Góðar Covid fréttir og verri

Nýjustu tölur um fjölda staðfestra smita sýna að enn fjölgar smituðum, en það er þó jákvætt að þeim fjölgar í takt við spá sérfræðinga. Slæmu fréttirnar eru þær að öldruðum fjölgar talsvert meðal smitaðra og jafnframt hefur sjúklingum á gjörgæslu (í öndunarvél) fjölgað.

Aðrar jákvæðar fréttir eru að skráðum í sóttkví fjölgaði aðeins um 1% eða um rétt rúmlega 100. Nú eru um 2,75% landsmanna í skráðri sóttkví, en auðvitað eru miklu fleiri í sjálfskipaðri. Enn verð ég að ítreka það sem ég sagði í gær að gagnlegt væri að skipta þeim sem eru í sóttkví upp eftir landshlutum.

Það væri líka gagnlegt ef síðan covid.is sýndi fjölda virkra smita eftir aldri. Sú mynd hefur fram til þessa verið svipuð og fjöldi smitaðra alls, en nú þegar þeim fjölgar sem lausir eru við veiruna er gagnlegt að sjá aldursskiptingu virkra smita.

Í dag horfi ég annars vegar á aldursskiptingu smitaðra og hins vegar stöðuna miðað við spálíkan sérfræðinga.

Aldursskipting smitaðra

Ég skoðaði hvernig skipting staðfestra smita er eftir aldri staðfestra smita. Niðurstaðan sést á myndinni hér fyrir neðan. Þar sést þróunin í hverjum aldurshópi frá 18. mars, en þann dag fór ég að fylgjast með tölum á covid.is. Þá voru staðfest smit 339, en eru nú 890, þar af um 800 virk (það er þeir sem hafa losnað við veiruna eru dregnir frá).

Myndin sýnir að það er aukning í öllum aldurshópum. Það sem greinir Ísland frá mörgum öðrum löndum er hve hlutfallslega fáir aldraðir hafa smitast. Þar er hlutfallið enn innan við 0,05% af aldurshópnum, það er einn af hverjum 2.000 hefur smitast svo staðfest sé. Á aldrinum 40-49 ára er hlutfallið 1 af hverjum 200. Einmitt vegna þess hve alvarlegt það er ef aldraðir smitast eru það slæmar fréttir að heyra þegar heilbrigðisstarfsmenn sýkjast því þannig getur veiran borist til þeirra sem veikastir eru fyrir.

Hlutfall smitaðra eftir aldri 26.3.

Á myndinni sést hvernig fjölgað hefur í hópnum milli 70 og 79 ára á undanfarinni viku. Þar hefur fjöldinn ríflega fjórfaldast (úr 7 í 31) á skömmum tíma. Aðeins hafa greinst 6 smit hjá fólki yfir áttrætt, en eins og vikið var að í pistli mínum í gær er líklegt að spálíkanið vanmeti þennan stærð þessa hóps. Í athugasemd Thors Aspelunds tölfræðings við færslu mína í gær sagði hann: „Vil líka bæta við að það er hárrétt athugasemd með aldurinn. Við gerðum „litla“ álagsprófun og sýndum í gær. Held að við ættum að halda henni inni þannig að gera alla vega ráð fyrir meira álagi hjá þeim eldri. Vinnum í þessu með Landspítala.“ Þarna er því líklegt að breyting verði á í næstu útgáfu líkansins.

Staðan miðað við líkanið

Í gær fjallaði ég ítarlega um spálíkan sérfræðinga Landspítalans, Landlæknis og HÍ. Í þessum skrifum vísa ég alltaf til þess líkans.

Miðað við tölurnar á miðnætti voru 3 á gjörgæslu, en þeim hefur fjölgað í 6 í dag samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum. Þessi hluti spálíkansins er sá eini sem ekki hefur reynst vera nákvæmur, en því miður er hann líka sá sem mestu máli skiptir, bæði fyrir sjúklinga, aðstandendur og heilbrigðiskerfið. Til þess að rifja upp sagði líklegasta spá að flestir á gjörgæslu yrðu 5 og svartsýnisspá talaði um 11. Miðað við daginn í dag liggur talan við svartsýnisspána.

Hér að neðan hef ég sett fram stöðuna sem hlutfall af spánni frá 25. mars á mælaborði. Þar sést að virk smit eru nánast alveg eins og spáin sagði fyrir um, innlagnir á spítala talsvert færri (á miðnætti voru þær 17 en eru nú 18 samkvæmt Landspítalanum) en líkanið spáði aðeins tveimur á gjörgæslu. Þennan þátt þarf að skoða betur. Miðað við nýjustu upplýsingar hefur græni mælirinn (gjörgæslan) nú slegið upp í 300%, sem er auðvitað mjög hátt, en prósentur verða háar þegar deilitalan er lág. Í tölfræðinni er oftast auðveldara að spá fyrir um algenga viðburði en fágæta.

Staðan 26.3.

Niðurstaða dagsins

Miðað við nýjustu tölur virðist sem tekist hafi að halda heildarfjölda smitaðra innan þeirra marka sem áætlanir byggðar á spálíkani gera ráð fyrir. Ef marka má tölur um fjölda í sóttkví (sem ég er ekki viss um), en þær eru undanfari talna um smit, þá er þar að nást jafnvægi. Spár gera ráð fyrir því að jafnvægi í smitum náist eftir 10 til 15 daga.

Slæmu fréttirnar eru að sjúklingum í gjörgæslu hefur fjölgað mikið. Vonandi sést ekki framhald á þeirri þróun næstu daga, en heilbrigðisyfirvöld verða samt að búa sig undir að hún verði á verri veg.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.