Hvernig verður seinni bylgjan?

Alvarlegum Covid-19 tilvikum fjölgar enn umfram spár sérfræðinga, en virkum smitum fjölgaði aðeins um átta, sem bendir til þess að hámark smita sé skammt undan og náist jafnvel fyrr en spár hafa gert ráð fyrir.

En hvað með seinni bylgju smita, þegar slakað verður á reglum um samkomuhald og fjarlægð milli fólks? Ég fjalla um það eftir stutta yfirferð um tölur dagsins.

Staðan vekur bjartsýni

Í gær voru greind ný smit færri en undanfarana daga eða 49, þrátt fyrir að tekin sýni hafi verið fjögur til fimmhundruð fleiri en undanfarna daga. Aðeins 0,2% af 900 sýnum frá ÍE sýndu smit. Að vísu hefur stærri hluti þeirra sem mælist smitaður nú ekki verið í sóttkví eða um 35 (71% nýsmita), en það er sami fjöldi og meðaltal undanfarna fimm daga.

Heildarfjöldi virkra smita er nú um 100 færri en nýjasta spá sérfræðinga sagði fyrir um sem er sannarlega gott. Myndin hér að neðan sýnir að enn batnar fólki álíka hratt og það sýktist áður.

Sýktir vs batnað

Í gær voru 39 nýir í hópi þeirra sem hefur batnað á móti 47 nýjum smitum alls. Það gæti því vel verið að síðar í vikunni verði jafnvægi komið á og þar með náð hámarki þeirra sem hafa smitast. Það rímar vel við spár um að hámarkið náist í fyrstu viku apríl.

Sjúkrahúsinnlögnum fjölgar aftur á móti frekar hratt og þótt þær séu enn innan við spár sérfræðinga er líklegt að þær fari fram úr þeim á næstu dögum ef svo heldur sem horfir.

Sérstaklega er slæmt hve margir eru á gjörgæslu eða 11 (9 í öndunarvél), en spáin sagði fimm. Fjöldinn er við svartsýnisspána.

Staðan 30.3.

Hér er það gott ef vísirinn hallast til vinstri, en slæmt ef hann hallast til hægri eins og á mælinum sem sýnir fjölda á gjörgæslu.

Tölur dagsins segja mér það þó að aðgerðir Almannavarna eru að virka.

Hvað um seinni bylgju?
Í gær fékk ég fyrirspurn á FB: „Því er haldið fram að lokanir, t.d. landsvæða, séu slæmar því þá geti komið seinni bylgja. Nú virðist ganga vel að halda þessu niðri. Kemur þá ekki seinni bylgja þegar slakað verður á bönnum?“

Þessu gat ég ekki svarað, en Thor Aspelund tölfræðingur úr sérfræðingateyminu kom með góða ábendingu um grein úr National Geographic. Þar er fjallað um seinni bylgju úr spænsku veikinni árið 1918 og tengsl hennar við samkomubann.

Á myndunum hér að neðan sést hve misháir topparnir verða, en tölurnar sýna dreifingu dauðsfalla á vikur. Brúnu fletirnir sýna hve langan tíma bil milli manna var fyrirskipað og samkomubann sett á. Þar sést að toppurinn var mjög hár í Fíladelfíu, en seinni bylgjan, sem kom um 13 vikum síðar varð ekki mjög há. Í San Fransikó var fyrri toppurinn lægri, en seinni bylgjan hærri. Heildardánartíðnin var þó heldur minni, en ekki miklu.

Seinni bylgja fjórir

Í New York borg var tími aðgerða langur og sama má segja í St. Louis. Munurinn er sá að síðarnefnda borgin slakaði á of snemma og strax í kjölfarið óx tíðnin á ný og seinni toppurinn varð hærri en sá fyrri. Í báðum borgunum var dánartíðnin lægri en í borgunum tveimur á efri myndunum tveimur.

Seinni bylgja margir

Seinni myndin úr National Geographic sýnir að nánast alls staðar kom seinni bylgja, oft um 10 vikum eftir þá fyrri. Covid-19 er auðvitað ekki sami sjúkdómur, en myndirnar gefa þó til kynna að mjög líklegt er að hér komi önnur bylgja í kjölfar þess að slakað verði á aðgerðum stjórnvalda, einkum ef það gerist of snemma. Mestar líkur eru þó á því að seinni topurinn verði mun lægri en sá fyrri, en það er þó ekki öruggt.

Víða beittu menn mjög afgerandi aðferðum árið 1918 til þess að tryggja að fólk færi eftir reglum. Heilsuvörður í San Fransiskó skaut mann sem neitaði að vera með grímu og tveir saklausir vegfarendur urðu einni fyrir skotum í þeim bardaga. Víðast hvar var þó látið nægja að áminna eða sekta fólk.

Hve lengi á samkomubann að vara?

Á myndinni hér á eftir sýni ég líkurnar á því að einhver smitaður sé í hópi miðað við mismunandi hlutfall smitaðra í landinu. Myndin sýnir að ef 1% landsmanna er smitað, þá eru nær 10% líkur á því að í tíu manna hópi sé einn smitaður.

Stærð hóps

Þegar hlutfallið er 0,3% (sem kann að vera nærri lagi núna) eru samt um 15% líkur á því að minnsta kosti einn af fimmtíu manna hópi sé smitaður og tæplega 80% líkur á því að einhver í 500 manna hópi beri smit. Hættan kann því að vera að þegar smitum hefur fækkað mikið haldi Hr. Covid upp á afmælið sitt, bjóði öllum vinum, kunningjum og ættingjum og smiti mörg hundruð manns. Þess vegna virðist skynsamlegt að halda fjarlægðartakmörkunum sem lengst og afnema fjöldatakmarkanir á samkomum í áföngum.


Fyrri greinar mínar um Covid-19:

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.