Sjö ráð í kreppu

Þeir sem villast af réttri leið þurfa að finna hana aftur, en það er ekki alltaf auðvelt. Margir töldu að í kjölfar hrunsins myndi koma fram ný tegund stjórnmálamanna. Fólk sem einbeitti sér að lausnum á vanda samfélagsins, en ekki eigin pólitískum markmiðum og karpi um aukaatriði. Vandaðir stjórnarhættir yrðu settir í forgang.

Raunin hefur orðið önnur. Lýðskrum hefur aldrei verið meira og kjósendur fagna loddurum með einfaldar lausnir eins og Trump, þó að einnig megi finna nærtækari dæmi. Sem betur fer báru íslenskir stjórnmálamenn gæfu til þess að greiða niður skuldir til þess að búa þjóðarbúið undir næstu kreppu, jafnvel þó að núverandi ríkisstjórn hafi eytt um efni fram.

Á örlagatímum er mikilvægt að líta um öxl og læra af reynslunni. Meðalið má ekki verða hættulegra en sjúkdómurinn. Mörg dæmi eru um það að eftir hrunið hafi bankamenn fært eignarhald á fyrirtækjum til vildarvina. Því fór fjarri að allir sætu við sama borð. Nú kreppir aftur að og strax eru blikur á lofti um að einhverjir ætli að nýta sér stöðuna sér til framdráttar. Því er gott að stjórnvöld hafi nokkrar einfaldar reglur í huga:

  1. Ekki reyna að gera of margt í einu Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tókst á við mörg stórverkefni samtímis og lauk engu þeirra. Það var ekki einu sinni samstaða innan stjórnarliðsins, hvað þá að reynt væri að ná til stjórnarandstöðunnar.
  2. Útskýrið vandann fyrir almenningi Ef menn ætla að fara í grundvallarbreytingar er nauðsynlegt að hafa sterkan talsmann. Almenningur vill gjarnan flykkja sér að baki leiðtoga sem skýrir hvert ber að stefna.
  3. Notið mál sem almenningur skilur Stjórnmálamenn með mikla reynslu segja frá því, að um leið og einhver nefnir hagvöxt, framleiðni eða raungengi sé eins og þoka myndist milli ræðumanns og áheyrenda.
  4. Endurtakið skref 2 og 3 Stuðningur almennings er ekki föst stærð. Þess vegna þurfa menn að flytja fagnaðarerindið aftur og aftur. Góð vísa er aldrei of oft kveðin.
  5. Stillið væntingum í hóf Þessu ráði er erfitt að fylgja. Þolinmæði er fágæt dyggð.
  6. Fylgist með viðhorfi almennings, fordómum og misskilningi Stjórnmálamenn eiga ekki að elta almenningsálitið, en þeir þurfa samt að fylgjast með því. Það er ekki létt verk að ætla að breyta lífsviðhorfi fólks, en það getur þó gerst þegar meiriháttar viðburðir eins og hrunið verða. Þeir stjórnmálamenn sem skilja það verða ofan á.
  7. Setjið sanngirni í forgang Ef það er eitthvað sem almenningur þolir ekki þá er það að mismunað sé milli Jóns og séra Jóns. Leiðin til þess að komast hjá þessu er að ástunda vandaða stjórnsýslu, gagnsæi og jafnræði.

Ekkert er stjórnmálamanni jafnmikils virði og traust. Menn eru lengi að ávinna sér það og fljótir að tapa því aftur.


Birtist í Morgunblaðinu 1. apríl 2020

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.