Sköruleg kona svo af bar – um langömmu – Kristjönu Sigurðardóttur, ljósmóður og veitingakonu

Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn að Kristjana, langamma mín, var ljósmóðir. Eða það minnti mig að minnsta kosti og það reyndist rétt vera, sigld ljósmóðir meira að segja. Þá fór ég að hugsa um það hve lítið ég vissi um þessa konu, sem auðvitað er ein forsendan fyrir því að ég er til.

Kristjana Guðný hét hún og var Sigurðardóttir. Fædd fyrir 173 árum norður í Þingeyjarsveit á Melum í Fnjóskadal, þann 15. febrúar árið 1845. Sigurður Kristjánsson, mun hafa átt 12 börn, þar af níu með Margréti Indriðadóttur, móður Kristjönu. Öll komust þau börn á legg, en Kristjana Guðný var sjötta af þeim níu.

Kristjana hefur örugglega ekki verið neitt blávatn. Foreldrar hennar voru fátækt fólk og hún þurfti að fá skjól hjá skyldmennum. Hún var auðvitað ekki stúdent fremur en aðrar konur á hennar tíð, en „sköruleg kona svo af bar“ sagði skáldkonan Hulda, Unnur Benediktsdóttir Bjarklind. Kristjana bjó árin 1855-7 að Hallgilsstöðum í Fnjóskadal hjá Jóni Ólafssyni og Guðnýju Indriðadóttur (móðursystur sinni), á Mýri í Bárðardal hjá Ingjaldi Jónssyni og Önnu Margréti Indriðadóttur (annarri móðursystur) árin 1858-64. Í kringum tvítugt (1865-70) var hún í vist í nokkur ár á Stóruvöllum í Bárðardal í nokkur ár. Gott ef Sveinn langafi minn kynntist henni ekki fyrst þar. Um Sigurð, föður Kristjönu, var sagt: „„Lítill búmaður og jafnvel frásneyddur búskap. Mun hann hafa haft meiri hneigðir til bókar“.

Kristjana var svo efnileg að föðurbræður hennar, Kristjáns amtmaður og Benedikt prófastur í Múla, Kristjánssynir báðir, styrktu hana til ljósmóðurnáms í Kaupmannahöfn árið 1870. Hún dvaldist í Kaupmannahöfn í tvö ár og nam þar ljósmóðurfræði við Den kongelige Fødselsstiftelse, hvorki meira né minna. Þá þurfti ekki sex ára háskólanám og seinni veturinn kynnti langamma sér meðferð mjólkur, ostagerð og smjörgerð, sem þá hafði tekið miklum framförum hjá Dönum. Það var ekki á hverjum degi sem ungar konur fóru til Kaupmannahafnar til náms, en langamma var hvorki sú fyrsta né sú síðasta sem lauk ljósmóðurprófi í Höfn. Á 119 árum voru samt bara 48 „sigldar ljósmæður“ frá Íslandi.

Þegar hún kom heim var hún fyrst ljósmóðir á Akureyri í þrjú ár, en eftir að hún og Sveinn Víkingur Magnússon söðlasmiður frá Víkingavatni giftu sig þann 5. júní 1875 flutti hún til Húsavíkur þar sem hún var ljósmóðir til dauðadags eða í tæplega 30 ár. Sveinn og Kristjana ráku saman gistihús og veitingarekstur á Húsavík með öðrum störfum. Sjálf eignaðist Kristjana sjö börn, á tólf árum, en þar af komust bara þrír synir upp. Ein stúlka fæddist andvana (1882), en þrjú dóu á fyrsta ári, Fjóla (f. 1876), Magnús (f. 1880) og Arnþrúður (f. 1888). Þeir sem lifðu voru Benedikt f. 1877 (afi minn), Baldur f. 1883 og Þórður f. 1885. Fósturdóttir þeirra var Fjóla Stefánsdóttir f. 1887.

Auðvelt er að sjá af barneignasögu Kristjönu sjálfrar að á þessum árum var svo sannarlega mikil óvissa um það hvort börn kæmust á legg. Starf ljósmóðurinnar hefur ekki verið auðvelt á þessum árum þegar sigurlíkurnar í barnahappdrættinu voru miklu minni en núna. Hún var reyndar sjálf í kjarabaráttu. Til er skjal frá árinu 1874 þar sem fram kemur að Kristjana G. óskar eftir að fá sinn hluta af 100 dölum, sem ljósmóðir á Akureyri, en þar hefir hún starfað án þess að hljóta umgetinn styrk.

Fljótlega fengu hjónin sýslumannshúsið leigt og fluttu þangað greiðasölu, sem þau höfðu fyrst rekið á Stangarbakka. Þau Sveinn og Kristjana keyptu svo sýslumannshúsið 1880 og fékk það fyrst nafnið Vertshús, en var almennt kallað Baukur og síðar Gamli Baukur. Mömmu og Ólöfu systur hennar var illa við Bauksheitið og sögðu að alltaf hefði verið talað um Vertshús heima hjá þeim. Karl Kristjánsson segir að Bauks-nafnið sé til komið af því að Sveinn seldi brennivín í staupum, sem voru kölluð baukar.

 

Á myndinni eru langafi, Sveinn Víkingur Magnússon, söðlasmiður og veitingamaður, Vertshúsið á Húsavík og langamma, Kristjana Sigurðardóttir, ljósmóðir og veitingakona.

Benedikt Sveinsson sýslumaður og faðir Einars Benediktssonar var mikill vinur Sveins og kom oft til hans og Einar vandi þangað líka komur sínar. Með honum og Benedikt Sveinssyni yngra, afa mínum, tókst góð vinátta sem hélst alla tíð, en þeir voru óskyldir, þó að oft yrði nafnaruglingur milli Benediktanna sem voru alnafnar og báðir í fremstu röð í sjálfstæðisbaráttunni.

Sveinn langafi og Guðjohnsen kaupmaður á Húsavík gáfu út peninga eins og víða var gert um landið á þessum árum. Þeir létu gera pappaplötu, bræða á hana lakk og settu svo innsigli i lakkið. Þeir sem voru i reikning hjá Guðjohnsen. gátu fengið þessa peninga og notað sem greiðslu í Vertshúsinu. Flestir þessara peninga munu hafa brunnið í miklum bruna sem hér er sagt frá síðar og ég veit ekki hvort nokkur slíkur er til. Ekki fer heldur sögum af því hvort Húsvíkingar hafi talið þessa prívatpeninga heppilegri en seðla sem giltu um allt land eins og seinna varð.

Eflaust hefur oft orðið líflegt í Vertshúsinu, og af því fara sögur að Sveinn hafi þurft að dempa drykkjuna með því að neita einhverjum um glas sem gerðust ölvaðir um of. Eitt sinn þegar komið var að lokunartíma, kvað Sigurbjörn skáld í Fótaskinni:

Ölvaguðs að grátum kraup

gjarnan breiskur maður.

Láttu Sveinn á lítið staup

lífs þá nýt ég glaður.

Lífsbaráttan var erfið á þessum árum og það er í frásögur fært að útlendingur hafi komið á veitingahúsið og nefndi að „gamli veitingamaðurinn“ hefði sjálfur gengið um beina. Þetta mun hafa verið skömmu áður en Sveinn dó, 48 ára að aldri.

Í Þjóðólfi sagði: „Hinn 8. febr. síðastl. andaðist Sveinn Víkingur, veitingamaður á Húsavík, eptir þunga og langa legu, 48 ára að aldri.“ Fjallkonan sagði aftur á móti: „Sveinn Magnússon, Víkingr  veitingamaðr á Húsavík, lézt 8. febr. úr „influenza““

Ekki veit ég hvor frásögnin er rétt eða jafnvel þær báðar, því víst getur infúensa leitt til langrar legu, en þó væntanlega frekar í vikum talið en lengri tíma.

Um Svein er fallega talað og Guðmundur Friðjónsson skrifar um hann í Þjóðólf :

„Sveinn er kominn af ættum þeim, sem andlegt og líkamlegt atgerfi hefur fylgt, enda var hann þrekmaður og hafði náttúrugáfur og sjálfstæði i skoðunum umfram flesta menn. Hann var maður trygglyndur, vinfastur og drengur góður, en þó kappsmaður og vildi ekki láta hlut sinn, þegar því var að skipta. Hann hafði sveitarstörf á hendi um mörg ár, og báru menn til hans hið bezta traust í hvívetna.

Sveinn fékk eigi þá menntun í æsku, sem gáfum hans var samboðin, þess vegna varð hann eigi þjóðkunnur maður, enda hélt hann sér eigi fram. Þó var hann lesinn maður og fróður um margt og bókamaður mikill. Hann var eigi kirkjutrúarmaður, en þó trúmaður og hallaðist nokkuð að skoðunum andsjáenda. Það mun óhætt að telja Svein heitinn með hinum merkustu og einkennilegustu mönnum, sem Þingeyjarsýsla hefur alið.“

Andsjáendur munu vera spíritistar eða andatrúarmenn. Ólöf ,móðursystir mín, hafði eftir pabba sínum að Sveinn hefði ekki viljað enda sem „einhver mosaþúfa“. „Alveg gæti ég nú hugsað mér það“ bætti afi við.

Mig grunar að þegar sagt er að Sveinn hafi verið með „einkennilegustu“ mönnum sé átt við sérstæðustu.

Guðrún, amma mín og tengdadóttir Kristjönu, gaf mér ljóðmæli Gríms Thomsen sem Sveinn vert, langafi minn, hafði átt og áritað. Á veggnum hjá henni voru myndir af Sveini og Kristjönu. Þannig vissi ég að þau voru til.

 

Kristjana sat eftir með þrjá unga syni á aldrinum níu til sautján ára og sex ára fósturdóttur. Þeir Benedikt og Baldur urðu stúdentar og Þórður stofnaði heildsölu í Reykjavík og vann við Búnaðarbankann. Allir voru þeir hinir vænstu menn að sögn samtíðarmanna. Kristjana hélt áfram veitingarekstrinum jafnframt því sem hún var ljósmóðir og var eftirsótt bæði af Húsvíkingum og af fólki úr Mývatnssveit. Hún byggði hús hjá Vertshúsi, þar sem var gistiaðstaða. Þetta hús var kallað Guli skúr. Hún hélt vinnumenn sér til aðstoðar og eru tveir þeirra nefndir í Sögu Húsavíkur; Klemens Klemensson og Sigurður Sumarliðason.

Hulda skáldkona sagði um för sína til Húsavíkur sem ung stúlka: „Í krambúðinni í austurenda kaupfélagshússins var „góðlegur dökkhærður drengur að hjálpa til, hann sá víst, að ég var feimin og fór að sýna mér ýmislegt í búðinni. Seinast gaf hann mér rúsínur og möndlur. Þetta var Baldur Sveinsson, síðar blaðamaður. Ég man líka eftir bróður hans, Benedikt Sveinssyni, síðar alþingisforseta, frábærlega fríðu ungmenni. Hann kom til dyra í „vertshúsinu“. Þangað fór mamma síðar um daginn að heilsa upp á húsmóðurina, frú Kristjönu Sigurðardóttur, skörulega konu svo að af bar.“

Guðmundur Hagalín segir um langömmu mína: „Kristjana var mjög vel greind og vel að sér til munns og handa, dugleg, kappsöm og hagsýn, en þó risnukona mikil, nærfærin við gesti og notaleg um viðurgerning og aðhlynningu.“ Allir virðist vera sammála um að hún hafi rekið veitingahúsið af miklum myndarskap og hún lét reisa hús bakvið Vertshúsið sem kallað var Guli skúr þar sem hægt var að gista.

Jónas Þorbergsson sem var fyrsti útvarpsstjórinn segir í endurminningum sínum Bréf til sonar:

„Fyrir Bauk réðu mikil sæmdarhjón, Sveinn Víkingur og Kristjana, foreldrar Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og þeirra bræðra. Benedikt tók á móti okkur þegar við komum heim að húsinu þá 13 ára gamall, nokkuð hár eftir aldri, fallegur og yndislega góður í viðmóti. Hann tók við hestunum og kom þeim í haga. Mér þótti alltaf mjög vænt um Benedikt Sveinsson og mun svo hafa verið um alla sem kynntust honum. Það var mikil nautn að hlýða á íslenskuna af tungu hans.

Mamma mín og Kristjana veitingakona á Bauk voru miklar vinkonur. Við gistum hjá henni tvær nætur og áttum yndislegri aðbúð að fagna.“

Hér eins og víða er talað um föður Bjarna og „þeirra bræðra“ en systranna að engu getið. Þetta leiddist þeim mömmu og Ólöfu tvíburasystur hennar, en dætur Benedikts afa voru reyndar fjórar en synirnir þrír.

Afi fór í Menntaskólann í Reykjavík og til eru nokkur bréf sem mamma hans sendi honum. Þar kemur fram að hún hefur sent honum mat og peninga þegar hún getur. Hún segir líka frá því þegar vel gengur og margir eru í gistingu. Hún þarf aðstoðarfólk og talar um að það þurfi að kunna bæði dönsku og ensku. Dönsku hefur hún náttúrlega talað og væntanlega ensku líka. Hún lætur þess getið að gott væri að fá afa sér til hjálpar og hann tali auðvitað þessi mál. Hún hefur áhyggjur af heilsu Balla (Baldurs, sonar síns) en segir um afa: „jæa það er nú er um alt land við brugðið hvað þú ert gáfaður það þiki mjer vænt um bara að Rektorinn væri góður við þig“ (punkta notar Kristjana ekki mikið).

Um Benedikt afa

Ýmsar hættur fylgdu því að standa í rekstri. Aðfaranótt miðvikudagsins 26. nóvembermánaðar 1902 urðu eldi að bráð þrettán eða fjórtán hús hinnar gömlu selstóðuverzlunar Öruims & Wulffs á Húsavík, ásamt viðskiptabókum öllum og miklu af vöru, innlendri og erlendri. Um skeið við því búizt, að eldurinn næði fleiri húsum en raun varð á. Allt lauslegt var borið út úr húsi verzlunarstjórans frá kjallara til efsta lofts, og sömuleiðis úr veitingahúsi langömmu sem stóð skammt frá brunasvæðinu, og ýmsum húsum á svonefndum Stangarbakka. Hitnaði þak veitingahússins svo, að tjaran var farin að renna af því. En það slapp í þetta sinn.

Vertshúsið tvær myndir

Í Norðurlandi birtist grein frá „Húsvíkingi“ þann 9. janúar 1904 um áfengismál:

„Fyrir bænarstað bindindisflokksins hér á Húsavík hættir veitingakonan, húsfrú Kristjana Sigurðardóttir, vínsölu við næstkomandi áramót [væntanlega áramótin 1903-4], og er það virðingar- og þakklætisvert að láta þannig almennings vilja og heill verða þyngri á metunum en eigin hagsmuni. Og ný hvöt er það fyrir bindindisflokkinn og þorpsbúa alla, til þess að hafa gætur á því, að vínsalan berist ekki ófyrirsynju yfir á útlendinga, sem engan rétt hafa til slíkrar verzlunar.“

Árið 1904 fékk Kristjana langamma mín slag og lést þann 17. júní, 59 ára gömul.

Sjá líka Móabindindið árið 1895 á Húsavík, frásögn eftir Benedikt Sveinsson.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.