Loksins, loksins eru engar sérstaklega slæmar nýjar Covid-19 tölur.
• Í fyrsta sinn síðan prófanir hófust fækkar virkum staðfestum smitum, úr 1.031 í 1.028.
• Innlögnum á spítala fjölgaði um tvær, úr 43 í 45.
• Jafnmargir eru á gjörgæslu og í gær eða 12.
Aðeins sex einstaklingar úr 1.200 manna slembiúrtaki sem ÍE reyndust smitaðir. Það er 0,5%. Eftir að sóttvarnalækni varð það á að túlka fyrstu tölur úr skoðun ÍE sem vísbendingu um að eitt prósent þjóðarinnar væri smitað hefur reynst erfitt að losna við þá tölu úr umræðunni, þó að læknirinn hafi leiðrétt sig sama dag. Ég ætti ekki að segja: Hvað sagði ég?, en …
Sérfræðingar settu fram nýja spá í gær. Hún er ekki ósvipuð þeirri síðustu. Það kom mér svolítið á óvart að tölur um fjölda í gjörgæslu hækkuðu ekki mikið í ljósi þess að rauntölur hafa verið um eða yfir svartsýnisspá hópsins til þessa.
Slæm staða víða erlendis
Í gær fjallaði ég aðeins um stöðuna í nokkrum þeim löndum þar sem dauðsföll hafa verið flest. Dauðsföllum fjölgar á sama hraða og áður í Bandaríkjunum og á Bretlandi. Frakkar höfðu ekki talið dána á elliheimilum með þannig að dánartíðnin þar tók kipp.
Dánartíðnin hefur líka verið mikil og hröð í Belgíu. Næstu dagar segja til um hvort Þjóðverjar verða með svipaða kúrvu og hin stóru Evrópulöndin eða ekki. Enn er útlit fyrir að dauðsföll í Bandaríkjunum verði fleiri en á Ítalíu á miðvikudag eða skírdag.
Það er fróðlegt að horfa á mynd um tíföldunartíma dauðsfalla. Það er tíminn sem fjöldinn eykst úr 10 í 100, úr 100 í 1.000 og úr 1.000 í 10.000 og svo framvegis. Á myndinni hér að neðan sést að í upphafi tók það í flestum löndum sjö til tíu daga að fjöldinn færi úr 10 í 100. Næsta stig, frá 100 í 1.000 tekur yfirleitt aðeins lengri tíma, en þó víðast um 10 daga.
Á Íslandi skoða ég fjölda smita og það tók 17 daga og komast úr 100 í 1.000. Síðan hefur enn hægst á útbreiðslunni á Íslandi og tíminn er nú 36 dagar miðað við útbreiðslu smits undanfarna daga. Í Bandaríkjunum og á Bretlandi er hraðinn enn 10 dagar sem er ógnvænlegt.
Hvað um dauðsföll á Íslandi?
Ég hef mest fjallað um fjölda smitaðra, en í gær vorum við óþægilega minnt á að veiran getur drepið Íslendinga líka. Það vekur upp spurningar um hver dánartíðnin á Íslandi miðað við önnur lönd.
Skoðum fyrst Norðurlöndin. Venja er að skoða látna á hverja milljón íbúa til þess að tölur séu samanburðarhæfar.
Mikið hefur verið talað um að Svíar noti aðrar aðferðir en aðrar þjóðir. Þar hafi verið „Business as usual“. Myndin bendir ekki til þess að sú leið sé heppilegri aðferð en hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa notað.
Kíkjum næsta á smáþjóðaleika í Covid-19. Athygli mína hefur vakið hve há tíðnin hefur verið hjá mörgum fámennum þjóðum.
Í San Marínó eru 30 látnir af 30.400 íbúum. Það gefur skuggalega dánartíðni. En tölurnar eru líka háar í Andorra og Mónakó. Lúxemborg sem við Íslendingar berum okkur stundum við er með fjórfalt hærri dánartíðni en Ísland. Öll Benelux-löndin svonefndu koma illa út úr sóttinni.
Þau lönd sem mest eru í fréttunum eru flest mannmörg. Næsta mynd sýnir hve skelfilega Ítalía og Spánn skera sig úr, enn sem komið er.
Athyglisvert er að Austurríki, sem Íslendingar eru sannfærðir um að beri ábyrgð á mörgum íslenskum smitum, kemur enn sem komið er mun skár út úr faraldrinum en rómönsku Evrópulöndin eða jafnvel Sviss.
Hvað ef …?
Í lokin velti ég því fyrir mér hvernig staðan væri á Íslandi ef kórónuveiran hefði verið jafnskæð hér og í mörgum nágrannalöndum. Þá værum við að sjá meira en 10 og hátt í 100 dauðsföll hér á landi eftir því hvort við miðum við Svíþjóð eða Spán og Ítalíu.
Þessi mynd ætti að sannfæra allt skynsamt fólk að sóttvarnir og varfærni virka.
Hina er ómögulegt að sannfæra hvort sem er.
Fyrri greinar mínar um Covid-19:
- HVENÆR ENDA ÞESSI ÓSKÖP – OG HVERNIG?
- HVERNIG VERÐUR SEINNI BYLGJAN?
- ÞETTA ER ALLT AÐ KOMA – NÝTT LÍKAN OG FÓLKI BATNAR
- HVERNIG STENDUR ÍSLAND SIG MIÐAÐ VIÐ ÖNNUR LÖND?
- GÓÐAR COVID FRÉTTIR OG VERRI
- ER EITTHVAÐ AÐ MARKA SPÁR UM COVID?
- HVERJAR ERU LÍKURNAR Á SMITI?
- SMIT OG SÓTTKVÍ NÆR TVÖFALDAST Á FJÓRUM DÖGUM – STAÐAN EFTIR LANDSHLUTUM
- FLEIRI SMITAÐIR EN SPÁR GERÐU RÁÐ FYRIR