Ríkisstjórn sem aldrei gat orðið

Þegar ég vaknaði í morgun ætlaði ég ekki að rifja upp stjórnarmyndunarviðræðurnar árið 2016, en stundum æxlast mál öðru vísi en maður býst við.

Í morgun spurði Björn Leví Gunnarsson mig að því á þræði á FB hvernig Viðreisn hefði farið „að því að hleypa Sjálfstæðisflokknum aftur í valdastöður árið 2016?“

Hann hafði verið að lesa grein eftir mig sem ég setti á bjz.is í morgun.

Ég svaraði á þessa lund (og það svar varð að grein á Kjarnanum):

„Við svona spurningu er auðvitað ekki einfalt svar. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þriðjung þingmanna í kosningunum 2016. Framsókn og VG samtals 18. Það var því augljóst að framsóknarflokkarnir þrír hefðu meirihluta og höfðu örugglega mikla löngun til þess að mynda stjórn saman þá þegar um óbreytt ástand eins og þau gerðu ári síðar. Þegar þannig háttar er stærðfræðilega ómögulegt að mynda meirihlutastjórn án eins þessara stöðnunarflokka.

Þetta varð til þess að líklega hafa engar stjórnarmyndunarviðræður tekið jafnlangan tíma í áratugi. Viðreisn og BF voru í stjórnarmyndunarviðræðum til hægri og vinstri í rúmlega tvo mánuði.

Þær viðræður sem gengu best voru þegar við (BF og Viðreisn) ræddum við Samfylkingu og Pírata. Þar hefðum við náð fram flestum af okkar málum til umbóta í landbúnaði, sjávarútvegi og þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópuumsóknina. En þessir flokkar höfðu bara samanlagt 24 þingmenn af 63. Þegar VG kom inn í viðræðurnar stoppuðu öll þessi mál.

Þannig að á endanum varð þessi niðurstaða þar sem við náðum ýmsum góðum málum fram, en stjórnin varð svo ekki nógu langlíf til þess að ljúka þeim.

Það er auðvelt að vera alltaf á móti, en í kerfi eins og við búum við er ólíklegt að einn flokkur nái aðstöðu til þess að fá öll sín mál fram. Við sjáum núna að íhaldsflokkarnir hafa náð saman um ráðherrastólana og halla á ríkissjóði, jafnvel í hagvextinum í fyrra. Frjálslyndishugsjónin á undir högg að sækja, meðal annars vegna þess að frjálslynt fólk dreifist á marga flokka.“

Mér var bent á að Stefán Pálsson sagnfræðingur m.m. segir á FB-síðu sinni í umsögn um frétt Kjarnans:

„Af virðingu við Benedikt Jóhannesson ætla ég ekki að reikna með þeim möguleika að hann muni ekki neitt og segi bara það sem hann langar til að sé rétt hverju sinni, heldur gefa mér að hann fari rétt með staðreyndir í þessu viðtali. Það hefur því að geyma merkilega uppljóstrun fyrir okkur áhugafólk um samtímastjórnmálasögu.

Benedikt upplýsir hér að viðræður hafi átt sér stað milli Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Samfylkingarinnar eftir kosningarnar 2016 sem hafi gengið vel en farið út um þúfur „þegar VG kom inn í viðræðurnar“. Nú á ég dálítið erfitt með að sjá hvernig þessar meintu viðræður eiga að passa inn í tímalínu stjórnarmyndunarviðræðnanna 2016 (gaman væri að fá nánari tímasetningar) og sé þetta rétt, þá stangast það á við frásögn forystufólks í Samfylkingunni bæði opinberlega og í einkasamtölum af því sem þarna fór fram. Bíð spenntur eftir frekari fregnum.“

Svo spinnst umræða um að þetta hefi hvergi komið fram og minni stjórnmálamanna sé brigðult. Hvort þetta sé ekki einhver fundur sem var haldinn á Lækjarbrekku fyrir kosningar (sem Viðreisn tók ekki þátt í).

Stefán segir síðar á þræðinum:

„Fólk þarf ekki endilega að vera að skrökva þótt það segi eitthvað sem ekki reynist standa skoðun. Stundum misminnir menn. Og stundum fara blaðamenn vitlaust með. En ef allt í þessari frásögn stendur heima þá þætti mér mjög áhugavert að fá nákvæmari tímasetningar.“

Það vill svo til að ég hef skrifað um þessi mál bæði punkta og ítarlegri frásögn. Það stendur ekki til að birta hana að sinni, en í punktunum kemur eftirfarandi fram:

  1. nóvember hittust Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir á fundi og skiptust á hugmyndum.
  2. nóvember 2016 VG og XD funda. Allt opið með „þriðja“ flokk! Jæja. Leita þau að alvöru málefnaafli eða uppfyllingarefni? [Innskot 2020. Ári seinna fengu þau uppfyllingarefnið].
  3. nóvember Á fundinum klukkan 16 hittust LE [Logi Einarsson], Birgitta, ÓP [Óttarr Proppé] og BJ [Benedikt]. Þetta var ágætur fundur. Það verður einfalt hugsa ég að ná samstöðu milli 4 í nokkrum málum, t.d. Evrópu, landbúnaði og um að taka beri upp markaðstengt kerfi í sjávarútvegi. Ekki þó víst að það verði ákveðið kerfi. Lítið talað um peningamál. Talað um vinnubrögð og stjórnsýslu.

Talað um að fjórir formenn myndu semja drög að stefnu í nokkrum helstu málaflokkum. Svo fengju menn nokkur sérmál sem rætt yrði um hvort sett yrðu inn í sáttmálann.

LE fer norður í kvöld þannig að við hittumst ekki á morgun. Þó er hægt að vinna í skjalinu. Það er ekki komið enn.

Ágætis andi, en minni enn á að halda væntingum niðri. Einhver held ég að hafi ætlað að láta KJ [Katrínu Jakobsdóttur] vita.

Vigdís, konan mín, telur reyndar að ég eigi ekki að birta frásögnina í heild fyrr en eftir næstu kosningar. Ég ætla að fylgja því ráði, því að þetta er býsna skemmtileg frásögn, en það er ekki víst að hún myndi kæta alla jafnmikið.

 

One comment

  1. Það urðu mér mikil vonbrigði þegar þessi stjórn ykkar lét af völdum, vegna þess sem ég kalla storm í vatnsglasi. Menn eins og Þorsteinn Víglundson, þú Benedikt eruð vandfundnir og ekki síst stefna þessa flokks sem ég hreyfst af og var mér að skapi. Það er að segja ef ef ég skil hana rétt, frelsi einstaklingsins, en jöfnu skipti kökunnar, er draumastefna allra hugsandi manna. Nú eruð þið Þorsteinn báðir horfnir til annarra verka og óvíst hvað verður, en einn flokkur er ekki annað en forysta hans og viðhorf hennar. Vona samt innilega að Viðreisn verði ekki samdauna pólitískum viðhorfum sem ríkja á Alþingi. Það er stór vandi hve skjót áhrif þess sem menn umgangast á til manna. ég tala ekki út í loftið hef haft einlægan áhuga á stjórnmálum frá því ég faldi mig undir borði og heyrði foreldra mína spjalla við gesti, en í þá daga var pólitík afar sterk í hugum manna. Síðan hef ég starfað við blaðamennsku í meira en þrjátíu ár minni fimmtíu ára starfsævi og þykist þekkja vel til og muna vel aftur. Eftir því sem mað’r eldist er maður vonlausari um að breytingar til jöfnunar verði að veruleika, en kannski eftir minn dag og það er líka allt í lagi – í að minnsta betra en ef ekki..

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.