Borgin sem borgar ekki

„Hvað eigum við að gera, ef það snjóar einhverntíma aftur?“ Enginn eldri en tvævetur hér á Ísland spyr slíkrar spurningar. Allir vita að hversu langt hlýindaskeið sem koma kann þá kemur alltaf aftur frost, fyrr eða síðar. Þau sem stjórna Reykjavík eru ekki svo skyni skroppin að þau viti ekki um veðursveiflur, en í fjárhagsáætlun meirihlutans er hagsveiflunum afneitað.

Undanfarin fimm ár hefur verið samfelldur hagvöxtur á Íslandi og höfuðborgin hefur auðvitað notið hans eins og aðrir landshlutar. Samt gerir fjárhagsáætlun Reykjavíkur ráð fyrir því að í árslok 2018 verði skuldir og skuldbindingar borgarinnar meiri en fyrir fimm árum. Margir gerðu lítið úr Besta flokknum, en hann sýndi þó að hann þorði að taka ákvarðanir sem ekki voru vinsælar, til dæmis með því að hækka gjaldskrá Orkuveitunnar þegar allt stefndi í óefni á þeim bæ. Besti flokkurinn hvarf af sjónarsviðinu og skuldirnar hækkuðu aftur.

„Bíddu, bíddu“, gæti einhver sagt. „Sérðu ekki að í fjárhagsáætlun Reykjavíkur á einmitt að lækka skuldirnar.“ Og mikið rétt. Víst stendur það í áætluninni að skuldir verði lækkaðar. Seinna. Og ekkert mjög mikið.

Hvaða vit er í því að tala um að draga úr fjárfestingum árin 2021-22? Tvö síðustu ár kjörtímabilsins? Einmitt þá á að ráðast á skuldirnar. Allir sjá að ekkert vit er í slíkum áætlunum. Vinstri stjórnin í borginni telur,  rétt eins og vinstri stjórnin á Íslandi, að best sé að eyða sem mestu þegar best árar. Þegar tekjur dragast saman á ný er alltaf hægt að leggjast á bæn eða kenna ytri aðstæðum um.

Því miður virðist áhugi stjórnenda borgarinnar fyrst og fremst einkennast af því að halda kerfinu gangandi með einhverjum hætti. Fjárhagsáætlun er fyllt út með tölum án þess að þess sé gætt að þær séu í rökréttu samhengi við raunveruleikann.

Flestum væri sama þótt skuldirnar hafðu vaxið aðeins ef borgin væri hrein og snyrtileg, hér væri viðunandi þjónusta fyrir barnafólk, nóg framboð af lóðum og gatnakerfið annaði allri umferð. Ef það væri auðvelt og einfalt að eiga við borgarkerfið. Í stuttu máli að Reykjavík væri stjórnað af áhuga og með metnaðarfulla framtíðarsýn.

Lítil saga varpar ljósi á stöðuna í Reykjavík. Fjölskylda í Vesturbænum hafði samband við borgina og bað um að bláa sorptunnan yrði fjarlægð. Sama dag pantaði hún græna tunnu frá einkafyrirtæki. Daginn eftir kom græna tunnan. Sú bláa var enn á sama stað tveimur mánuðum seinna.

Reykvíkingar eiga það skilið að borginni sé stjórnað af bæði metnaði og ábyrgð. Því miður virðist skorta á hvort tveggja hjá núverandi borgarfulltrúum. Við þurfum að einfalda stjórnkerfið, fara jafnt og þétt í fjárfestingar, hætta að ausa fé í notað íbúðarhúsnæði og borga niður skuldir. Þannig verður borgarlífið einfaldara.

Birtist í Morgunblaðinu 26.4. 2018

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.