Mér er í minni smáatvik úr menntaskóla. Lítill hópur félaga í Framtíðinni var staddur á málkvöldi á Íþökulofti þar sem rætt var um mál sem var ofarlega á baugi. Framtíðin er helsta félag Menntaskólans í Reykjavík. Ég stýrði fundi sem forseti félagsins, en tók jafnframt virkan þátt í umræðum. Einhver fundarmanna sem var ósammála mínum málflutningi taldi óviðunandi að fundarstjóri tæki afdráttarlausa afstöðu og vildi að annar tæki við stjórn fundarins.
Ég tók þessu illa og sagði að vantraust á fundarstjóra jafngilti vantrauststillögu á mig sem forseta félagsins, því það væri tekið fram í lögum þess að forseti stýrði fundum. Annar fundarmaður benti þá á ákvæði um að hlutverk fundarstjóra væri meðal annars að efla og glæða umræður. Tillagan kom aldrei fram, en ég hélt aftur af mér í umræðunum eftir þetta. Málið hvarf öllum úr huga – nema mér.
Vantraust hefur bara einu sinni verið samþykkt á forseta Framtíðarinnar. Á sínum tíma var Birgir Kjaran felldur með vantrausti árið 1933. Birgir varð seinna þingmaður og er afi Birgis Ármannssonar, formanns þingflokks Sjálfstæðismanna. Vantraust fyrir 85 árum er enn í minnum haft.
Fyrstu tveir ráðherrar Íslands voru felldir með vantrauststillögum, þeir Hannes Hafstein og Björn Jónsson. Hannes og flokkur hans misstu meirihluta á þingi árið 1908, en hann sat sem fastast þar til vantraust var samþykkt vorið 1909. Vantrauststillagan var flutt af Skúla Thoroddsen, langafa Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Sjálfstæðisflokkurinn gamli náði meirihluta 1908 og sameinaðist að baki Birni Jónssyni ritstjóra, merkum manni sem var orðinn aldurhniginn þegar hann varð ráðherra. Fljótlega þóttust menn sjá elliglöp í embættisfærslum Björns sem neitaði að víkja nema fyrir vantrausti, þó að meirihluti flokksmanna hans treysti honum ekki lengur. Það féll í hlut Benedikt Sveinssonar, afa míns, að flytja vantrauststillögu á félaga sem brást trausti. Að vantraustinu samþykktu vildu flutningsmenn gera Skúla að ráðherra. Þá sem oftar fór öðru vísi en upphafsmenn ætluðu.
Á lýðveldistímanum hafa komið fram tvær vantrauststillögur á ráðherra, árið 1954 á Bjarna Benediktsson og árið 2018 á Sigríði Á. Andersen, báðar tengdar embættaveitingum. Vantrauststillögur eru ekkert gamanmál, hvorki fyrir flutningsmenn né þá sem tillagan fjallar um. Bjarni flutti langa ræðu um vantraustið 1954 og rökstuddi vandlega sérhverja af hinum umdeildu embættisveitingum.
Úr efnismikilli ræðu Bjarna situr eftirfarandi tilvitnun í Friðrik mikla Prússakeisara eftir í huga mínum: „Ég leyfi þegnum mínum að segja það, sem þeim sýnist, og þeir leyfa mér að gera það, sem mér sýnist.“ Kannski er þetta einmitt það sem ráðamenn þjóðarinnar óska sér helst enn þann dag í dag.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2018.