Hættur leynast víða

Utanríkisráðherra segir að ekki sé titringur í ríkisstjórninni vegna afstöðunnar til ályktunar NATO um Sýrland. Titringur væri að minnsta kosti lífsmark.

Eins og þjóðin man var stjórnin mynduð af formanni Framsóknarflokksins sem sagði: „Með því að einbeita okkur að þessum verkefnum, sem allir eru meira og minna sammála um að þurfi að fara í, þá getum við vonandi náð að uppfylla þær væntingar sem landsmenn hafa til ríkisstjórnar.“ Stjórnin er því eins konar varanleg starfsstjórn, sem hefur ekki nein sérstök hugsjónamál sem hún sameinast um.

Slíkt samstarf gengur meðan ekkert gerist. Forystumenn ríkisstjórnarinnar gæta þess að ekkert frumkvæði komi frá þeim sem raskað gæti kyrrstöðunni. Nú eru t.d. tvö ár síðan verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar um virkjanakosti skilaði af sér. Tveir ólíkir umhverfisráðherrar lögðu samhljóða tillögur fyrir Alþingi, en núverandi umhverfisráðherra telur ekki tímabært að tjá sig um hvenær hann leggur fram tillögur sínar. Réttara hefði auðvitað verið að segja „hvort“ en ekki „hvenær“ tillaga kemur.

Þótt ríkisstjórnarflokkarnir passi að gera ekkert koma stundum óþægileg mál utan úr heimi. Það er vandræðalegt þegar forsætisráðherra og utanríkisráðherra stangast á um það hvort Ísland styðji ályktanir NATO, sem fulltrúi Íslands studdi. Forsætisráðherra sagði „að ríkisstjórn Íslands hefði ekki lýst yfir sérstökum stuðningi við aðgerðir Bandaríkjamanna, Frakka og Breta í Sýrlandi“. Kannski er hér munur á „sérstökum stuðningi“ og „eðlilegum stuðningi“ við aðgerðirnar sem formaður utanríkismálanefndar Alþingis sagði Ísland standa að. Utanríkisráðherra getur svo á næsta ríkisstjórnarfundi gert góðlátlegt grín að „reynsluleysi“ forsætisráðherrans.

Sami forsætisráðherra gat ekki stillt sig um að sparka í fyrirrennara sína og félaga, þegar hún ávarpaði þegna sína á ársfundi Seðlabankans: „Núverandi staða á vinnumarkaði byggist á langvarandi togstreitu og samskiptaleysi, sér í lagi á milli síðustu ríkisstjórna og launþegahreyfingarinnar.“ Ég get upplýst að bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra nýliðinnar stjórnar ræddu oft við forystufólk í verkalýðshreyfingunni. Þá þurftu ljósmæður og BHM ekki að „lýsa undrun og vanþóknun á ummælum heilbrigðisráðherra“ eins og í liðinni viku.

Forsætisráðherrann hitti samt naglann á höfuðið þegar hún lýsti efnahagsástandinu sem ríkisstjórnin tók við. Í ávarpinu til þegnanna kom fram að „hagvöxtur er hér með ágætum en þó ekki á yfirsnúningi, verðbólga er hófleg, erlend staða þjóðarbúsins afar góð og langvarandi afgangur hefur verið á viðskiptajöfnuði. Almennt er staða efnahagsmála afar góð þó hættur leynist víða.“

Stærsta hættan leynist auðvitað í lausatökum og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Birtist í Morgunblaðinu 17.4 2018.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.