Sanngjörn verkaskipting

Við Vigdís skiptum með okkur verkum í garðinum eins og ég hef stundum komið inn á, enda er krafa tímans um stöðugt aukna verkaskiptingu að sögn Karls Marx1 og ekki fór hann með fleipur.

Þegar vorar dregur Vigdís fram klippur, vélsög og axir, brýnir og lagar svo tré og runna, tekur burt greinar sem hafa brotnað undan snjóþunga og veðrum, grisjar runna til að halda þeim í kjörstærð og fjarlægir gamlar og úr sér vaxnar greinar alveg við jörð.

Hún hreinsar beðin, bælir stöngla og hirðir rusl, breiðir varlega yfir fjölæru plönturnar til þess að skýla þeim fyrir vorfrostum, stingur upp beð og rakar yfir þau, þeim til skjóls og áburðar.

Tínir upp rusl sem fokið hefur inn í garðinn eða færst til í veðrum. Bætir við blómstrandi vorlyklum og smápáskaliljum og getir þess að áburður sé nægur.

Allt þetta klipperí kallar auðvitað á það að hún þarf að fara margar ferðir í Sorpu með greinar og annað drasl. Það er auðvitað sjálfskaparvíti.

Mosann stingur hún upp og lagar ójöfnur í grasflötinni með því að bera á sand þegar þess þarf. Svo sáir hún auðvitað grasfræi í sárin. Stundum vökvar hún, þá sjaldan ekki rignir í tvo, þrjá daga. Þetta er auðvitað ekki mjög skynsamlegt, því að þá þarf hún að slá miklu oftar en ella.

Svo fer Vigdís auðvitað tíðar ferðir í gróðurhús og blómabúðir til þess að kynna sér og kaupa fjölbreytileg sumarblóm, sem síðan þarf að gróðursetja og hlú að.

Þetta er auðvitað ágætt, svo langt sem það nær.

Ég reisti aftur á móti flaggstöng um árið og það er ég sem flagga á sumardaginn fyrsta og við mörg önnur tækifæri. Ég tek eftir því að á sumrin er margt fólk sem gengur um götuna okkar, horfir á lengi flaggstöngina með aðdáunarsvip og hugsar með sér: „Hér býr fólk sem kann að halda upp á hátíðisdaga með bravör.“

Af því að ég er lítillátur maður hef ég ekkert fyrir því að leiðrétta fólkið og segja því að það sé bara ég sem dreg fána að hún og Vigdís komi þar hvergi nærri.

1 Verkaskipting: Sérhæfing vinnuafls, þannig að hver vinnur að ákveðnu, afmörkuðu verkefni. Karl Marx: Auðmagnið 4. bindi, 210. kafli: Blætiseðli vörunnar og leyndardómur þess, bls. 3.810, Heimskringla, 1968.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.