Er fjöldi dauðsfalla vanmetinn?

Í dag fjalla ég um stöðuna á Íslandi, merkilega spá um að til Íslands myndi berast skæð veira í febrúar árið 2020, stöðuna í Færeyjum og vangaveltur um hvort dauðsföll af völdum veirunnar séu vantalin, eða hvort þau séu bara svipuð og af venjulegri inflúensu.

Góðar fréttir frá Íslandi

Annan daginn í röð eru tölurnar um Covid-19 á Íslandi nánast allar jákvæðar. Annan daginn í röð fellur fjöldi smitaðra (lítið, en það er betra en aukning). Búast má við því að fjöldinn geti haldið áfram að lækka, að minnsta kosti eftir miðja næstu viku, ef ekki fyrr. Engin nýsmit voru hjá fólki yfir áttrætt, en fimm hjá fólki milli sjötugs og áttræðs (úr 40 í 45), sem er kannski neikvæðasta talan í dag.

Á miðnætti voru þremur færri á spítala en sólarhring áður (42 í stað 45) og sjúklingum á gjörgæslu fækkaði úr 12 í 11. Í dag mun fjöldinn kominn niður í 10.

Fólki í sóttkví fækkar mikið enn einn daginn.

Staðan 3.4

Mælaborðið er betra en það hefur verið undanfarna daga, en það ber stöðuna við spá sérfræðinga. Enn eru sjúklingar á gjörgæslu fleiri en líklegasta spá þeirra gerir ráð fyrir, en bæði innlagnir á spítala og virk smit eru færri en gert var ráð fyrir í spánni.

Ég hef nokkrum sinnum birt mynd sem sýnir fjölda þeirra sem hafa smitast af veirunni og borið saman við þá sem batnar. Í ljós kemur að nánast fullkomin fylgni er á milli þessara talna (Fylgnistuðull > 0,99) þegar hliðrað er til um 15 daga.

Sýktir og batnaðir

Í spálíkani sérfræðinganna er gert ráð fyrir 21 veikindadegi, þannig að reynslan á Íslandi er betri en spáin. Mér er reyndar ekki alveg ljós út frá lýsingu á líkaninu hvort 21 dagur er almennt eða bara í svartsýnisspá sérfræðinganna. Líklegast er það almennt, því spá um heildarfjölda er aðeins innan við rauntölur (en þó mjög nærri).

Mögnuð forsögn

Sumarið 2019 kom út sögulega skáldsagan Urðarmáni eftir Ara Jóhannesson lækni. Sagan fjallar um spænsku veikina á Íslandi árið 1918. En byrjunin er sérstök. Þá er sagt frá hópi kínverskra ferðamanna sem eru á ferð á Íslandi í febrúar árið 2020. Einn þeirra veikist af skæðri veirusýkingu og fer í gjörgæslu.

Urðarmáni

Í viðtali um bókina við vefinn Lifðu núna segir Ari: „Ari segir að þeir sem til þekkja telji það einungis tímaspursmál, hvenær næsta drepsótt komi upp í heiminum „Þessi veira er landlæg í fuglum, ekki síst í Asíu. Menn horfa til Kína í þessu sambandi. Veiran hefur þann eiginleika að geta stökkbreyst. Geri hún það gæti hún farið að smita fólk og þá er faraldur óhjákvæmilegur. Það tekur töluverðan tíma að þróa bóluefni. Á meðan gæti veikin breiðst út og hún gæti verið fljót að fara víða, eins og samgöngum er háttað í heiminum í dag“, segir Ari að lokum.“

Þetta viðtal birtist síðastliðið sumar eins og bókin og fer óhugnanlega nærri veruleikanum sem við upplifum öll núna.

Færeyjar

Einhverjir söknuðu umfjöllunar um Færeyjar í pistlinum í gær þegar fjallað var um smáþjóðir. Ég sé að sumir telja að við hefðum átt að taka Færeyinga okkur til fyrirmyndar, en ég verð að játa að ég þekki ekki mikið til þess hvaða aðgerða þeir gripu til. Mig grunar þó að ferðalög landa á milli séu hlutfallslega færri í Færeyjum en hér, en þori þó ekki að fullyrða það. Munum að fyrstu staðfestu smitin hérlendis komu frá Íslendingum sem höfðu verið á ferðalagi á Ítalíu.

Hvað sem veldur hefur enginn látist í Færeyjum af völdum veirunnar og um helmingur þeirra sem mælst hafa með smit hefur þegar læknast. Mikið er tekið af prófum og vel virðist staðið að rakningum. Á myndinni hér að neðan sést að faraldurinn hefur enn verið jafnlengi þar og á Íslandi (Dagur 1 er 12. mars í Færeyjum, en var 28. febrúar á Íslandi).

Færeyjar smitaðir
Hér að neðan sést sambærileg mynd fyrir Ísland. Íslendingar eru um það bil sjö sinnum fleiri en Færeyingar og heildarfjöldi smita er um sjöfalt meiri þannig að útbreiðslan er svipuð. Miðað við fólksfjölda ættu um það bil 0,5 Færeyingar að hafa látist af Covid til þess að dánartíðnin væri sú sama og hér.

Færeyingum hefur batnað hraðar en Íslendingum (eða veikin lengra gengin þar þegar smit uppgötvaðist en hér, sem kannski er líklegra, en samkvæmt myndinni að dæma fer Færeyingum að batna um það bil 10 dögum eftir staðfest smit.

Ísland smitaðir

Eru dauðsföll vanmetin?

Ég fæ ýmsar gagnlegar ábendingar í athugasemdum við greinarnar á FB (og sumar gagnsminni). Í dag kom þessi: „Það er núna fréttir að koma um það að raunveruleg dauðsföll á Ítalíu sé í raun miklu fleiri en það sem kemur fram í opinberum tölum. – Það vantar alla þá sem deyja á hjúkrunarheimilum, heima hjá sér og þá sem ekki náðist að greina áður en þeir dóu. – Meðfylgjandi graf bendir til að raunveruleg dauðsföll geti verið tvöfalt til þrefalt fleiri en opinberar tölur segja.“

Svo hef ég líka verið spurður hvort ég viti hvort dánartíðnin núna sé nokkuð meiri en af venjulegri flensu.

Ég ákvað að lesa mér til um þetta. Economist fjallar um málið og birtir myndir sem varpa nokkru ljósi á báðar spurningarnar. Frétt um að dauðsföll á elliheimilum hefðu ekki verið talin með í tölum frá Frakklandi birtist í gær.

En blaðið birtir áhugaverð myndrit. Það fyrra birtir tölur um dauðsföll í mars frá fimm fjölmennum stöðum á Spáni, Frakklandi og Ítalíu.

Vantalin dauðsföll 0
Á myndinni er grái hlutinn fremst „eðlilegur“ fjöldi dauðsfalla á þessum árstíma. Dökkrauðu tölurnar sýna fjölda staðfestra andláta af Covid-19. En ljósrauðu (bleiku?) tölurnar sýna andlát umfram það sem búast má við. Ef þau væru öll af völdum veirunnar er dánartíðnin vanmetin tugi prósenta.

Önnur mynd þar sem sýndar eru daglegar tölur frá tveimur stöðum á Spáni og Ítalíu sést að það sama er uppi á teningnum. Þar til veiran fer að grassera sveiflast dauðsföllin í kringum væntingar. En eftir það sést að þau eru mun fleiri en þau dauðsföll sem þegar hafa verið rakin til Covid-19.

Vantalin dauðsföll
Í Economist gat blaðamaður sér þess til að þetta væri ekki vegna þess að heimamenn vildu falsa tölur heldur að ekki væri búið að staðfesta Covid sem dánarorsök enn og munurinn gæti minnkað.

Á Vesturlöndum eru tölur um látna þó mun aðgengilegri en í sumum löndum Asíu. Samkvæmt frétt Washington Post eru uppi grunsemdir um að í Wuhan í Kína sé lítið að marka opinberu töluna um 2.563 látna. Gögn bendi til þess að þeir séu fleiri en 40 þúsund. Jafnframt hafa verið miklar efasemdir um tölur frá Íran.

Myndirnar sýna aftur á móti annað. Í öllum tilvikum er fjöldi látinna mun meiri en reynslan undanfarin ár bendir til. Kórónuveiran er ekki bara ný flensa eins og ýmsir hafa haldið fram heldur miklu skæðari, smitast hraðar og miklu fleiri deyja af völdum hennar en venjulegrar flensu.

Fyrri greinar mínar um Covid-19:

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.