við töluðum um að hleypa ætti neytendasjónarmiðum að í landbúnaði. Markaðsleið í stað auðlindagjalda í sjávarútvegi vakti takmarkaða hrifningu, þó svo að hún hafi þann óumdeilanlega kost að gjöldin endurspegla aðstæður í greininni á hverjum tíma. Mest komu þó á óvart dræmar undirtektir við stöðuga mynt, sem hefur þó lengi verið stefna landsfunda Sjálfstæðisflokksins.
Samstarfið í ríkisstjórninni gekk ágætlega. Stundum þurfti að ná málamiðlunum, en það tókst. Ítrekað gerðist það þó, að þegar sátt hafði náðst innan ríkisstjórnarinnar, þurfti ég að hefja nýjar samningaviðræður við hóp Sjálfstæðisþingmanna sem höfðu aðra skoðun. Sem dæmi má nefna hugmynd mína um að lækka almennan virðisaukaskatt í 22,5% samtímis því að viðskiptavinir ferðaþjónustu færðust úr afsláttarþrepi. Þetta hefði bætt hag almennings með lækkun verðlags og lána um rúmlega hálft prósent, auk þess sem atvinnugreinar sætu við sama borð.
Jafnframt kom á óvart að hluti Sjálfstæðisflokksins var á móti hækkun mengunargjalda á ökutæki, jafnframt því sem skattaívilnanir á raf- og tvinnbíla væru festar í sessi í þrjú ár, en ríkisstjórnin hafði sett sér metnaðarfulla umhverfisstefnu. Grænir skattar eru rangnefni, því að kolefnisgjöld eru í raun greiðsla fyrir að menga umhverfið.
Það kom sem sé í ljós að innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins eru tveir flokkar. Á sínum tíma var Sjálfstæðisflokkurinn myndaður af Íhaldsflokknum og Frjálslynda flokknum. Þessir gömlu armar lifa enn góðu lífi. Utan þings situr svo erkiíhaldið. Íhaldsmennirnir hræðast markaðslausnir, alþjóðavæðingu og vilja hygla sumum atvinnugreinum. En íhaldsmenn verða ekki frjálslyndir með því einu að segjast vera það, fremur en skattahækkanir verði lækkanir með því einu að skipta um fyrirsögn.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 17.3. 2018