Ég hef ekki skrifað um veiruna undanfarna daga, meðal annars vegna þess að ég óttaðist að lágar smittölur á Íslandi væru vegna helgidaganna, en dagurinn í dag var líka góður. Fjalla um tölur dagsins, nýja spá, vangaveltur um tölfræðina og útbreiðsluhraða víða um heim. Fyrirsögnin var málsháttur í páskaeggi sem ég fékk og mun upprunninn úr Biblíunni en ekki úr dægurlagi. En hann á vel við um þessa óhugnanlegu veiru.
Tölur dagsins
Tölur dagsins um Covid-19 á Íslandi eru uppörvandi. Aðeins sjö ný smit voru staðfest og meðaltal nýrra smita síðustu fimm daga er um 10 á dag. Nærri 90 bættust við þá sem hefur batnað. Ekki fjölgar á spítala eða gjörgæslu. Enginn hefur dáið af völdum veirunnar undanfarna fjóra daga. Mælaborð dagsins er líka með jákvæðasta móti.
Ný spá
Í gær setti hópur sérfræðinga fram nýja spá um faraldurinn og þróun hans hér á landi. Helstu atriði í spánni koma fram hér á eftir:
- Gert er ráð fyrir því að á meðan þessi bylgja faraldursins gengur yfir muni rúmlega 1.700 manns (1.727 núna) á Íslandi vera greind með COVID-19, en talan gæti náð nær 2100 manns skv. svartsýnni spá.
- Gert er ráð fyrir að fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm nái hámarki í fyrstu viku apríl og verði sennilega um 1300 manns (1.096 hámark til þessa, 5. apríl) , en gæti viku seinna náð 1600 manns skv. svartsýnni spá (var í nýjustu tölum 642).
- Gert er ráð fyrir að á meðan að þessi bylgja faraldursins gengur yfir muni 110 manns þarfnast innlagnar á sjúkrahúsi (um 100 núna alls), en gæti náð hátt í 150 manns.
- Mesta álag á heilbrigðisþjónustu vegna sjúkrahúsinnlagna verður fyrir miðjan apríl en þá er gert ráð fyrir að um það bil 60 einstaklingar geti verið inniliggjandi á sama tíma (34 núna, mest um 45), en svartsýnni spá er 90 einstaklingar.
- Gert er ráð fyrir því að á tíma faraldursins muni um 24 einstaklingar veikjast alvarlega (um 28 hafa legið á gjörgæslu til þessa), þ.e. þurfa innlögn á gjörgæslu, á tímabilinu en svartsýnni spá er 35 einstaklingar.
- Mesta álag á gjörgæsludeildir gæti orðið í annarri viku apríl, en þá er búist við því að 10 manns liggi þar inni á sama tíma (mest 12 til þessa), en samkvæmt svartsýnni spá gætu það verið 18 manns (8 núna).
Rétt er að minna enn einu sinni á varnaðarorð á spásíðunni covid.hi.is: „Smávægileg hliðrun aldursdreifingar í átt að fleiri greindum smitum meðal einstaklinga yfir sextugt myndi auka álag á heilbrigðisþjónustu talsvert.“ Enn sem komið er hefur að mestu tekist að halda veirunni frá öldruðum. Af 23 yfir áttrætt sem hafa staðfest smit hafa þrír látist en aðeins tveimur batnað. Stór hluti hinna hefur verið sýktur mun lengur en meðaltími smitaðra (15-17 dagar).
Ég teiknaði upp nýjustu spána og rauntölu með hugsanlegri þróun næstu tíu daga. Samkvæmt henni verða virk smit farin að nálgast 200 eftir 10 daga. Þar er gert ráð fyrir því að staðfest smit næstu daga verði nokkuð fleiri en undanfarna daga. Spá sérfræðinganna gerir ráð fyrir að nýsmit verði komin í núllið í lok apríl.
Er að marka tölur?
Áhugaverð umræða varð um tölfræðina og upplýsingar sem í upphafi var lögð til grundvallar í líkanagerð á Íslandi á upplýsingafundi í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að miðað við þær tölur sem fyrst bárust frá Hubei-héraði hefði hann reiknað út að um 15 myndu falla frá vegna veirunnar hérlendis, 30-40 vera lagðir inn á gjörgæslu og 3-400 tilfelli koma upp.
Kári Stefánsson sagði að mótefnamælingar í Hubei-héraði í Kína, þar sem kórónuveiran á upptök sín, sýni fram á að um sex sinnum fleiri smit hafi komið upp en yfirvöld hafa greint frá. Alma Möller, landlæknir, sagði í dag að heilbrigðisyfirvöld hefðu ekki ástæðu til annars en að leggja traust á tölur um smit frá Kína.
„Við höfum auðvitað byggt mikið af okkar þekkingu á gögnum sem komu þaðan. Hingað til hef ég ekki hnotið um neitt sem ekki stenst,“ sagði Alma.
Var Ísland sýktasta land í heimi?
Óvíða hefur verið skimað jafnmikið fyrir veirunni og á Íslandi. Skoðum mynd sem sýnir þróun staðfestra smita á milljón íbúa í ýmsum löndum heims:
Myndin sýnir að Ísland er sífellt við toppinn í þessari óeftirsóknarverðu keppni. Ég hef ekki trú á því að Ísland hafi komið verr út en önnur lönd heldur að fullyrðing Kára sé rétt og fjöldinn sé vanmetinn víða annars staðar, meðal annars í Kína. Þetta skýrir líka hvers vegna meðgöngutíminn virðist styttri hér en víða annars staðar, hér hafa fundist smit hjá einkennalitlum einstaklingum sem annars staðar voru ekki settir í próf. Eflaust hafa einhverjir ekki fundist hér á landi sem hafa smitast en sýnt væg einkenni, en þó alls ekki í þeim mæli sem sumir hafa haldið fram, nánast af þráhyggju, að smit hér séu miklu fleiri en staðfest hefur verið. Þetta mun þó koma í ljós síðar í mótefnamælingum, en mótefni myndast ekki nema menn hafi smitast, meðan ekki er komin bólusetning.
Á næstu mynd setti ég fram fjölda nýrra smita á Íslandi eftir vikum. Þar sést að fjöldinn lækkar mun hraðar en hann óx á sínum tíma. Þetta bendir til þess að aðgerðir til smitvarna hjá einstaklingum og opinberum aðilum virki.
Þróunin í útlöndum
Víðast hvar hefur hægt á útbreiðslu veirunnar. Reyndar er það svolítið óhugnanlegt að eftir að ég skrifaði síðasta pistil um veiruna fyrir þremur dögum hefur dauðsföllum í Bandaríkjunum fjölgað um sjö þúsund. Samt hefur útbreiðsluhraðinn minnkað, en er þó meiri þar en í nokkru öðru landi þar sem dauðsföll hafa náð yfir 10 þúsund. Þeim fjölgar nú um 12% á dag, en það eru um 3.000 manns. Yfirfært til Íslands væru það um þrír látnir á hverjum degi sem okkur þætti örugglega óhugnanleg þróun. Ætla má að á mánudag eða þriðjudag í næstu viku verði fleiri látnir í Bandaríkjunum af völdum veirunnar en á Spáni og Ítalíu samanlagt.
Ég enda á mynd sem ég tók í fyrradag af vefnum. Hún sýnir tvöföldunartíma látinna í ýmsum löndum og svæðum. Í Bandaríkjunum hefur látnum fjölgað um fimm þúsund síðan þessi mynd var teiknuð. Við sjáum hve mislangt sjúkdómurinn er genginn eftir löndum. Í Kína er tvöföldunartíminn nú sagður 57 dagar og 16 á Ítalíu, meðan í Bandaríkjunum er talað um sex daga og sjö í Bretlandi. Indland hefur sloppið vel til þessa, en þar er talað um tvöföldun á fimm dögum.
Fyrri greinar mínar um Covid-19:
- HÁLFLEIKUR?
- ÍSLAND Í HÓPI FIMM HÆSTU
- ER HÁPUNKTI NÁÐ?
- ÞAÐ ER ERFITT AÐ SPÁ, SÉRSTAKLEGA UM FORTÍÐINA
- GJÖRGÆSLA
- VEIRAN VINNUR EKKI Á OKKUR …
- ER FJÖLDI DAUÐSFALLA VANMETINN?
- ÞAÐ GÆTI VERIÐ VERRA. HVAÐ EF …
- HVENÆR ENDA ÞESSI ÓSKÖP – OG HVERNIG?
- HVERNIG VERÐUR SEINNI BYLGJAN?
- ÞETTA ER ALLT AÐ KOMA – NÝTT LÍKAN OG FÓLKI BATNAR
- HVERNIG STENDUR ÍSLAND SIG MIÐAÐ VIÐ ÖNNUR LÖND?
- GÓÐAR COVID FRÉTTIR OG VERRI
- ER EITTHVAÐ AÐ MARKA SPÁR UM COVID?
- HVERJAR ERU LÍKURNAR Á SMITI?
- SMIT OG SÓTTKVÍ NÆR TVÖFALDAST Á FJÓRUM DÖGUM – STAÐAN EFTIR LANDSHLUTUM
- FLEIRI SMITAÐIR EN SPÁR GERÐU RÁÐ FYRIR
Þetta hefur verið mikið verk að vinna hjá þér Benedikt Jóhannesson, maður verður fróðari og vitsmunir vaxa við þennan lestur, ‘Eg skora á sem flesta að fara yfir þetta hjá þér. Takk fyrir. Benedikt.
Líkar viðLíkar við