Hálfleikur?

Bærilegur Covid-19 dagur á Íslandi. Núna eru nákvæmlega jafnmargir smitaðir og þeir sem hefur batnað eða 841. Nýsmit voru ekki nema 14, en reyndar voru ekki jafnmjög mörg sýni tekin og undanfarna daga, en þó um 500 á móti 1.500, væntanlega vegna þess að það var föstudagurinn langi. Eitt dauðsfall bættist við og þau eru orðin átta. Enn eru 11 á gjörgæslu og 40 á sjúkrahúsi. Alltaf fækkar fólki sem er opinberlega í sóttkví. Nú eru um 3.000 manns í sóttkví en voru 10 þúsund þegar mest var. En þetta segir auðvitað ekki nema hluta sögunnar því að tugþúsundir eru í sjálfskipaðri sóttkví.

staðan 10.4

Ef við horfum á nýjustu spá (6.4.20) um fjölda virkra smita og rauntölur undanfarna daga sjáum við að þær eru talsvert undir spákúrvunni. Ef nýsmit verða ekki fleiri en 30 að jafnaði (eins og undanfarna daga) og fækkar svo um eitt á dag má ætla að fjöldi virkra smita verði kominn um eða undir 600 um næstu helgi.

Spáin
Í samræðum við vini mína í dag (í Zoom-fjarfundabúnaði) kom upp spurningin hvenær þorum við (og átti þá bara við hópinn) að taka upp venjuleg samskipti. Verður það þegar virk smit eru komin í 300, 100, 50, 5? Líklega værum við ekki mjög hrædd við að heimsækja hvert annað ef við vissum bara af fimm smitum á Íslandi. En 50? Hvar er línan? Þetta er vandinn sem þjóðir heims glíma við næstu vikur og kannski mánuði.

Staðan erlendis

Fyrir níu dögum sagði ég í pistli: „Ef [hárri dánartíðni í Bandaríkjunum] linnir ekki verður landið komið fram úr Ítalíu í dauðsföllum á miðvikudaginn kemur og verða þá farin að nálgast 20 þúsund.“

Samkvæmt nýjustu tölum eru dauðsföll í Bandaríkjunum af völdum Covid-19 nú orðin fleiri en í nokkru öðru landi. Þeir fóru fram úr Ítölum þar sem dauðsföll eru nú um 19.500 tveimur dögum seinna en útlitið var 2. apríl. Það hefur sem sé hægt á aukningu dauðsfalla þar eins og annars staðar, en hann er þó meiri (14% á dag) en í nokkru öðru landi þar sem dauðsföll eru fleiri en þúsund. Bretar nálgast þó 10 þúsund látna óðfluga (9.990 látnir) og dauðsföllum fjölgar þar um 18% á dag, 15% í Svíþjóð og 13% í Belgíu. Á Ítalíu og Spáni bætast nú um 5% í viðbót við valinn á degi hverjum.

Gjörgæsla

Í gær sagði ég aðeins frá hve margir eru á gjörgæslu í ýmsum löndum. Eins og með svo margt annað er mikill munur á milli landa. Nú eru 11 á gjörgæslu á Íslandi. Það hefur ítrekað komið fram að aldursskipting smitaðra er Íslandi hagstæð, en veltum því fyrir okkur hve margir væru hér á gjörgæslu ef við lentum jafn illa í því og ýmsar aðrar þjóðir.

Gjörgæsla mv aðrar þjóðir
Þegar maður skoðar þessa mynd er eðlilegt að Landspítalinn sé viðbúinn því að milli 20 og 30 manns þurfi á gjörgæslu að halda.

Ég hef fjallað aðeins um spálíkan íslenskra sérfræðinga. Það hefur ágætlega á margt en ekki allt. Það er engin ástæða til þess að mæðast yfir því. Mark Weir er prófessor við Ohio State University í Bandaríkjunum, forstöðumaður á vistfræði-, smitsjúkdóma- og mannfjöldasviði. Hann segir um stærðfræðilíkön:

“All models are wrong, it’s striving to make them less wrong and useful in the moment.”

Þetta er kjarni málsins.


Fyrri greinar mínar um Covid-19:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.